Toyota býður þjónustutengda ábyrgð

Ekkert sérstakt gjald er tekið af viðskiptavinum fyrir sjálfa Toyota …
Ekkert sérstakt gjald er tekið af viðskiptavinum fyrir sjálfa Toyota Relax þjónustutengdu ábyrgðina.

Toyota á Íslandi mun frá 1. júlí 2021 kynna Toyota RELAX á íslenskum bifreiðamarkaði, en Toyota RELAX gefur eigendum bíla frá Toyota og Lexus  kost á að framlengja ábyrgð á bílum sínum í allt að 10 ár eða 200.000 kílómetra.

Toyota RELAX tekur við eftir að verksmiðju- og viðbótarábyrgð sem fylgir bílnum er í þann mund að ljúka. Framlengist ábyrgðin um 12 mánuði í senn eða 15/20 þúsund kílómetra akstur.

Toyota og Lexus bílar sem fluttar hafa verið inn af Toyota á Íslandi eru annað hvort með fimm ára ábyrgð eða sjö ára. Þessir bílar eru gjaldgengir í TOYOTA RELAX ábyrgð. Þegar að minnsta kosti 48 mánuðir eru liðnir af fimm ára ábyrgð og að minnsta kosti 72 mánuðir liðnir af sjö mánaða ábyrgð gefst eiganda bílsins kostur á að framlengja ábyrgðina á bílnum um 12 mánuði í senn eða 15/20 þúsund ekna kílómetra gegn því að fara með bílinn í þjónustuskoðun hjá viðurkenndum þjónustuaðila Toyota á Íslandi. Eingöngu viðurkenndir þjónustuaðilar Toyota geta veitt þessa þjónustutengdu ábyrgð, segir í upplýsingum frá Toyota á Íslandi.

Frumskilyrði þess að bíll sé gjaldgengur í TOYOTA RELAX er að um sé að ræða Toyota eða Lexus bíl sem fluttur er inn af Toyota á Íslandi. Bíl sem er yngri en 10 ára (9 ára og 364 daga) er gjaldgengur en miðað er við dagsetningu við nýskráningu bíls á götuna hjá Samgöngustofu. Loks þarf bíllinn að vera ekinn minna en 200.000 kílómetra.

Í tilkynningu segir að Toyota sé eini bílaframleiðandinn í Evrópu sem bjóði upp á svo víðtæka ábyrgð á framleiðslu sinni.

mbl.is