Peugeot, Citroen, Fiat og Chrysler í eina sæng

Bílalager við bílsmiðju PSA Peugeot-Citroen í Rennes í Frakklandi.
Bílalager við bílsmiðju PSA Peugeot-Citroen í Rennes í Frakklandi. AFP

Franski bílaframleiðandinn Peugeot-Citroen (PSA) og ítalsk-bandaríska samsteypan Fiat-Chrysler (FCA) hafa komist að samkomulagi um samruna fyrirtækjanna tveggja á jöfnum grundvelli.

Nýja fyrirtækið verður fjórði stærsti bílsmiður heims. Sameiginleg bílasala fyrirtækjanna fjögurra nemur um 170 milljörðum evra á ári og rekstrarafgangi upp á 11 milljarða evra.

FCA seldi rúmlega 4,6 milljónir bíla um heim allan og PSA 3,96 milljónir. Stærstu markaðir FCA eru Bandaríkin, Ítalía og Brasilía  og helstu markaðssvæði PSA hafa verið í Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi.

Í tilkynningu um samrunann segir að hann muni hafa í för með sér milljarða dollara sparnað án þess að til lokunar bílsmiðja þurfi að koma. Til að koma samrunanum í kring verður móðurfélag stofnað með aðsetur í Hollandi.

mbl.is