McLaren kynnir tímamótabíl

Farþegarýmið hefur verið hannað til að vera þægilegt svo að …
Farþegarýmið hefur verið hannað til að vera þægilegt svo að eigendur hiki ekki við að nota Artura til daglegs brúks. Ljósmynd/Cars.Mclaren.press

Breski sportbílaframleiðandinn McLaren svipti í vikunni hulunni af nýjum ofursportbíl sem markar kaflaskil hjá fyrirtækinu. Þótt það fari ekki á milli mála að Artura er McLaren-bíll í húð og hár þá skilja ótal breytingar þetta ökutæki frá þeim sem McLaren hefur smíðað hingað til.

Fyrir það fyrsta er Artura með 3,0 lítra V6-vél en fram til þessa hefur McLaren reitt sig á V8-vélar. Færri strokkar koma ekki að sök því að Artura er líka tengiltvinnbíll og saman framleiða vélin og rafmótorinn 670 hestöfl (680 ps) með allt að 720 Nm togi.

Artura er fyrsti fjöldaframleiddi tvinn-bíllinn frá McLaren en áður hefur fyrirtækið smíðað tengiltvinnbílinn P1 og tvinnbílinn Speedtail í takmörkuðu upplagi.

Þökk sé glænýju burðarvirki og ýmsum hugvitssamlegum lausnum er Artura ekki nema tæplega 1.500 kg að þyngd og tekur aðeins þrjár sekúndur að fara úr kyrrstöðu í 100 km/klst en 8,3 sekúndur að ná 200 km/klst.

Á að vera hægt að aka Artura 30 km á rafmagninu einu saman og það á allt að 112 km/klst hraða.

V6 vélin og rafmótorinn vinna saman til að skapa gott …
V6 vélin og rafmótorinn vinna saman til að skapa gott viðbragð og háan hámarskhraða. Ljósmynd/Cars.Mclaren.press

Af kynningarefni má ráða að McLaren hefur hannað Artura til að vera ofursportbíll sem hentar bæði til daglegs brúks og sem leikfang á kappakstursbrautinni. Þá verður bíllinn seldur með fimm ára ábyrgð, en rafhlöðunni fylgir sex ára ábyrgð og burðarvirkinu 10 ára ábyrgð.

Er gaman frá því að segja að finna má Íslending í þeim stóra hópi fólks sem kom að hönnun og smíði Artura en Gunnar Örn Gunnarsson hefur starfað sem burðarvirkisverkfræðingur hjá McLaren um nokkurra ára skeið. Rætt verður við Gunnar í Bílablaði Morgunblaðsins í mars þar sem hann segir frá lífinu hjá sportbílaframleiðandanum.

Grunnverð Artura er um 185.000 pund en þar sem kolefnislosun bílsins er aðeins 129g/km leggjast á hann lægri vörugjöld en á aðra sportbíla með svipaða eiginleika og ætti hann því að kosta um 45,7 milljónir króna kominn á götuna í Reykjavík. ai@mbl.is

Fjölskyldusvipurinn leynir sér ekki en alls konar smáatriði aðgreina Artura …
Fjölskyldusvipurinn leynir sér ekki en alls konar smáatriði aðgreina Artura frá þeim McLaren bílum sem á undan hafa komið. Ljósmynd/Cars.Mclaren.press
Í Artura fylgir mælaborðið stýrinu þegar það er fært upp …
Í Artura fylgir mælaborðið stýrinu þegar það er fært upp eða niður, til eða frá ökumanni. Ljósmynd/Cars.Mclaren.press
mbl.is