Nýr rafknúinn Subaru væntanlegur í sumar

Nýr Subaru Solterra.
Nýr Subaru Solterra. Ljósmynd/BL

Nýr rafknúinn jepplingur með aldrifi, Subaru Solterra, fyrsti 100% rafknúni bíllinn frá Subaru, er væntanlegur til BL í sumar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá BL.

Þar segir að Subaru Solterra sé fimm manna rúmgóður jepplingur á nýjum undirvagni, sem búinn er tveimur 80 kW rafmótorum, einum við hvorn öxul, sem saman skila 218 hestöflum, 335 Nm togi og hröðun úr kyrrstöðu í 100 km/klst á 7,6 sekúndum.

Rafhlaða bílsins, sem liggur lárétt neðst í undirvagninum er 71 kWh sem gerir kleift að aka Solterra allt að í kringum 400 kílómetra á hleðslunni. Solterra hefur sömu einstöku aksturseiginleikana og Subaru er hvað þekktastur fyrir sem bílaframleiðandi vegna lágs þyngdarpunkts og hvikaði Subaru hvergi frá þeim kröfum við hönnun rafbílsins.

Farangursrýmið kemur á óvart.
Farangursrýmið kemur á óvart. Ljósmynd/BL

Einstakt farþegarými

Solterra er m.a. búinn aukageymslurými undir húddhlífinni og í farþegarýminu er uppréttur 12,3 tommu miðlægur snertiskjár í framanverðum miðjustokkinum milli famsætanna, þar sem helstu stjórntakka er einnig að finna innan seilingar frá ökumanni. Þá er Solterra ennfremur í boði með vönduðu hljóðkerfi frá Harman Kardon auk þakglugga svo nokkuð sé nefnt, eins og segir í tilkynningunni.

Solterra fylgir nýr öryggisbúnaðarpakki, Subaru Safety Sense, með heildstæðum öryggisbúnaði sem hentar sérlega vel í akstri í hálku og snjó, en ekki síður utan alfararleiða þar sem fjórhjóladrifið nýtur sín hvað best í brekkum á krefjandi undirlagi. Þá varar Safety Sense kerfið við sé annar bíll að nálgast þegar einhver bíldyranna eru opnaðar til að stíga út til að hámarka örugga útgöngu.

Þá greinir öryggiskerfið einnig bíla og gangandi vegfarendur fyrir aftan bílinn og varar ökumann við þegar sett er í bakkgír. Einnig veitir öryggiskerfið ökumanni 360 gráðu yfirsýn yfir bílinn sem gerir kleift að sjá nálægt umhverfi og átta sig til fulls á aðstæðum.

Stór skjár fyrir miðju mælaborði auðveldar viðmót bílsins og færir …
Stór skjár fyrir miðju mælaborði auðveldar viðmót bílsins og færir stjórnkerfið í nútímalegra horf. Ljósmynd/BL
mbl.is