„Vil sjálf vera við stýrið á eigin lífi“

Jóhanna Bárðardóttir og sonur hennar sem fæddist 11 vikum fyrir ...
Jóhanna Bárðardóttir og sonur hennar sem fæddist 11 vikum fyrir tímann, fyrir um það bil 11 vikum og er núna kominn ca. í fæðingarþyngd. Mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Jóhanna Bárðardóttir er ákveðin ung kona sem er nýorðin móðir. Þann 4. maí eignaðist hún hann Bárð Breka sem mætti á svæðið töluvert of snemma en dafnar þó eins og blómi í eggi, þótt lítill sé enda mjór mikils vísir. Tilvist Bárðar Breka er um margt sérstök því hún byggir á sjálfstæðri ákvörðun einstakrar móður. 

Jóhanna ákvað fyrir nokkrum árum að hún vildi mest af öllu í lífinu eignast barn. Hún hafði verið í góðri og um margt farsælli sambúð í nokkur ár en hún og kærastinn hennar höfðu þó vaxið í sundur eins og stundum gerist. Einn af þeim þáttum sem ýtti þeim frá hvort öðru var sú staðreynd að Jóhanna var tilbúin að eignast barn en ekki kærastinn.

Jóhanna og Bárður Breki eru hæstánægð með hvort annað.
Jóhanna og Bárður Breki eru hæstánægð með hvort annað. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Þetta var svo sem ekkert endilega úrslitatriðið í okkar sambandsslitum en hjálpaði heldur ekki til. Aðalmálið var að stefndum ekki í sömu átt. Mig langaði hins vegar jafnmikið í barn og áður. Ég hef alltaf verið mikil barnagæla og hafði um tvítugt séð fyrir mér að um þrítugt væri ég gift og búin að eiga tvö eða þrjú börn,“ segir Jóhanna. „Þarna var ég á 28. ári, barnlaus, einhleyp og fyrir mér voru kostirnir tveir. Að bíða og vona að ég myndi eignast kærasta sem vildi eignast barn með mér fljótlega eftir að við kynntumst og verið þannig algerlega upp á einhvern annan kominn með það sem mig langaði mest að gera eða bara taka málin í mínar hendur. Ég valdi síðari kostinn.“

Spurð hvort hún geti ekki bara farið á djammið

Reyndar hefur Jóhanna verið spurð af hverju hún hafi ekki bara farið á djammið og reynt að verða ólétt með hefðbundnum hætti. Það er í rauninni merkilegt að fólk skuli yfir höfuð hafa skoðun á prívat málum fólks en Jóhönnu fannst slíkt aldrei koma til greina. Það væri óheiðarlegt gagnvart hugsanlegum barnsföður sem mögulega hefði engan áhuga á að eignast barn eða þess þá heldur að vera í þeirri stöðu að vera óhjákvæmilega tengd einhverjum fyrir lífstíð sem maður þekkir lítið sem ekkert. Að eignast barn með gjafasæði var alltaf mun skynsamlegri kostur að hennar mati.

Hún segir það stórmerkilega lífsreynslu að setjast fyrir framan tölvu og velja sæðisgjafa. Framboðið er samnorrænt og er vandlega stýrt. Takmörk eru á því hversu margar konur eða fjölskyldur mega nota sama gjafann en hún segist hafa slegið inn ákveðnar forsendur í gagnagrunn og gat svo valið um einstaklinga. Hún fékk ýmiss konar upplýsingar um þá; s.s. um heilsufar, áhugamál, menntun og stöðu fólks í fjölskyldu viðkomandi allt aftur í langömmur og -afa, svo má hlusta á viðtal við viðkomandi og sjá mynd af honum sem barni. Þarna má finna eins miklar upplýsingar og hægt er að fá án þess að nafn og mynd fylgi enda stór ákvörðun að velja hinn helminginn að genamengi barnsins síns. Hún segist hafa valið svokallaðan opinn gjafa sem þýðir að þegar Bárður Breki er orðinn 18 ára hefur hann kost á því að komast í samband við sæðisgjafann – sem er jú hans líffræðilegi faðir.

„Ég velti þessu mikið fyrir mér, en ákvað á endanum að þetta ætti ekki að vera mín ákvörðun heldur barnsins. Það getur vel verið að það verði mikilvægt fyrir son minn að komast í samband við sæðisgjafann þegar hann eldist. Það getur líka vel verið að honum finnist það ekki mikilvægt. Aðstæður geta verið alls konar og hver veit nema hann eignist einhvern tímann uppeldisföður þó að ég sé einstæð núna, það verður bara allt að koma í ljós.“ 

Óleyfilegt fyrir konur án maka að eignast barn                        

Jóhanna settist nýverið í stjórn félagsins Einstakar mæður. Félagsskapurinn er félag kvenna sem hefur valið að eignast börn upp á eigin spýtur, með tæknifrjóvgun eða í gegnum ættleiðingu einar síns liðs skv. lýsingu á forsíðu vefjar félagsins og segir Jóhanna að félagið sé 5 ára gamalt, stofnað 2013.

