Lúxusbílar runnu út

Rafbíllinn Jaguar I-Pace.
Rafbíllinn Jaguar I-Pace.

Það sem einkenndi maísölu bílaumboðsins BL öðru fremur var góð sala á lúxusbílum. Alls voru 111 slíkir bílar nýskráðir frá BMW, Jaguar og Land Rover.

Í öðru lagi einkenndi góð sala hreinna rafbíla mánuðinn hjá BL, þar sem 74 voru nýskráðir frá Jaguar, Nissan, Hyundai, Renault og BMW. Jaguar I-Pace, heimsbíl ársins 2019, var þar fremstur í flokki en alls voru 24 slíkir afhentir í maí. Þar á eftir kom Nissan með 23 rafbíla skráningar og Hyundai með 18. Af tengiltvinnbílum hjá BL voru 22 nýskráðir í maí, flestir frá Land Rover, alls níu.

Samkvæmt upplýsingum frá BL voru alls 70 nýir sendibílar frá Renault, Nissan og Dacia skráðir, flestir af gerðinni Renault og Dacia. Var markaðshlutdeild fyrirtækisins á þeim hluta atvinnubílamarkaðarins 47,3 prósentum í maí og 39,4% fyrstu fimm mánuði ársins. Það er aukning um 2,8 prósentustig frá á sama tímabili 2018.

Í maí var 2.161 fólks- og sendibíll nýskráður í landinu, 29% færri en í sama mánuði 2018. Af þeim voru 672 af merkjum BL og var markaðshlutdeild fyrirtækisins rúm 31% í mánuðinum. Það sem af er ári hafa 35,2% færri bílar verið nýskráðir í  landinu.

mbl.is