Vilja áframhaldandi endurgreiðslu á virðisaukaskatti

Þökk séverkefninu „Allir vinna“ verður hægt að fá virðisaukaskatt af …
Þökk séverkefninu „Allir vinna“ verður hægt að fá virðisaukaskatt af útseldri vinnu vegna bílaviðgerða endurgreiddan til áramóta. Átakið nær líka yfir fyrirbyggjandi aðgerðir s.s. keramíkhúðun og Prólan-meðferð.

Íslensk stjórnvöld brugðust skjótt við í upphafi kórónuveirufaraldursins og endurvöktu verkefnið „Allir vinna“. Um er að ræða tímabundið átaksverkefni sem fyrst var gripið til eftir bankahrun 2008 til að örva byggingargeirann og forða því að starfsemi iðnaðarmanna færðist yfir í svarta hagkerfið.

„Þegar ljóst var að verkefnið yrði endurvakið hafði Bílgreinasambandið þegar samband við ráðherra og Alþingi og lagði til að bíliðnaðurinn fengi líka að njóta góðs af endurgreiðslunum, m.a. til að draga úr niðursveiflu í greininni,“ segir María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri BGS.

Varð Bílgreinasambandinu að ósk sinni og hefur almenningur getað sótt um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna bílaviðgerða, bílamálningar og bílaréttinda. Er endurgreiðslan háð því skilyrði að fjáræð vinnuliðar sé að lágmarki 25.000 kr. og að um sé að ræða útselda vinnu vegna viðgerðar á einkabifreið en ekki atvinnubifreið.

Að sögn Jóhannesar Jóhannessonar, staðgengils framkvæmdastjóra hjá BGS, létu viðtökurnar ekki á sér standa: „Um 19.700 endurgreiðslubeiðnir bárust skattayfirvöldum og þar af hafa rösklega 17.500 verið afgreiddar og stjórnvöld endurgreitt samanlagt um 360 milljónir króna.“

Til að tryggja fagmennsku

Átaksverkefninu lýkur um næstu áramót og hvetja María og Jóhannes bíleigendur til að nota tækifærið til að ljúka hvers kyns viðgerðum sem heimilisbíllinn þarfnast. Best þætti þeim að reynslan af þessu átaksverkefni yrði nýtt til að endurskoða skattlagningu á viðgerðum ökutækja og þær færðar í lægri virðisaukaskattsflokk. „Með því að lækka virðisaukaskattinn eða fella hann niður er bæði verið að sporna við því að svart hagkerfi verði til í kringum bílaviðgerðir, og um leið verið að stuðla að því að viðgerðir fari fram hjá viðurkenndum verkstæðum sem leysa viðgerðir þannig af hendi að engin hætta er á að óvönduð vinnubrögð skapi slysahættu,“ segir María.

Útseld vinna vegna viðgerða á bílum ber í dag 24% virðisaukaskatt en ýmsar vörur og þjónusta bera 11% skatt á meðan aðrar eru undanþegnar virðisaukaskatti með öllu, s.s. skipasmíði og skipaviðgerðir. Jóhannes segir þennan skatt það háan að ekki sé að furða að sumir leiti ódýrari leiða til að gera við bíla sína. „Með því að skapa hvata fyrir fólk að hafa þessi viðskipti uppi á borðinu eru stjórnvöld líka að koma í veg fyrir að tekjur þess sem selur vinnuna séu ekki taldar fram til skatts, ásamt því að tryggja atvinnu, sem svo skila sér í skatttekjum og neyslu. Mestu máli skipta þó öryggissjónarmiðin og til mikils að vinna að bílaviðgerðum sé sinnt af fagmennsku.“

Hafa uppfært gæðastaðalinn

Þessu tengt kynnti Bílgreinasambandið nýlega til sögunnar nýjan gæðastaðal fyrir bílaverkstæði. Sá gæðastaðall sem fyrir var hafði verið í notkun í um það bil þrjá áratugi og hentaði ekki nægilega vel þörfum nútímans. Nú þegar hafa 36 verkstæði fengið vottun samkvæmt nýja staðlinum og fjölmörg til viðbótar eru í vottunarferli.

María segir staðalinn veita neytendum vissu um að hvers kyns bílaviðgerðir fari fram eftir vönduðum ferlum. „Meðal þess sem staðallinn gerir ófrávíkjanlega kröfu um er að menntaður meistari sé til staðar og yfirfari viðgerðir en það hefur borið á því á sumum stöðum að iðnmeistarar hafi verið notaðir sem n.k. leppar í rekstrinum frekar en að vera viðriðnir daglega starfsemi.“

Jóhannes bætir við að gæðavottunin veiti viðskiptavinum verkstæða vissu um að ökutæki þeirra sé í öruggum höndum, verklagsreglur réttar og ætíð notaðir réttir varahlutir. „Við notuðum sambærilega staðla annarra landa til viðmiðunar en leggjum alveg sérstaka áherslu á menntunarþáttinn, þannig að fólk geti treyst því að fagmennsku og þekkingu sé hvergi ábótavant.“

Jóhannes Jóhannesson bifvélavirki.
Jóhannes Jóhannesson bifvélavirki.
María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.
María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »