Í góðum félagsskap öndvegisbíla og öndvegisfólks

Þegar ljósmyndara bar að garði fyrir viku var þegar allstór …
Þegar ljósmyndara bar að garði fyrir viku var þegar allstór hópur fólks mættur á svæðið. Í Facebook-spjallhópi Cadillac-klúbbsins eru um 800 manns og hægt að finna sams konar félög bílaáhugafólks um allan heim. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eins og lesendur vita geta bílar verið svo mikið meira en bara samgöngutæki. Sumir bílar eru listaverk; aðrir eru táknmynd ákveðins kafla í sögunni og endurspegla tíðarandann betur en flest annað; svo eru bílar sem eru tækniundur og bera vott um ótæmandi metnað og útsjónarsemi verkfræðinga og hönnuða.

Skemmtilegast af öllu er samt þegar bílar verða til þess að tengja fólk saman og skapa grundvöll fyrir vinskap og samveru. Gott dæmi um þetta er starfsemi Íslenska Cadillac- klúbbsins en þar hefur myndast skemmtilegur vettvangur fyrir bílaáhugafólk á öllum aldri. Klúbburinn opnar félagsheimili sitt öll þriðjudagskvöld og geta allir sem hafa gaman af fallegum bílum litið þar inn og fengið sér eins og einn kaffibolla og bita af bakkelsi. Á fundunum spinnast oft skemmtilegar umræður; stundum eru haldnir tónleikar og jafnvel að gestir horfa á góða kvikmynd sem hefur einhverja tengingu við bílaheiminn.

Jóhann Vilhjálmsson byssusmiður er formaður Íslenska Cadillac- klúbbsins og hefur verið frá árinu 2008 eftir að hafa óvænt verið kallaður á fund á kaffihúsi. „Upphafsmenn félagsins voru þeir Ólafur Gunnarsson og Einar Kárason sem héldu af stað í bandarískt þjóðvegaferðalag árið 2005 á hálfrar aldar gömlum amerískum Kadilják, í góðra vina hópi. Varð ferðalagið efniviður í bókina Úti að aka sem kom út 2006, og samnefnda heimildarmynd um ævintýrið og uppátækin á leiðinni. Í kringum þessa ferð stofna þeir klúbbinn til að geta fengið inngöngu í alþjóðasamtökin Cadillac & Lasalle Club (CLC) og fengu tuttugu manns til að gerast með þeim stofnfélagar,“ segir Jóhann söguna. „Árið 2008 er ég svo kallaður á fund, afhent stofnskjöl og fundargerðarbók og gerður að formanni með rússneskri kosningu.“

Ómissandi á Menningarnótt

Reiknast Jóhanni til að fullvirkir og greiðandi félagar séu um 30 talsins en til viðbótar við þann hóp er allstór hópur áhugamanna og áhangenda, og eru 800 manns í umræðuhóp klúbbsins á Facebook. „Til að vera með þarf fólk ekki einu sinni að eiga Kadilják og allir velkomnir í heimsókn til okkar í Súðavog 30.“

Félagsheimilið er gamalt iðnaðarhúsnæði þar sem bílaspekúlantinn Kristján Jónsson, kallaður Stjáni Meik, hafði aðstöðu á sínum tíma. Þar er núna stór og mikil bílageymsla og reiknast Jóhanni til að í húsinu séu um 20 bílar, hver öðrum fegurri og merkilegri. Flotinn er tekinn úr geymslu við sérstök tækifæri og hefur t.d. skapast hefð fyrir því að meðlimir klúbbsins sýni ökutæki sín á torginu fyrir framan Hörpu á Menningarnótt. Einnig fer hópurinn í sveitabíltúr á sumrin og aka þá í halarófu á skemmtilegan áfangastað fornbílar og nýir bílar í bland. Hópurinn er fjölbreyttur og segir Jóhann að yngsti félagi Íslenska Cadillac-klúbbsins sé á þrítugsaldri en aldursforsetarnir eru eldri en elstu bílarnir í safninu.

