Honda CR-C hefur verið fádæma vinsæll bíll hérlendis og ekki að ósekju. Ekki þarf nema að líta út um gluggann til að fá skilning á vinsældunum; svona bíll er góður í snjó og kafaldi.
Honda CR-C hefur verið fádæma vinsæll bíll hérlendis og ekki að ósekju. Ekki þarf nema að líta út um gluggann til að fá skilning á vinsældunum; svona bíll er góður í snjó og kafaldi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mjög margir erlendir bílablaðamenn hafa gefið Honda CR-V einkunnina besti jepplingurinn og það fer reyndar ekki fjarri hjá greinarskrifara. Hann er bíll sem kemur skemmtilega á óvart.

Honda hefur framleitt jepplinginn CR-V síðan 1997. Hann er nú af fjórðu kynslóð sem kom fyrst af árgerð 2011. Honda CR-V var upphaflega byggður á sama undirvagni og Honda Civic og CR-V nafnið stendur fyrir Civic Recreation Vehicle.

Hann hefur verið fádæma vinsæll bíll hérlendis og ekki að ósekju. Er lang söluhæsti bíll Honda hér á landi þrátt fyrir að hinir ágætu Honda Jazz, Civic og Accord séu í boði. Er það nokkuð lýsandi fyrir velgengni jepplinga hér á landi og ekki þarf nema að líta út um gluggann um þessar mundir til að skilja af hverju. Þetta er bíll sem dugar vel í snjónum. CR-V er einnig mjög vinsæll bíll vestanhafs og undanfarin fimm ár hafa selst um og yfir 200 þúsundum eintaka í Bandaríkjunum einum á ári hverju.

Fallegt innanrými

Þegar sest er upp í Honda CR-V verður tilfinningin strax traustvekjandi. Innréttingin er falleg og skilvirk og sætin góð með Alcantara-áklæði með leðurklæddum álagsflötum. Þetta áklæði í sætum heldur ökumanni stöðugri og kyrrari en leðursæti og engin hætta á að renna í þeim í kröppustu beygjum.

Af einhverjum ástæðum er bíllinn miklu stærri að innan en ytra útlit hans segir til um. Rúmt er um alla farþega og sérdeilis gott pláss í aftursætum. Auk þess er farangursrými yfrið fyrir flesta notkun og því er skemmtilega skipt í tvennt með hillu sem þó auðvelt er að fjarlægja. Frammi í er gólfið heilt og enginn miðjustokkur, sem er mjög óvenjulegt en gerir bílinn enn opnari og notadrýgri.

Gírstöngin fyrir sjálfskiptinguna er því skiljanlega ekki í gólfi heldur neðarlega í mælaborðinu. Einnig óvenjulegt, en venst vel og er í mjög heppilegri hæð. Sjálfskiptingunni er ekki hægt að beinskipta eins og svo algengt er í jepplingum en þess var ekki saknað í reynsluakstri. Að utan er Honda CR-V ekki framúrstefnulegur en snyrtileg hönnun hans gerir hann krúttlegan en ber samt góða eiginleika hans ekki strax á borð.

Miklir eiginleikar en þyrst vél

Honda CR-V er með lágan þyngdarpunkt og því minna aksturseiginleikar hans á akstur fólksbíls og er það vel. Þekktir aksturseiginleikar Honda bíla eru til staðar þó að um sé að ræða jeppling.

Fljótt finnst hversu þéttur bíllinn er og fjöðrunin góð. Þar hjálpar mjög til sjálfstæð klafafjöðrun að framan og sjálfstæð fjölarma fjöðrun að aftan.

Bíllinn hegðar sér frábærlega á vegi og öryggistilfinningin er alger. Samspil stöðugleikakerfis, spólvarnar, hemlaátaksdreifikerfis, rafstýrðrar bensíngjafar og hemlalæsivarnar skilar lýtalausum og traustverðugum hreyfingum bílsins og ökumaður finnur til mikilla gæða og öryggis. Hljóðeinangrun er einstaklega góð og jaðrar við lúxusbílatilfinningu.

Vélin í reynsluakstursbílnum var 2,0 l og 150 hestafla bensínvél sem stendur sig nokkuð vel en var alltof þyrst í bensín. Þó að hægt sé að halda bílnum í 11 lítrum á hundraðið í færðinni innanbæjar þessa dagana reyndist ökumanni erfitt að halda honum innan 13 lítra markanna, sem verður að teljast nokkuð mikið fyrir bíl í þessum stærðarflokki. Það hefði örugglega verið mun auðveldara með dísilvélinni sem einnig er í boði í Honda CR-V. Hún er 2,2 lítra og togar miklu meira en bensínvélin. Svoleiðis útbúinn kostar bíllinn reyndar tæpri einni milljón króna meira.

Verðið fælir ekki frá

Auðvelt er að álykta að stærri bensínvél myndi eyða engu minna þar sem ekki stærri vél en þetta orkar tæplega að draga þá þyngd sem í jepplingnum er. Engu að síður er vélin snörp og skemmtileg, bara aðeins of þyrst. Þarna má hinn góði vélarframleiðandi Honda gera betur eða bara bæta við rafal til að létta róðurinn.

Mjög margir erlendir bílablaðamenn hafa gefið Honda CR-V einkunnina besti jepplingurinn og það fer reyndar ekki fjarri hjá greinarskrifara. Hann er bíll sem kemur skemmtilega á óvart og enginn verður svikinn af. Verð hans fælir heldur ekki frá.

finnurorri@gmail.com

Jepplingur sem hefur reynst Íslendingum vel

Skattleggja bílana í drep

„Honda CRV eru bílar sem hafa reynst Íslendingum vel. Aðstæður hér á landi eru þannig að fjórhjóladrifnir bílar eru oft beinlínis nauðsynlegir, t.d. eins og veðráttan hefur verið síðustu daga. Hins vegar er ómögulegt að kalla þetta jeppa eins og sumir hafa freistast til að gera. Jepplingar er betra hugtak; gegnsætt orð sem hefur unnið sér þegnrétt í íslensku máli,“ segir Stefán Ásgrímsson hjá Félagi íslenska bifreiðaeigenda.

Almennt hafa bílar framleiddir í Asíu reynst vel hér á landi. Sölutölur sýna það best, segir Stefán. „Við þurfum burðuga bíla hér á landi, hvort sem horft er til veðráttu, vega eða annarra þátta. Vissulega eyða og menga slíkir bílar oft meiru ein þeir allra minnstu og sparneytnustu. Nú miðast bifreiðaskattar orðið við magn þess gróðurhúsalofts sem bílar blása frá sér og sakir hve þess hve margir jeppar og jepplingar eru á götunum hafa stjórnvöld algjöran hælkrók á bíleigendum og geta skattlagt bílana algjörlega í drep. Það er vond pólitík,“ segir talmaður FÍB.