Kanna samruna PSA og Fiat-Chrysler

Nýi rafbíllinn Peugeot e-208.
Nýi rafbíllinn Peugeot e-208. AFP

Franski bílsmiðurinn PSA Group, móðurfélag Peugeot og  Citroen, á í viðræðum við ítölsk-bandarísku samsteypuna Fiat Chrysler (FCA) um hugsanlegan samruna.

Endi viðræðurnar með því að fyrirtækin renni saman yrði til fyrirtæki að tæplega 50 milljarða markaðsverðmæti.

Fulltrúi PSA staðfesti í morgun að viðræður séu í gangi en við fréttirnar hækkuðu bréf Fiat Chrysler samstundis um 7,5% á hlutabréfamarkaðinum á Wall Street í New York.

Þetta er í annað sinn á árinu sem FCA freistar samruna við annan bílsmið á árinu. Í júní sl. runnu viðræður um sameiningu fyrirtækisins og franska bílsmiðsins Renault út í sandinn.

Ljóst þykir að yfirstíga þurfi verulegar pólitískar og fjárhagslegar hindranir í samningaviðræðunum. Eru þær enn sem komið er sagðar nánast á frumstigi og engin trygging fyrir samkomulagi um fjárhagslega hlið samrunans.

Gangi hins allt upp er búist við að forstjóri hins stóra sameinaða fyrirtæki verði Carlos Tavares núveradi forstjóri PSA.

Táknmerki FCA (Fiat Chrysler Automobiles) og franska bílsmiðsins PSA Peugeot …
Táknmerki FCA (Fiat Chrysler Automobiles) og franska bílsmiðsins PSA Peugeot Citroen. AFP
mbl.is