Fram til ársins 2008 var ekki leyfilegt fyrir konur án maka að eignast barn upp á eigin spýtur, með tækni- eða glasafrjóvgun eða með ættleiðingu en Jóhanna segir að sumar konur hafi leitað út fyrir landssteinanna í þessum tilgangi. Hún segir enn fremur félagsskapinn vera mjög blandaðan, og þó það séu stöku snertifletir milli kvennanna innbyrðis, þá sé í rauninni að það eina sem sameinar þær er sú staðreynd að þær hafa ákveðið að eignast barn upp á eigin spýtur.  „Við sjáum að félagið er að breytast og þróast. Konur eru byrjaðar að velta þessum kosti fyrir sér fyrr en áður og því eru fleiri og fleiri yngri þegar þær hefja ferlið. Fyrst eftir að lögin tóku gildi voru konurnar sem nýttu sér þennan kost almennt eldri. Þá voru þær kannski búnar að velta þessu fyrir sér lengi en það hefur vaxið þeim í augum að fara utan til að láta af því verða. Þær konur sem eru í félaginu og eiga börn sem fædd eru fyrir 2008 eru konur sem hafa sótt þessa þjónustu út fyrir landsteinana.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Hún segir að starfsemi félagsins snúist ekki bara um ráðgjöf vegna barneigna og fleiri hagnýta þætti. „Við förum líka í eina útilegu á hverju ári, höldum jólaball og svona. Það er mikilvægt að efla félagslega þáttinn og hafa gaman. En svo er líka ómetanlegt að geta spurt með einföldum hætti að ýmsu sem getur komið upp á. Eitt dæmi sem kom nýlega fram var móðir sem ætlaði með barnið sitt til útlanda en við þurfum að hafa uppáskrifaða forsjárlýsingu fyrir vegabréfseftirlit, þar sem börnin okkar eru tæknilega föðurlaus. Það er ekki sjálfgefið að vita svona hluti fyrir fram.“

Jóhanna segir að Bárður Breki Jóhönnuson hafi látið hafa svolítið fyrir sér þó svo meðgangan sem slík hafi gengið vel. „Það kom í ljós eftir þrjár misheppnaðar tæknifrjóvganir að annar eggjaleiðarinn hjá mér er lokaður og því var líklegt að ég þyrfti fleiri tæknifrjóvgunartilraunir en flestar konur svo mér var ráðlagt að reyna heldur við glasafrjóvgun. Sem ég held að hafi verið rétt ákvörðun, hins vegar gekk örvunarferlið erfiðlega og ég þurfti að fara í gegnum glasafrjóvgunarferlið í þrígang. En allt er þegar þrennt er og þetta hafðist að lokum. Svo er líka til lítill fósturvísir í frysti sem gæti orðið systkini Bárðar Breka í framtíðinni. Uppsetningin gekk vel sem og meðgangan en hins vegar stimplaði Bárður litli sig allt of snemma inn eða eftir aðeins 29 vikna meðgöngu.

Bárður Breki mætti of snemma

„Ég hafði enga ástæðu til að vera eitthvað sérstaklega á varðbergi. En áður en ég loksins dreif mig upp á spítala hafði ég verið með verki og ónot og átt erfitt með svefn. Ég hef auðvitað enga reynslu í því að eignast barn svo ég hafði ekkert viðmið og vildi ekki vera að trufla mömmu um miðja nótt út af einhverri vitleysu í mér. En ég fór svo niður á deild þann 2.maí, akkúrat þennan eina dag í maí sem snjóaði og stóð þarna ein á bílastæðinu kl. sex um morgun, með það sem ég lærði síðar að væru hríðir, og skóf bílinn með tárin í augunum. Ljósmóðurinni sem skoðaði mig, brá heldur betur í brún þegar hún komst að því að ég var komin langleiðina í fæðingu, með fjóra í útvíkkun og 3-4 mínútur á milli hríða. Stofan fylltist af alls kyns læknum og sérfræðingum og það tókst að fresta fæðingunni um tvo mjög mikilvæga sólarhringa. Tíma sem hægt var að nota til undirbúa hinn verðandi fyrirbura og móður hans með sterasprautum sem hjálpa og örva lungu fyrirburans.
„Það veit í rauninni enginn hvað gerðist eða af hverju hann kom svona snemma, þetta bara gerðist. Ég varð skelfingu lostin þegar ég gerði mér grein fyrir að fæðing yrði ekki umflúin en svo fór allt eins vel og hugsast gat. Hann var þokkalega stór miðað við 29 vikna meðgöngu eða um 1.300 grömm, hann þurfti ekki að fara í öndunarvél og hann stækkar samkvæmt kúrfum.

Svo verð ég að koma því að, að það eru einfaldlega englar í mannsmynd sem starfa á vökudeildinni. Hvílíkt fólk! Þannig að þó að minn maður hafi skotið mér skelk í bringu þá gæti ég ekki verið ánægðari með litla kút,“ segir Jóhanna, greinilega að springa úr stolti – og móðurást.

mbl.is