Geta sótt bílinn hvenær sem er sólarhringsins

Aðgangsstýrða lyklaboxið hjá BL.
Aðgangsstýrða lyklaboxið hjá BL.

Sjálfvirkt og aðgangsstýrt lyklabox hefur verið tekið í notkun í milligangi utan við verkstæðismótttöku BL sem gerir viðskiptavinum kleift að koma með bíl á verkstæði eða að sækja bílinn sinn eftir viðgerð eða eftirlitsþjónustu utan hefðbundins afgreiðslutíma, hvenær sem er sólarhringsins.

„Með tilliti til núverandi samfélagsaðstæðna af völdum kórónuveirunnar hentar nýi búnaðurinn ákaflega vel í því skyni að lágmarka eins og kostur er nærsamskipti milli fólks svo komast megi hjá auknum líkum á smiti. Þegar bifreiðin er búin í þjónustu býðst viðskiptavinum sem fyrr að koma á staðinn og sækja bíllykilinn í móttökuna. Kjósi viðskiptavinur hins vegar að nýta sér aðgangsstýrða lyklaboxið er bíllykillinn settur í lyklaboxið. Viðskiptavinurinn fær í kjölfarið SMS með strikamerki sem hann notar til að opna hólfið með rétta bíllyklinum,“ segir í tilkynningu.

Nýlunda þessi er viðbót við eldra fyrirkomulag hjá BL sem býður viðskiptavinum að koma tímanlega með bílinn í pantaða þjónustuskoðun með því að skila bíllyklinum innum bréfalúgu í sérstöku umslagi sem aðgengileg eru í póstkassa við lúguna. Fyrirkomulagið kemur sér vel fyrir þá sem eiga ekki heimangengt með bílinn að morgni þess dags sem þjónustan á að fara fram eða hvenær sem er sólahringsins.

mbl.is