Stærst umboða í rafknúnum bifreiðum

Tengiltvinnbíllinn Mitsubishi Outlander er mest seldi bíllinn til einstaklinga það …
Tengiltvinnbíllinn Mitsubishi Outlander er mest seldi bíllinn til einstaklinga það sem af er ári.

Hekla er með 25% markaðshlutdeild á heildarmarkaði fólks- og sendibíla frá áramótum. Er það 12 prósentustigum hærra hlutfall en á sama tíma í fyrra og það þrátt fyrir að fólksbílamarkaðurinn hafi dregist saman um 15%.

Þá er Hekla í fyrsta sæti í sölu til einstaklinga með 24,4% hlutdeild og í öðru sæti í sölu til fyrirtækja og bílaleiga, að því er fram kemur í tilkynningu.

„Hekla er stærst umboða í rafknúnum bifreiðum og með tvo vinsælustu bílana á einstaklingsmarkaði,“ segir þar en fyrirtækið er með umboð fyrir Audi, Volkswagen, Skoda og Mitsubishi.

Að sögn er Audi í sérflokki meðal rafbíla með alls 18,7% skerf af markaðinum. Í öðru sæti er Volkswagen með tæpa 15% hlutdeild. Samtals eru Audi, Volkswagen og Mitsubishi með yfir 37% af heildarsölu slíkra bíla.

Mitsubishi leiðir áfram tengiltvinnbílamarkaðinn með Outlander PHEV sem er með 27,7% hlutdeild og hann er jafnframt mest seldi bíllinn til einstaklinga á Íslandi. Í öðru sæti yfir mest selda bíla til einstaklinga í mánuðinum er hinn alrafmagnaði Audi e-tron.

Loks er Hekla með 92,8% hlutdeild þegar kemur að metanknúnum bifreiðum, að sögn umboðsins.

Audi e-Tron.
Audi e-Tron.
mbl.is