Útlit fyrir gott akstursíþróttasumar

Helgu Katrínu þykir skemmtilegast að stússa á bak við tjöldin. …
Helgu Katrínu þykir skemmtilegast að stússa á bak við tjöldin. Það er nóg að gera utan brautar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helga Katrín Stefánsdóttir, formaður Akstursíþróttasambands Íslands, er gott dæmi um það að bílaáhugi fólks getur tekið á sig mjög ólíkar myndir.

Helga Kristín hefur verið viðloðandi akstursíþróttir frá því hún man eftir sér en hún hefur samt takmarkaðan áhuga á að setjast á bak við stýrið á tryllitæki og unir sér best utan brautar. „Mér þykir skemmtilegra að halda utan um skipulag og keppnishald frekar en að keppa sjálf.“

Að sögn Helgu Katrínar er mikið líf í tuskunum utan brautar og þar gefst líka tækifæri til að rækta vinskapinn við þann góða hóp fólks sem stundar akstursíþróttir. „Ég tala oft um að þegar keppnisárið hefst hitti ég sumarfjölskylduna mína. Keppnisatburðunum fylgir skemmtilegur og samheldinn félagsskapur. Góður andi er í hópnum og allir af vilja gerðir að vera hver öðrum innan handar.“

Helga Katrín smitaðist af bakteríunni í gegnum foreldra sína sem voru virk í rallíkrossi á fyrri hluta 10. áratugarins. Þaðan lá leiðin yfir í torfæruna og í dag er það sonur Helgu Kristínar sem leggur stund á fjölskyldusportið sem rallíkrossökumaður en Helga Katrín tók við formannsstarfinu hjá Akís snemma á síðasta ári.

Konur og hermar sækja á

Blessunarlega varð ekki mikil röskun á keppnishaldi Akís í kórónuveirufaraldrinum en Helga Katrín segir að um 30% viðburða hafi fallið niður og í sumum tilvikum hafi keppnir þurft að fara fram án áhorfenda til að fullnægja sóttvarnareglum. „Ég er bjartsýn á að þetta sumar gangi vel. Við þurftum að færa tvo viðburði til í byrjun sumarsins en það sem af er keppnisárinu hefur allt gengið ótrúlega vel.“

Helga Katrín segir akstursíþróttir vera að sækja á og þykir henni gaman að nefna að konur á öllum aldri sjást æ oftar í keppnum. Hermikappakstur er sú grein sem hefur vaxið hvað hraðast, enda tiltölulega hagkvæm leið til að komast inn í sportið en eins hefur verið bætt við nýjum keppnissviðum eins og t.d. 1000-flokki í rallíkrossi. „Í daglegu tali er þessi flokkur stundum kallaður Yaris-flokkurinn og hægt að keppa á tiltölulega ódýrum bílum. Þá var nýlega gerð lagabreyting sem greiddi fyrir þátttöku unglinga í akstursíþróttum svo að í dag geta ungmenni frá 15 ára aldri tekið þátt. Í því sambandi er gaman að nefna að í fyrstu umferð rallíkross um helgina voru 24 bílar skráðir til keppni og þar af 12 sem ekið er af unglingum.“

Einfaldara að byrja en fólk heldur

Margir ímynda sér að það sé mjög kostnaðarsamt að stunda akstursíþróttir enda þekkt að á bak við t.d. teymin í Formúlu-1 eru heilu hóparnir af vélvirkjum og verkfræðingum og eins og að reka stórt fyrirtæki að halda úti keppnisliði. Helga Katrín segir að íþróttin geti verið aðgengilegri en fólk heldur og þannig eigi t.d. ekki að þurfa að kosta áhugasama meira en 100-200.000 kr. að koma sér upp ágætis aðstöðu til að stunda hermikappakstur heima í stofu. „Fyrir marga keppnisflokka ætti fólk að geta keypt sér mjög ódýran bíl til að byrja keppni og má reikna með að kosti um hálfa milljón að koma fyrir nauðsynlegum öryggisbúnaði eins og veltibúri.“

Þá þurfa keppendur ekki endilega að greiða allan kostnað úr eigin vasa. „Margir eru duglegir við að sækja sér styrki til fyrirtækja og lágmarka þannig kostnaðinn.“

Svo má hreinlega mæta á æfingu á heilmilisbílnum, ef því er að skipta. „Hjá Akstursíþróttafélagi Hafnarfjarðar eru t.d. haldnar æfingar í drifti þar sem fólk kemur einfaldlega á sínum óbreytta heimilisbíl. Einnig er hægt að keppa í hringakstri og kvartmílu í flokkum sem eru fyrir ósköp venjulega heimilisbíla.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: