SsangYong með bestu kaupin

Rexton er greinilega í uppáhaldi hjá blaðamönnum tímaritsins 4X4.
Rexton er greinilega í uppáhaldi hjá blaðamönnum tímaritsins 4X4.

Bílaframleiðandinn SsangYong hefur átt töluverðri velgengni að fagna undanfarin misseri og stutt síðan Musso-pallbíllinn hlaut viðurkenningu fyrir „bestu kaupin“ (e. Best Value) í flokki pallbíla hjá tímaritinu 4X4 og það þriðja árið í röð.

Í tilkynningu frá Bílabúð Benna segir að nú hafi þau tíðindi borist að jeppinn Rexton, flaggskip SsangYong-fjölskyldunnar, hafi hlotið viðurkenninguna „Best Value 4X4“ hjá sama tímariti og er það fjórða árið í röð sem Rexton er hlutskarpastur í þessum flokki.

„Samkeppnin í 4X4 geira markaðsins er gríðarlega hörð og að taka þessi verðlaun fyrir Rexton er mikil viðurkenning, svo ekki sé talað um að gera það fjórum sinnum í röð. Það er klár vitnisburður um hversu öflugur Rexton er,“ er haft eftir Kevin Griffin, framkvæmdastjóra SsangYong í Bretlandi.

Að sögn Benedikts Eyjólfssonar, framkvæmdastjóra Bílabúðar Benna, hefur Rexton fengið góðar viðtökur hjá Íslendingum. „Við finnum vel fyrir því að fólk er að átta sig á hversu magnaður þessi jeppi er í alla staði og allar viðurkenningarnar styðja þá staðreynd. Við höfum lagt áherslu á að fólk geri samanburð á öllum þáttum í þessum flokki og átti sig á hvað Rexton er stórkostlegur 4X4 jeppi og á frábæru verði,“ segir hann og bendir á að þessa dagana bjóðist kaupendum 33 tommu hækkun á Rexton án aukakostnaðar.

mbl.is