Stórir bandarískir bílar hafðir fyrir rangri sök

„Þetta er ekkert annað en gróf neyslustýring sem er byggð …
„Þetta er ekkert annað en gróf neyslustýring sem er byggð á svo miklum misskilningi að hún veldur margfalt meiri mengun,“ segir Ingimar um þau útblástursgjöld sem lögð eru á bíla sem fluttir eru inn til Íslands. Ljósmynd/Guðmundur Karl Sigurdórsson

Ingimar Baldvinsson er með brennandi ástríðu fyrir bandarískum bílum og með áhugaverðar skoðanir á þeirri stefnu sem framleiðendur hafa neyðst til að taka til að fullnægja evrópskum mengunarkröfum.

Hann segir íslensk stjórnvöld á villibraut enda af og frá að skattleggja bíla eftir koltvísýringslosun, og honum leiðist sú mýta um stórar bandarískar bifreiðar að þær eyði miklu eldsneyti og mengi mikið.

Öflugur dráttarbíll nýlentur

GMC-pallbílarnir koma með Fox-dempurum og 35 tommu dekkjum frá IB.
GMC-pallbílarnir koma með Fox-dempurum og 35 tommu dekkjum frá IB.


Ingimar er eigandi og framkvæmdastjóri IB ehf. á Selfossi og hefur flutt inn til Íslands bandaríska bíla í um aldarfjórðung. Bílana kaupir Ingimar nýja og selur með ábyrgð án þess þó að vera umboðsaðili enda segir hann umboðsrekstur ekki raunhæfan örmarkaði eins og Íslandi. Eru það einkum voldugir pallbílar sem verða fyrir valinu, s.s. Ford F-350, GMC Sierra og Dodge Ram.

Nú síðast var Ingimar að fá til landsins fjóra splunkunýja GMC Sierra Denali árgerð 2020 og eru það sennilega fyrstu eintökin af fjórðu kynslóð þessa merkilega pallbíls sem kom á markað í Evrópu. „Búið er að endurnýja allt í bílnum nema vélina: hann er kominn með nýja grind, nýja skel, 10 gíra sjálfskiptingu og sverari hásingar,“ útskýrir Ingimar en Sierra-línan leit fyrst dagsins ljós árið 1999 og var síðast tekin í gegn 2007 og 2015. Kalla má Denali lúxus-útfærslu GMC og fást allar bifreiðar framleiðandans, frá Terrain-smájeppanum upp í Sierra, í Denali-gerð sem þekkist m.a. á krómuðu grillinu.

„Kaupendurnir eru einkum fólk sem þarf á öflugum dráttarbíl að halda. Eru það t.d. bændur, hestamenn og verktakar, og svo auðvitað ævintýrafólk sem þarf góðan pall til að flytja vélsleða, fjórhjól, og torfæruhjól milli staða eða draga stórt hjólhýsi,“ segir Ingimar

„Hann kemur með 34 tomma dekkjum frá framleiðanda og tekur 35 tomma dekk óbreyttur. Felgurnar eru breiðar og brettaantarnir rúmir og kjörið fyrir íslenskar aðstæður að umfelga og fara yfir á 35 tommur til að fá meiri mýkt í aksturinn og ráða betur við krefjandi akstursskilyrði – og láta bílinn „lúkka“ betur. Verður upphækkunin ekki ódýrari en oft getur kostað eina til tvær milljónir aukalega að breyta stórum bílum og setja undir þá 35 tomma dekk,“ útskýrir Ingimar en IB afhendir Sierra-pallbílana á 35 tomma dekkjum, með Fox-dempurum, ryðvörn og keramíkvörðu lakki, allt gert eftir óskum kaupanda.

Nituroxíð er alvöru mengun

GMC hefur tekið Sierra algjörlega í gegn, og breytt öllu …
GMC hefur tekið Sierra algjörlega í gegn, og breytt öllu nema vélinni.


En hvað um það orðspor sem loðir við stóra bandaríska bíla, að vera bensínhákar sem spúa út í loftið gufum sem munu hita jörðina upp? Ingimar segir GMC Sierra þvert á móti nokkuð sparneytna bíla og umhverfisvæna. „Þeir eru með AdBlue-kerfi, búnir skilvirkum sótsíum, og í langkeyrslu er eyðslan nálægt 12 lítrum á hundraðið, sem er ekki lítið afrek ef við höfum í huga að eigin þyngd bílsins er um 3,7 tonn.“

Sierra losar töluvert af koltvísýringi, en Ingimar segir umræðuna um útblástur byggjast á alvarlegum misskilningi og réttara væri að fylgja fordæmi Bandaríkjanna þar sem ofuráhersla er lögð á að lágmarka magn nituroxíðs. „Kalifornía ruddi brautina að þessu leyti og öll ríki Bandaríkjanna fylgdu í kjölfarið með því að leyfa hærra magn koltvísýrings í útblæstri en margfalt lægra magn nituroxíðs. Í Evrópu er þessu öfugt farið, leyfilegum koltvísýringi haldið í lágmarki en mun minni skorður settar við losun nituroxíðs í bruna á eldsneyti. Samt er koltvísýringur skaðlaus lofttegund á meðan það er nituoxíðið sem hefur sannarlega alvarleg áhrif á heilsu fólks,“ útskýrir Ingimar. „Vegna reglnanna í Evrópu hafa framleiðendur í þeim heimshluta þurft að kreista eins mikið og þeir geta úr hverjum bensín- og dísilolíudropa, með sem minnstu rúmtaki og sem mestum þrýstingi en um leið verður bruninn verri að því leyti að fleiri skaðleg efni fara út um púströrið þó að koltvísýringurinn sé sem minnstur. Bandarísku vélarnar byggjast meira á sem mestu rúmtaki, að ná góðu togi og betri bruna.“

Ingimar er ekki sáttur við stefnu stjórnvalda varðandi vörugjöld tengd koltvísýringi í útblæstri en þessi gjöld bæta frá 0-65% ofan á innflutningsverðið. „Þetta er ekkert annað en gróf neyslustýring sem er byggð á svo miklum misskilningi að hún veldur margfalt meiri mengun og stuðlar að innkaupum á óöruggari og óvandaðri bílum en þyrfti að vera,“ segir hann. „Evrópska gjaldaumhverfið hampar til dæmis tengiltvinnbílum með óskiljanlegum koltvísýrings-vottorðum, sem komast samt ekki mikið meira en frá heimreiðinni að fyrstu gatnamótum á rafmagninu einu saman, þegar kalt er í veðri, að ekki sé talað um rafmagnsbílana sem sleppa að öllu eða mestu leyti við að taka þátt í kostnaðinum við að halda samgönguinnviðum í horfinu. Myndi það síðan eflaust vera þjóðhagslega hagkvæmt, m.t.t. kostnaðar af slysum, ef gjöld væru með eðlilegri hætti svo að landsmenn ækju um á nýrri, öruggari og sterkbyggðari bílum frekar en á hálfgerðum druslum sem sumar hverjar væri réttara að kalla drápsdollur því þær veita svo litla vernd í árekstri eða veltu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »