300 hesta Opel tvinnbíll frumsýndur

Opel Grandland X í tengiltvinnútgáfu.
Opel Grandland X í tengiltvinnútgáfu.

Bílabúð Benna frumsýnir á morgun, laugardag, nýja útgáfu af flaggskipi Opel sportjeppanna, Opel Grandland X í tengiltvinnútgáfu.  

Bílabúðin hefur fagnað 45 ára afmæli sínu í sumar með fjölbreyttum viðburðum, frumsýningum og tilboðum. Frumsýningin á morgun er einn þessara viðburða.

Grandland Plug-in Hybrid útgáfan er með 300 hestafla drifrás, fjórhjóladrifi og drægii upp á 59 km á rafmagni einu saman. Hann mun líka verða fáanlegur framdrifinn og eru báðar útgáfur búnar 8 gíra sjálfskiptingu.

Í tilkynningu segir að bíllinn sé einstaklega rúmgóður bæði frammí og afturí auk þess sem farangursrýmið er mjög rúmgott.

„Eitt það athyglisverðasta við þennan eðal sportjeppa er að hér hefur Opel tekist að ná heilum 300 hestöflum út úr hybrid-vél. Og það skilar sér svo sannarlega á vegum úti, enda hrein akstursupplifun að aka honum; krafturinn, upptakturinn, mýktin og bara allt. Þetta er hreint út sagt stórkostlegur bíll í alla staði,“ segir Benedikt Eyjólfsson hjá Bílabúð Benna um nýja bílinn.   

Nýr Opel Grandland X verður frumsýndur í sýningarsal Opel Krókhálsi 9 á morgun, laugardaginn 22. ágúst klukkan 12-16. 

mbl.is