Trú Serenu Williams kemur í veg fyrir afmælisfagnað Ólympíu

Þessar mæðgur munu ekki fagna eins árs afmæli þeirrar stuttu ...
Þessar mæðgur munu ekki fagna eins árs afmæli þeirrar stuttu í dag vegna þess að trú Serenu Williams leyfir ekki hátíðarhöld vegna afmæla. Ljósmynd/skjáskot

Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Fólki finnst það gjarna sérkennilegt ef aðrir gera hlutina öðruvísi en maður mynd sjálfur gera þá. Til dæmis er venjan að halda veislu með vinum og vandamönnum þegar lítið kríli fagnar fyrsta afmælinu sínu, og flestir foreldrar upplifa fyrsta afmæli fyrsta barnsins sem mikil tímamót.

En því er ekki að heilsa hjá tennisdrottningunni Serenu Williams sem eignaðist dótturina Ólympíu fyrir ári, 1. september 2017.

Serena tilheyrir söfnuði Votta Jehóva og útskýrði nýlega að vottar fagni almennt ekki afmælum; alla vega ekki með kökum og gjöfum – svona eins og flestir fagna barnaafmælum. „Ólympía mun ekki fagna afmælinu sínu,“ sagði Serena á blaðamannafundi. „Vottar Jehóva gera það ekki.“

Fram kemur á alþjóðlegri vefsíðu söfnuðarins JW.org að vottar Jehóva fagni ekki afmælum vegna þess að þeir telji að slíkur fagnaður sé vanþóknun við guð. Einnig kemur þar fram að þó svo Biblían banni ekki beinlínis afmælisfagnaði þá hjálpar hún okkur að skilja hvers eðlis slíkir fagnaðir eru og sömuleiðis skilja sýn guðs á þá. Einnig er talað um að fagnaður vegna afmælis eigi sér heiðnar rætur. Athygli hefur vakið að maðurinn hennar Alexis er ekki vottur.

Serena talaði einnig um að Ólympía eigi erfitt með að sitja í bíl, en að hún og Alexis séu að vinna í því að gera bílferðir almennt bærilegri og þetta sé eitt erfiðasta uppeldisverkefni hennar. „Ef hún er lengur í bíl en í fimm mínútur þá verður allt vitlaust.

Heimild: Harpersbaazar

mbl.is