En af hverju að velja þessa bandarísku bíltegund sem þungamiðjuna í félagi áhugafólks um bíla? Jóhann segir Cadillac-bíla stórmerkileg farartæki fyrir margra hluta sakir, og hafi séstakan sess í hjörtum fólks með bíladellu. „Þeir voru á margan hátt táknræknir fyrir gullaldartímabil í bandarískri bílaframleiðslu og bandarískri sögu, og leitun að vandaðri og dýrari bandarískum bifreiðum á þeim tíma sem stjarna Cadillac reis hvað hæst. Mátti kaupa tvær eða þrjár Mustang-bifreiðar fyrir verðið á einum Kadilják og mikið í bílana lagt. Fyrir utan íburðinn og gæðin þá einkenndi það Cadillac að vera leiðandi í þróun alls kyns nýjunga og aukabúnaðar.“

Vegna þess hve vandað var til verka við smíðina segir Jóhann að varla sjái á gömlum Cadillac-bifreiðum ef vel hefur verið um þær hugsað og unaður að aka þessum bílum enn þann dag í dag. „Ég á 76-árgerð og að aka þeirri bifreið er eins og að svífa um á skýi. Upplifunin er ótrúleg og eitthvað sem nýrri bílar geta ekki keppt við.“

Ekki endilega dýrt eða flókið að eiga fornbíl

Hvernig er svo að eiga fornbíl? Er sambúðin erfið og kallar á mikið viðhald? Jóhann segir að það þurfi hvorki að vera svo dýrt né erfitt að eiga fornbíl, en þó ómissandi að eiga skúr eða geymslu þar sem geyma má bílinn og vernda gegn óhreinindum, veðri og vindum. „Fyrir 1-2 milljónir má eignast ágætisfornbíl, og ef um er að ræða viðbótarbíl á heimilinu bætir það litlu við skyldutryggingarnar að eignast fornbíl,“ segir Jóhann og bendir á að bílar eldri en 40 ára beri lægri vörugjöld en nýrri bílar. „Þá er auðveldara að halda fornbílum við í dag en fyrir t.d. 20 árum, því þá gat verið heljarinnar vandi að finna varahluti. Í dag má finna hvað sem er á augabragði á netinu og fá sent til landsins með hraði.“

Ættu þeir sem kunna ágætlega á bíla, eru handlagnir og hafa réttu aðstöðuna, að geta sinnt einföldu viðhaldi á fornbíl sjálfir, og eru gömlu bílarnir langtum einfaldari í umgengni í dag en nýjustu bílar sem eru svo fullkomnir og tæknivæddir að liggur við að tengja þurfi þá við sérhæfðar tölvur og verkfæri til þess eins að skipta um sprungna peru. „En á móti kemur að þeim sem hafa sérþekkingu á þessum bílum fer fækkandi,“ segir Jóhann. „Þannig hringdi ég um daginn á stillingaverkstæði og spurði hvort þeir gætu stillt fyrir mig gamlan Kadilják. Það var aldeilis sjálfsagt þangað til ég var spurður hve gamall bíllinn væri, og svaraði að hann væri frá 1976. „Þeir eru bara allir dánir sem kunnu þetta,“ sagði þá starfsmaðurinn.“

Auðvelt er að gleyma sér á vefsíðum eins og eBay þar sem finna má úrval fallegra fornbíla til sölu. Jóhann segir samt gott að fara varlega þegar fornbíll er keyptur yfir netið, og best að skoða bílinn með eigin augum ef þess er kostur. „Dæmi eru um að menn hafi keypt bíl á netinu og flutt inn til landsins, til þess eins að uppgötva að þeir voru ekki jafn fallegir í raun og þeir voru á myndunum, fullir af spasli og rétt búið að sprauta þá nógu vel til að fela ástandið. Eitt sem kaupendur geta gert til að verja sig er að fá CLC-félaga í Ameríku til að vera sér innan handar.“

Jóhannes Norðfjörð við forláta Cadillac Coupe DeVille árgerð 1962.
Jóhannes Norðfjörð við forláta Cadillac Coupe DeVille árgerð 1962. mbl.is/Kristinn Magnússon
Jóhann formaður með Cadillac Fleetwood Brougham d’Elegance 1976.
Jóhann formaður með Cadillac Fleetwood Brougham d’Elegance 1976. mbl.is/Kristinn Magnússon
Cadillac Sedan DeVille 1994 og Cadillac Eldorado árg. 1990.
Cadillac Sedan DeVille 1994 og Cadillac Eldorado árg. 1990. mbl.is/Kristinn Magnússon
Þennan merkilega útfararbíl keyptu félagsmenn klúbbsins í sameiningu.
Þennan merkilega útfararbíl keyptu félagsmenn klúbbsins í sameiningu. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »