Hefði ekki getað átt betri fæðingu

mbl.is/ThinkstockPhotos

Meðgöngujóga hjá Auði Bjarnadóttur í Jógasetrinu er afar vinsælt. Eitt af því sem gerir tímana sérlega innihaldsríka er að Auður les upp fæðingarsögur í tímunum. Hér er ein fæðingarsaga sem birtist á vef Jógasetursins: 

Kæru jógakonur,

mig langar að deila með ykkur fæðingarsögunni minni, en litli drengurinn okkar fæddist að kvöldi 29. júní síðastliðins. Hann var að flýta sér mikið í heiminn og tók fæðingin því fljótt af, en sóttin var ansi hörð.

Þetta er fyrsta barnið okkar og gekk meðgangan mjög vel, fyrir utan grindargliðnun sem ég var með síðustu fjóra mánuðina. Mér fannst alveg dásamlegt að vera ólétt. Ég byrjaði í meðgöngujóga þegar ég var komin fjóra mánuði á leið. Jógað fannst mér algjör uppgötvun. Mér fannst jógað ekki síst vera góður andlegur undirbúningur fyrir fæðinguna og móðurhlutverkið. Ég var í hádegistímunum og oft þurfti ég að þjóta í og úr vinnu til að fara í jógatímana. Mér fannst dásamlegt, ekki síst fyrstu mánuðina þegar óléttan var enn svolítið óraunveruleg fyrir mér, að gefa mér þennan tíma, 2-3 í viku, til að hugsa bara um fæðinguna og barnið sem ég bar undir belti.

Ég naut þess að sitja innan um allar hinar óléttu konurnar, strjúka bumbuna, senda fallegar hugsanir til barnsins míns, finna spörkin í slökuninni í lokin, hlusta á allar fæðingarsögurnar og hugsa um hvernig mín fæðing yrði.

Ég var búin að vera með svolitla fyrirvaraverki dagana og vikurnar á undan og átti því ekki von á að það þýddi neitt þegar ég vaknaði með seyðing í bakinu þennan fallega sunnudagsmorgun, 29. júní. Ég tók eftir því að seyðingurinn var talsvert frábrugðinn því sem áður hafði verið, þar sem að það komu toppar með ákveðnu millibili. Ég hélt að þetta þýddi ekki neitt sérstakt, en ákvað samt klukkan 2 um eftirmiðdaginn að hringja í Hreiðrið og láta vita af mér. Þá var ég búin að taka tímann á milli toppanna og voru það um 5-6 mínútur, en mér fannst verkurinn ekki neitt mjög slæmur. Konan í Hreiðrinu sem ég talaði við sagði mér að þetta væri örugglega ekkert, ég væri frumbyrja og því gæti þetta kannski þýtt að barnið kæmi daginn eftir eða eftir 2-3 daga. Hún sagði mér að vera ekkert að taka tímann á milli en að ég væri velkomin í monitor og skoðun ef ég vildi.

Ég sat á jógaboltanum inn í stofu, ruggaði mér og hossaði og æfði mig að anda haföndun þegar verkirnir komu. Ég hafði heyrt sagt að ef maður væri ekki viss hvort maður væri með hríðir eða ekki, væri maður alveg örugglega ekki með hríðir. Þar sem að náði að anda vel í gegnum verkina og fannst þeir ekkert svo hræðilegir var ég viss um að ég væri bara með fyrirvaraverki. Þar sem ég sat á boltanum ákvað ég að nota tímann og prjóna seinni skóinn af heimferðargallanum á barnið (ekki seinna vænna) og náði að halda áfram að prjóna meðan verkirnir gengu yfir.

Ég talaði við mömmu sem sagði þetta allt hljóma eins og ég væri að fara í fæðingu. Ég hafði einnig orðið vör við að slímtappinn væri farinn, sem þýddi að útvíkkun væri hafin. Ég hafði þó heyrt að fæðing gæti verið allt að tveimur vikum eftir að slímtappinn færi, svo að ég kippti mér ekkert sérstaklega upp við það og hélt bara áfram að prjóna heimferðargallann.
Mamma hringdi í mig tveimur klukkutímum síðar til að athuga hvernig ég hefði það og kom þá ein svo skört hríð að ég þurfti að stoppa að tala í símann á meðan hún gekk yfir. „Stelpan mín, þú ert að fara að eiga barn,“ sagði mamma og fannst alveg ómögulegt að ég virtist ekki átta mig á því að þetta væri yfirvofandi. Ég samþykkti að líklega væri þetta eitthvað meira en fyrirvaraverkir og hringdi í Hreiðrið til að láta vita af því að ég væri að koma.

Í Hreiðrið komum við með jógaboltann, ilmolíur, nuddolíu, gaddabolta og Grace diskinn, en var ég svo viss um að við yrðum send heim aftur að ég vildi bíða með að taka allan farangurinn með okkur inn. Þegar í Hreiðrið kom klukkan rúmlega 18 um kvöldið var ég sett í mónitor. Þá fannst mér verkirnir skyndilega ágerast mjög, það styttist enn meira á milli hríða og voru um 1-2 mínútur á milli og verkurinn var mjög sterkur. Ég sat í stólnum fyrstu tvær hríðirnar, en eftir að hálftíminn sem ég átti að vera í mónítórnum var liðinn, lá ég í gólfinu á grúfu yfir setuna á stólnum. „Þú ert með hörkusótt,“ sagði ljósmóðirin þegar hún sá útprentið úr mónítórnum og áttaði ég mig þá á því að líklega yrði ég ekki send heim eftir allt og að ég væri að fara að eignast barn.

