Þjarmað að símnotendum

Bílstjóri reynir að hringja úr farsíma fyrir framan aðvífandi vörubíl.
Bílstjóri reynir að hringja úr farsíma fyrir framan aðvífandi vörubíl.

Ólöglegt verður með öllu að taka upp síma og meðhöndla hann meðan setið er undir stýri, samkvæmt nýsettum lögum sem koma til framkvæmda í Bretlandi í byrjun næsta árs, 2021.

Með lagabreytingunni hefur verið lokað fyrir smugu í umferðarlögunum sem leyfði ökumönnum að nota gemsa til að spila leik eða taka myndir á ferð.

Áfram verður ökumanni heimilt að brúka farsímann til að borga fyrir mat við lúgu á skyndibitastað. Þá getur bílstjóri notað símann handfrjálst til samtala. Samkvæmt núverandi reglum er bannað að hringja og senda textaboð undir stýri.

Samgönguráðherrann Vere barónessa sagði að það hátterni að halda síma upp að eyrunum á ferð væri „afvegaleiðandi og stórhættulegt“. Og að „allt of lengi hafa glannalegir ökumenn sloppið án refsinga“. Formaður samtaka lögreglustjóra sagði sömuleiðis símnotkun undir stýri „óhugnanlega hættulega“ og það gæti breytt lífi fólks til frambúðar ef það afvegaleiddist undir stýri. „Lögreglan mun ganga hart fram gegn þeim sem nota síma undir stýri,“ bætti hann við.

Refsingin fyrir ökumenn sem gripnir verða í símanum undir stýri er að þeir tapa sex ökuskírteinispunktum af 12 og verða auk þess sektaðir um 200 sterlingspund, um 36 þúsund krónur.

Í fyrra biðu 637 manns bana á breskum vegum. Urðu 18 dauðsföll og 135 alvarleg slys í árekstrum þar sem símnotkun ökumanna átti hlut að máli.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »