„Ég elska að ganga með barn“

Andrea Eyland ásamt syni sínum.
Andrea Eyland ásamt syni sínum. Ljósmynd/Rafael Pinho

Andrea Eyland byrjar með sjónvarpsþættina Líf kviknar í Sjónvarpi Símans Premium. Þættirnir fjalla um getnað, meðgöngu, fæðingu og sængurlegur. 

„Þeir eru byggðir á bókinni Kviknar um sama efni, í raun er draumurinn um að láta bókina lifna við að rætast. Þættirnir eru mjög einlægir og hispurslausir og taka á málefnum sem oft eru ekki rædd en við tókum fullt af viðtölum við frábæra foreldra sem hafa upplifað eða eru á leið sinni að upplifa þetta ferli sem fylgir barneignum. Við spjölluðum líka við sérfræðinga svo sem ljósmæður og lækna,“ segir Andrea.

Nú hefur þú verið lengi að vinna að þessari bók, hvers vegna þurftir þú að skrifa hana og gefa hana út?

„Ég missti aldrei trúna á að bókin kæmi út en vá hvað ferlið tók á. Ég var stundum að bugast en það kom samt aldrei til greina að gefast upp. Mér leið eins og ég hefði svo margt að segja, sögur allra þessara foreldra urðu að heyrast og Hafdís ljósmóðir sem var minn faglegi ráðgjafi boðar svo mikilvæg skilaboð í bókinni og þáttunum líka. Foreldrar mínir hafa alltaf lagt áherslu á að ég klári það sem ég tek mér fyrir hendur og þau misstu aldrei trúna á mér, sem hvatti mig áfram. Þegar bókin var nánast tilbúin, fyrir utan hönnun og uppsetningu, hitti ég ástina í lífinu og það vildi svo vel til að hann er grafískur hönnuður. Ég held að bókin hafi verið að bíða eftir honum, hann sauð orðin, sögurnar og myndirnar hennar Aldísar Páls svo stórkostlega vel saman,“ segir Andrea en hún er í sambandi við Þorleif Kamband en hún deildi fæðingarsögu sinni með lesendum í vor. 

Andrea segir að hópurinn sem vann með henni hjá Sagafilm sé ákaflega öflugur. 

„Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir sem leikstýrir þáttunum á von á sínu fyrsta barni og dagarnir með henni hafa verið ævintýralega tilfinningaríkir. Ég með ungabarn og misheppnaða brjóstagjöf og við báðar smekkfullar af hormónum. Sagafilm gerði okkur kleift að vinna þættina með styttri dögum af virðingu við þetta „ástand“ okkar en einmitt það gerir þættina enn betri fyrir vikið. Gussi tökumaðurinn okkar er síðan sonur ljósmóður og tók sjálfur á móti öðru barninu sínu í bíl, Álfheiður framleiðandi er barnlaus og sveiflast á milli þess að vilja barn í gær og vera smá hrædd við allt sem því fylgir. Þorleifur kærastinn minn vinnur að tökum með Gussa og sér um grafíkina, Hermann klippari á þrjú börn og svo toppurinn á ísjakanum er Eðvarð Egils sem sér um tónlistina, en hann á von á sínu fyrsta barni. Ég þarf að klípa mig til að trúa því hversu magnað þetta teymi er,“ segir hún. 

Hvað gerir þú í sjónvarpsþáttunum sem ekki gerist á bókinni?

„Það er svo margt sem kemur fram í þáttunum sem er ekki í bókinni og öfugt. Það er hægt að spyrja mismunandi viðmælendur nákvæmlega sömu spurninganna og aldrei fá sömu svörin því að eignast barn er aldrei eins fyrir neina manneskju, við upplifum svo oft svipaða hluti og oft ótrúlega ólíka. Efnið er ótæmandi og miðað við stöðuna í dag er klárt mál að sería tvö er strax farin að kitla.“

Andrea eignaðist sitt fjórða barn á þessu ári en hún á líka þrjú stjúpbörn. Þegar hún er spurð að því hvernig hún kunni við sig í „fæðingarorlofi“ segir hún að hún sé að njóta sín í botn. 

„Ég elska að ganga með barn og fæðingin mín var ógleymanleg stund með fjölskyldunni minni. En á sama tíma og litli Björgvin Ylur Eykam fæddist var ég komin af stað með vinnslu á þáttunum. Ég lokaði mig af fyrstu þrjár vikurnar í nýja lífi okkar saman en svo varð ég að sinna hinu barninu mínu líka. Kviknar er hluti af mér og ég varð að fara á stjá og vinna þættina. Ég hefði aldrei fórnað þessum tíma nema af því að ég vil vera fyrirmynd barna minna um að draumar rætast og allt sé mögulegt ef þú trúir á sjálfa þig og ákveðir, þetta ætla ég mér. Svo er barnsfaðir minn alveg jafn klár og ég að huxa um son okkar og að sjá ástina þeirra dafna í þeirra fæðingarorlofi er ómetanlegt.“

Hvernig er þetta fæðingarorlof frábrugðið fyrri orlofum?

„Fyrstu tvö orlofin mín voru mun lengri og töluvert rólegri, þó ég hafi lagt allt of mikla áherslu á hreint hús og kaffiboð í því fyrsta en næstsíðasta er í móðu þar sem við barnsfaðir minn skildum. Orlofið núna, þó erilsamt sé, er klárlega mitt uppáhalds því ég er á góðum stað í lífinu, „mega zenuð“ eftir yogameðgöngu og heimafæðingu og svo eigum við heilan helling af börnum sem dýrka litla bróður og ummönnun hans er nokkurs konar samvinnuverkefni. Það er slegist um að kyssa hann og kjassa, að eignast eitt í lokin sem tengir okkur öll er óendanlega dýrmætt,“ segir hún. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þú býrð til sjónvarpsefni, er það nokkuð?

„Já, sko í rauninni hef ég aldrei búið til sjónvarpsefni en ég var svo heppin fyrir nokkrum árum að vera ofurneytandi í Ferð til Fjár og vinna með frábæru fólki eins og Baldvini Z, Arnóri Pálma, Breka Karlssyni og Steinunni Þórhalls. Ætli ég hafi ekki fengið smá sjónvarpsbakteríu þá, því heimurinn þeirra heillaði mig,“ segir hún. 

Ljósmynd/Rafael Pinho
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert