Verður ódýrasti rafbíll Evrópu

Rafbíllinn Dacia Spring kemur á götuna í Evrópu haustið 2021.
Rafbíllinn Dacia Spring kemur á götuna í Evrópu haustið 2021.

Fransk-rúmenski bílasmiðurinn Dacia treystir á að knöpp mál og viðkunnanleg hönnun falli í kramið hjá neytendum þegar hann kemur á markað með hreina rafbílinn Dacia Spring haustið 2021.

Dacia ætlaði að sýna bílinn í tilraunaútgáfu á bílasýningunni í Genf í mars síðastliðnum en henni var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins.

Sami bíll að miklu leyti, Renault Kiwi, hefur runnið út sem heitar lummur í Indlandi og nokkrum öðrum mörkuðum undanfarið. Í Kína hefur bíllinn í annarri útfærslu, K-ZE, gengið vel.

Ekkert annað er vitað en það að Dacia Spring verði framleiddur í bílsmiðjum Dacia, dótturfélags Renault í Rúmeníu. Þar hafa öll módelin til þessa verið smíðuð.

Spring er 3,73 metra langur, 1,62 metrar á breidd og 1,51 metra hár. Hæð upp í lægsta punkt er 15 sentimetrar. Með öðrum orðum, aðeins minni en t.d. Toyota Yaris en stærri en Toyota Aygo.

Farangursgeymslan er hin sómasamlegasta í þessum stærðarflokki bíla, eða 300 lítrar. Það verður tvöfalt stærra, 600 lítrar, með því að fella niður aftursætin. Vel mun fara um fjóra í Dacia Spring að sögn bílsmiðsins.

Margs konar öryggis- og hjálparbúnaður mun prýða Dacia Spring, þar á meðal aflstýri, miðlæsing, rafdrifnar hliðarrúður, loftræsting, upplýsinga- og afþreyingarkerfi. Ennfremur skriðstillir, sjálfvirk neyðarhemlun, sex líknarbelgir og sjálfvirk upphringing vegna neyðarþjónustu.

Baksýnismyndavél er ekki hluti staðalbúnaðar né heldur leiðsögukerfi, stæðastoð og sjö tommu aðgerðaskjár.

Sem sagt dæmigerður borgarbíll og aðgengilegur flestum í verði. Drægi Dacia Spring er 225 kílómetrar að meðaltali en 295 km í þéttbýlisakstri.

Rafmótorinn er 33 kílóvött, eða ígildi 44 hestafla. Rafhlaðan er 26,8 kílóvattstundir og má hlaða hana að 80% á innan við klukkustund á 30 kílóvatta jafnstraumshleðslutæki. Með heimahleðslu bíður bíllinn eiganda síns fullhlaðinn að morgni. Með sérstöku appi, MyDacia, má forhita bílinn með fjarstýringu.

Með því að smella á vistaksturshnappinn Eco takmarkast aflið við 31 hestöfl og hámarkshraða við 100 km/klst. Með þessu má auka drægi bílsins um 10%.

Í breskum bílablöðum er áætlað að bíllinn verði seldur á innan við 19.000 pund og í Noregi telja bílafræðingar að verðið á Dacia Spring muni lenda á bilinu 100 til 150 þúsund norskra króna, jafnvirði 1,5 til 2,2 milljóna íslenskra án virðisaukaskatts.

agas@mbl.is

Rafbíllinn Dacia Spring kemur á götuna í Evrópu haustið 2021.
Rafbíllinn Dacia Spring kemur á götuna í Evrópu haustið 2021.
Rafbíllinn Dacia Spring kemur á götuna í Evrópu haustið 2021.
Rafbíllinn Dacia Spring kemur á götuna í Evrópu haustið 2021.
Rafbíllinn Dacia Spring kemur á götuna í Evrópu haustið 2021.
Rafbíllinn Dacia Spring kemur á götuna í Evrópu haustið 2021.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »