Toyota Corolla er einn af mest seldu fólksbílum í heimi. Ef til vill ekki mest spennandi bíll í akstri en þjónustan er traust, segir í bílapistli Leós.
Toyota Corolla er einn af mest seldu fólksbílum í heimi. Ef til vill ekki mest spennandi bíll í akstri en þjónustan er traust, segir í bílapistli Leós. — Morgunblaðið/ÞÖK
Hvað er tvöföld kúpling? Spurt : Nýlegur VW Passat er sagður hafa tvöfalda kúplingu. Hugtakið er ekki útskýrt. Mér leikur forvitni á að vita meira um þetta fyrirbæri, m.a.

Hvað er tvöföld kúpling?

Spurt : Nýlegur VW Passat er sagður hafa tvöfalda kúplingu. Hugtakið er ekki útskýrt. Mér leikur forvitni á að vita meira um þetta fyrirbæri, m.a. að hvaða leyti ég sé betur settur með tvöfalda kúplingu en einfalda og hvort líkur séu á að þessi (flóknari) búnaður muni valda dýrum bilunum?

Svar: Kúpling handskiptra VW og fleiri fólksbíla er búin tveimur samsettum kasthjólum (Dual-mass flywheel) með einum kúplingsdiski. Virði maður venjulegan kúplingsdisk fyrir sér sést m.a. að á milli miðjunnar, sem tengist gírkassaöxlinum, og ytri hringborðanna, sem tengjast kasthjóli og pressuplani, eru 4-6 gormar. Miðjan og ytri jaðarinn geta snúist hvort gegn öðru. Gormarnir tempra snúninginn og deyfa titring milli vélar og drifbúnaðar. Titrun er mæld með sveiflutíðni/ölduhæð (riðum). Mestur árangur næst með deyfingu sem gerir sveiflutíðni drifbúnaðar lægri en vélar. Það gefur augaleið að kúplingsdiskur leyfir takmarkaðan fjölda gorma. Hins vegar er kasthjólið nógu stórt og sterkbyggt fyrir öflugri gorma, þ.e. meiri deyfingu titrings. Kasthjólið er því haft í tveimur hlutum. Þeir eru festir saman þannig að þeir fjaðra hvor gegn öðrum. Í helmingnum nær vélinni er komið fyrir gormum til deyfingar. Gormalaus kúplingsdiskur er á milli aftari hluta kasthjólsins og kúplingspressunnar. Kosturinn er sá að titringur frá drifbúnaði verður minni en frá vél. Titringur og hljóðmögnun frá vélbúnaði magnast síður upp í burðarbúri bílsins. Án gorma er diskurinn sterkari. Ekki er mér kunnugt um kvartanir vegna þessa búnaðar í fólksbílum en hef heyrt af vandamálum í jeppum með hátt/lágt drif.

Hvernig bíl á ég að kaupa?

Ég er oft spurður þessarar spurningar, ekki síst þegar kaupa á notaðan bíl. Sé miðað við sæmilega rúmgóðan fimm manna fjölskyldubíl af árgerð 1998-2005 og aðaláherslan lögð á hagkvæman rekstur svara ég á eftirfarandi hátt:

Subaru bilar allra bíla sjaldnast en eyðir um 10% meiru en vísitölubíllinn. Það vinnst margfalt upp með minni varahlutakostnaði og verkstæðisheimsóknum. Toyota Corolla 1600 fernra dyra með fimm gíra handskiptingu er sparneytinn, – ef til vill ekki mest spennandi bíll í akstri en traustur og þjónusta um allt land. Toyota Avensis með 1600-vél, fimm gíra handskiptur er mjög sparneytinn og rúmgóður, bilanatíðni vel undir meðaltali og aksturseiginleikar betri en margur ætlar. Framstólarnir mættu vera betri í fyrstu kynslóðinni: Traustur bíll og sterkur. Þjónusta um allt land. Nissan Almera fernra dyra með 1500-vél, fimm gíra handskiptur er vissulega ekki mest spennandi bíll í akstri. En sé vel hugsað um gripinn er leitun að gangöruggari bíl. Með Almera þarf maður nánast ekkert á þjónustu umboðsins að halda. Lakkið er lélegt og því þarf að bóna Almera reglulega til að yfirbyggingin ryðgi ekki utan af vélbúnaðinum. Hyundai Sonata er mjög rúmgóður fimm manna fólksbíll með ýmsum lúxusbúnaði. Sonata er, af einhverjum orsökum, vanmetinn bíll hérlendis (Hyundai stendur uppi í hárinu á Lexus á Bandaríkjamarkaði hvað varðar gæðamat (sjá JDPower.com). Daewoo Nubira , fernra dyra með 1600-vél, fimm gíra handskiptur. Eins og Sonata er Nubira vanmetinn bíll. Sé vel hugsað um Daewoo Nubira er bilanatíðnin vel undir meðaltali. Nubira station er með betri aksturseiginleika en flestir aðrir station-bílar af svipaðri stærð. Varahlutaþjónusta er góð, bæði varðandi þjónustu og verð.

Ábending

Skammlífar perur

Árið 1827 sannaði þýski eðlisfræðingurinn Georg Simon Ohm þá kenningu sína að í lokaðri rafrás væri spennan (U) margfeldið af viðnámi (R) og straumstyrk (I). Ohms-lögmálið (U=IxR) segir okkur m.a. að lélegt samband auki viðnám sem geti hækkað spennu. Nóg um Ohms-lögmálið. Oft má rekja óeðlilega skamman líftíma pera til sambandsleysis; svo sem útfellinga í perustæðum, tengjum og/eða vegna lélegs jarðsambands!

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)