Hamslaus hraðatól

Rafaleþotan og Bugattibíllinn í upphafi keppni.Hamslausir á flugbrautinni.
Rafaleþotan og Bugattibíllinn í upphafi keppni.Hamslausir á flugbrautinni. Ljósmynd/Bugatti

Það er ekki á hverjum degi sem efnt er til kappaksturs milli hraðskreiðs ofurbíls og orrustuþotu. Segir sig sjálft að þotan verður að lyfta sér frá brautinni undir lokin ef illa ætti ekki að fara.

Til keppni var stofnað milli franska ofurbílsins Bugatti Chiron Sport af útgáfunni „Les Légendes du Ciel“ [Goðsagnir himnanna] og afburðaþotu  franska flotans, Dassault Rafale Marine. Hún er tveggja hreyfla deltuvængur, fjölþætt orrustuþota með 1.389 km/klst hámarkshraða.

Vettvangurinn er flotastöðin í Landivisiau á Bretaníuskaganum í norðvesturhluta Frakklands og stillti Bugattibíllinn sér upp við hlið þotunnar. Aðeins 20 eintök af bílnum voru smíðuð, öll til að minnast velgengni Ettore Bugatti stofnanda bílsmiðjunnar á vettvangi flugmála.

Þróunarökumaður Bugatti, Pierre-Henri Raphanel, var aðeins 2,4 sekúndur að koma ofurbílnum í hundraðið og 200 km hraða náði hann eftir 6,1 sekúndu.  

Þótt Rafale Marine þotan vegi tæp 10 tonn var Etienne Bauer  flugmaður  hennar kominn á 165 km hraða eftir 150 metra brun og 210 km eftir 250 metra. Hóf hann svo þotu sína á loft eftir 450 metra brun en þá var hraði hennar um 260 km/klst. Sjá má frá uppátækinu á meðfygljandi myndskeiði.

„Í sundur dró með okkur fyrstu hundruð metrana en ekki  leið á löngu þar til Rafale þotan var við hlið mér en um 20 metrum ofar. Hreint út sagt lygileg og frábær sjón,“ sagði ökumaðurinn Raphanel eftir kappið sem hann tapaði eins og við mátti búast.

Bugatti hafði  vitaskuld ekki við Rafale þotunni og ástæðan er augljós því franska orrustuþotan býr yfir 58.550 Newtonmetra kný eða sem svarar 4.212 kílóvatta afla. Til samanburðar er afl Bugatti Chiron Sport 1.103 kílóvött, sem er öflugt fyrir ofurbíl að ræða.

mbl.is