Stærri sendibíll væntanlegur frá Maxus

e-Deliver 9 er arftaki Maxus EV80 og er með burðargetu …
e-Deliver 9 er arftaki Maxus EV80 og er með burðargetu allt að 1.200 kg. Ljósmynd/Vatt

Í vor kemur á markað nýr sendibíll frá kínverska rafbílaframleiðandanum Maxus en þegar eru fáanlegir á Íslandi sendibíllinn e-Deliver 3 og sjö manna fjölnotabíllinn Euniq. Er það Vatt ehf., dótturfélag Suzuki bíla hf., sem flytur bílana inn.

Í tilkynningu frá Vatt segir að nýi rafsendibíllinn, e-Deliver 9, sé búin stóru flutningsrými og bjóði upp á þægilegt umhverfi fyrir ökumann. Þá er akstursdrægi mikið og bíllinn ríkulega búinn öryggisbúnaði.

Maxus hefur gert mikla lukku á norskum markaði og eru ökutæki framleiðandans á meðal mest seldu rafsendibíla þar í landi. Frá því e-Deliver 3 kom þar á markað í fyrra hefur hann selst í nærri þúsund eintökum og Euniq látið að sér kveða á fólksbílamarkaði.

Á einni hleðslu á e-Deliver 9 að komast 296 til 353 km (WLTP blandaður akstur – innanbæjarakstur). Skartar hann m.a. 10,1 tommu margmiðlunarskjá, fjórum hátölurum, bakkmyndavél og sætum fyrir þrjá. Má fá bílinn ýmist með 9,7 eða 11 rúmmetra flutningsrými en e-Deliver 9 er í sama stærðarflokki og forverinn Maxus EV80. Burðargetan er allt að 1.200 kg og dráttargeta allt að 1.500 kg. Afturhurðir bílsins opnast 236° og er hleðsluhæð lág.

Í tilkynningu segir jafnframt að e-Deliver 9 státi af mesta öryggisbúnaði í sínum stærðarflokki. „Rafsendibíllinn kemur með ADAS-öryggispakkanum sem er hlaðinn hátæknivæddum öryggisbúnaði í staðalgerð. Öryggispakkanum fylgir meðal annars hraðastillir með aðlögun, blindblettsvari, akreinavari, neyðarhemlunarkerfi, sex öryggispúðar, árekstrarvari og rafeindastýrð stöðugleikastýring sem aðstoðar ökumann að hafa stjórn á bílnum í krefjandi aðstæðum,“ segir umboðið.

mbl.is