Tyrkir frumsýna rafbíl

Recep Tayyip Erdogan Tyrkjaforseti við nýja tyrkneska rafbílinn, TOGG.
Recep Tayyip Erdogan Tyrkjaforseti við nýja tyrkneska rafbílinn, TOGG. AFP

Tyrknesk stjórnvöld frumsýndu á föstudag fyrsta bílinn sem er að fullu hannaður og smíðaður þar í landi. Um er að ræða rafmagnsbíl sem ætlunin er að framleiddur verði í allt að 175.000 eintökum árlega.

Samtals verður jafnvirði 3,7 milljarða dala varið í verkefnið og dreifist kostnðurinn á þrettán ár, að því er Reuters greinir frá.

Á kynningarathöfninni sagði Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti að til stæði að selja rafmagnsbílinn bæði innanlands og á erlendum mörkuðum.

Nýi bíllinn hefur fengið nafnið TOGG, sem er skammstöfun á Türkiye’nin Otomobili Girisim Grubu, eða Tyrkneska bílasamsteypan. Var TOGG sýndur í tveimur útgáfum á föstudag; í sportjeppaútfærslu og sem stallbakur.

Mikil bílaframleiðsla fer nú þegar fram í Tyrklandi og reka t.d. Ford, Fiat, Toyota og Hyundai verksmiðjur þar í landi. TOGG er þó fyrsti bíllinn sem er tyrkneskur í húð og hár. Fjöldaframleiðsla á TOGG-sportjeppanum á að hefjast árið 2022. ai@mbl.is

mbl.is