Ljósmóðirin mældi útvíkkun sem var komin í 4 og og ég fór beint í pottinn. Hríðirnar komu svo skart að ég gat í raun bara stunið upp einni setningu á milli hríða og svo kom næsta hríð. Mér fannst mjög verkjastillandi að komast í heitt vatnið og fannst gott að maðurinn minn nuddaði á mér mjóbakið. Ég fékk glaðloft sem hjálpaði mér mjög mikið. Grace-diskurinn var settur á og fann ég um leið og tónlistin byrjaði hvað hún hjálpaði mikið við að minna mig á haföndunina og það færðist í raun strax yfir mig ró þegar tónlistin hófst.
Þar sem hríðirnar komu með svona stuttu millibili missti ég stundum einbeitingu í önduninni, en ég fann um leið hvað verkurinn versnaði þegar það gerðist. Maðurinn minn minnti mig á að anda rétt og tónlistin hjálpaði mikið.

Ég hefði aldrei trúað því fyrirfram hvað uppörvunarorðin frá makanum hjálpuðu líka mikið, eða hvað lítill koss á hálsinn gat verið verkjastillandi. Mér fannst ótrúlegt að finna þennan kraft yfirtaka líkama minn, finna hvernig náttúran tók völdin og það var gott að hugsa til þess sem hamrað hafði verið á í jógatímunum, að best væri að treysta líkamanum þar sem að hann kynni að koma barninu út. Ég fylgdi því bara því sem líkaminn vildi gera, fannst betra að gefa frá mér háa stunu í útönduninni og hreyfði mig eins og mér fannst rétt hverju sinni. Ég var örugglega eins og naut í flagi, gaf frá mér ótrúlegustu hljóð, barði niður hnefanum og gnísti tönnum. Í raun upplifði ég mig eins og villt dýr! Verkirnir voru mjög sárir en glaðloftið hjálpaði mikið og í raun var enginn tími til að hugsa um verkina eða undirbúa sig fyrir næstu hríð þar sem þær komu svo skart.

Útvíkkunin gekk mjög hratt og eftir sirka hálftíma í pottinum var ég komin í 7 í útvíkkun. Um 20-30 mínútum síðar var ég komin með rosalega rembingsþörf og sendi manninn minn út til að leita að ljósmóðurinni. Ég reyndi að rembast ekki, en það var mjög erfitt þar sem þörfin var svo sterk. Ljósmóðirin sagði að ég mætti rembast og spurði hvort ég vildi eiga í pottinum. Ég ákvað að fara upp úr, þar sem mér var orðið mjög heitt í vatninu.

Þegar þarna var komið voru vaktaskipti hjá ljósmæðrunum og tók ný ljósmóðir við mér. Það reyndist vera yndisleg ljósmóðir sem vinnur í Heilsugæslustöðinni minni og sem ég hafði hitt einu sinni í mæðraverndinni. Ég átti einmitt pantaðan tíma hjá henni í mæðravernd tveimur dögum síðar, þar sem ljósmóðirin mín var í sumarfríi. Einhvern veginn hafði ég rænu á því að tilkynna henni þar sem ég klifraði upp úr pottinum að ég myndi ekki koma í þann tíma!

Ég rembdist af öllum lífs- og sálarkröftum og eftir sirka 6 rembinga, sagði ljósmóðirin að það sæist í kollinn á barninu. Í næstu hríð var eins og það fossaði út úr mér og drengurinn kom allur í einum rembingi, með axlirnar þvert. Það var ótrúleg tilfinning að sjá drenginn okkar birtast, milli fótanna á mér. Þetta hafði allt tekið svo fljótt af og ég sem hélt ég væri bara rétt að byrja. En þarna var hann bara mættur, með mikið dökkt hár og stór og falleg augu. Hann var strax settur upp á bringuna á mér, fór fljótlega á brjóstið og var þar góða stund.
Það var mikið að gera akkúrat þegar hann kom í heiminn, fjögur börn fæddust sama korterið þannig að við lágum bara og höfðum það notalegt. Fljótlega var svo komið með saumasettið og drengurinn settur á bera bringuna á manninum mínum. Þar leið drengnum svo vel að hann kúkaði fyrstu hægðunum, barnabikinu, yfir magann á pabba sínum. Hann var svo mældur og vigtaður, um þremur klukkutímum eftir fæðinguna, og reyndist vera 54,5 cm og tæpar16 merkur (3.950 gr).

Ég held að ég geti verið mjög ánægð með mína fæðingu. Drengurinn fæddist 2,5 tímum eftir að við komum á sjúkrahúsið og ég hefði alls ekki viljað fara fyrr á spítalann. Jafnvel þótt ég hefði áttað mig á því fyrr að ég væri komin af stað í fæðingu. Mér fannst frábært að hafa getað verið heima jafn lengi og ég var. Ég er ekki í nokkrum vafa um að jógatímarnir hjálpuðu mér mjög mikið í fæðingunni. Ég fann hvað öndunin breytti miklu og hvað það var gott að búa að þeirri vitneskju sem maður hafði lært í jógatímunum að líkaminn kunni að fæða börn og því sé best að hlusta á líkamann og vera ekki feiminn við að gefa frá sér hljóð eða hreyfa sig eins og mann langar. Ljósmæðurnar sögðu að þeim hafi fundist mér takast að hafa góða stjórn á hríðunum miðað við hvað sóttin var hörð. Voru þær einnig vissar um að jógað hafi þar skipt miklu máli. Ég held að jógatímarnir hafi ekki síst gert það að verkum að ég fór inn í fæðinguna full tilhlökkunar, bjartsýni og sjálfstrausts um að ég gæti alveg gert þetta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert