Kaupir 1.800 rafknúna Mercedes atvinnubíla

Amazon kaupir 1200 eSprinter rafbíla af Mercedes-Benz.
Amazon kaupir 1200 eSprinter rafbíla af Mercedes-Benz.

Póstverslunin Amazon hefur pantað 1.800 rafknúna Mercedes-Benz atvinnubíla til að lækka kolvetnisspor fyrirtækisins og auka hagkvæmni í rekstri. Meirhluti bílanna mun fara í notkun strax á þessu ári.

Um er að ræða 1.200 eSprinter rafmagns atvinnubíla og 600 eVitos bíla. Af þessum 1.800 Mercedes-Benz atvinnubílum verða 800 teknir í notkun í Þýskalandi og 500 í Bretlandi samkvæmt upplýsingum frá Amazon. Jeff Bezos, forstjóri Amazon, segir að þessi stóri samningur við Daimler, eiganda Mercedes-Benz, sé mikilvægur í þeirri vegferð Amazon að gera bílaflota sinn þann umhverfismildasta í heimi.

Þetta er stærsti einstaki samningur sem Mercedes-Benz hefur gert varðandi sölu á atvinnurafbílum en slær þó ekki út risastóran samning sem fyrirtækin tvö gerðu árið 2018 um kaup Amazon á 20.000 atvinnubílum frá Mercedes-Benz. Þeir bílar voru þó allir með dísil- og bensínvélum.

Mercedes-Benz hefur lagt mikla áherslu á rafvæðingu bílaflota síns bæði hvað varðar fólksbíla og atvinnubíla. Nýjustu gerðirnar eSprinter og eVito eru hreinir rafbílar með engan útblástur.

mbl.is