Skil ekki hvers vegna ég legg þetta á þau

Þorgrímur Þráinsson er vinsæll barnabókahöfundur.
Þorgrímur Þráinsson er vinsæll barnabókahöfundur. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Þorgrímur Þráinsson nær til barna í gegnum bækurnar sínar. Fyrsta bók hans kom út árið 1989, Með fiðring í tánum, en síðan hefur hann fengið ungviðið til að lesa. Nýjasta bók hans, Henri - Rænt í Rússlandi er æsispennandi. Hann segir að hugmyndin að bókinni hafi kviknað þegar Ísland vann sér sæti á HM í fótbolta. 

„Þar sem ég hafði þegar skrifað tvær bækur um franska guttann Henri, lá beinast við að skrifa eina bók til viðbótar um hann og vinkonu hans,“ segir Þorgrímur. 

„Landsliðsstrákarnir buðu Henri á fyrsta leikinn í Rússlandi, gegn Argentínu en drengurinn og Mía, lenda í klóm mannræningja og leggja sig í lífshættu við að reyna að flýja. Ég skil ekki hvers vegna ég legg þetta á persónurnar en þær leysa ýmsar þrautir af stakri snilld. Það kom mér verulega á óvart því ég hafði ekki hugmynd um hver sögulok yrðu. En Henri og Mía héldu mér spenntum fram á síðustu blaðsíðu.“

Nú gafstu þína fyrstu bók út árið 1989 og hefur síðan þá alltaf hitt í mark. Hver er galdurinn á bak við það?

„Fyrst og fremst að vera heiðarlegur og skrifa fyrir sjálfan sig. Ef ég ætlaði að reyna að þóknast lesendum eða foreldrum eða gagnrýnendum væri ég ekki sannur. Vissulega tek ég tillit til þess aldurshóps sem ég skrifa fyrir hverju sinni en hafi ég ekki gaman af sögunni get ég ekki ætlast til þess að aðrir vilji lesa hana,“ segir hann. 

Er ekki erfiðara að ná til barna í dag en þá eða?

„Í dag er miklu fjölbreyttari afþreying í boði fyrir börn en fyrir nokkrum áratugum, ekki síst í formi snjalltækja, sem eru ekki endilega svo snjöll þegar menn rýna í afleiðingar þess. En til allrar hamingju eru mun fleiri góðir rithöfundar að skrifa fyrir börn og krakka í dag en áður og því ber að þakka þeim - en ekki hinu opinbera. Unglingarnir eru erfiðari markhópur því þeir eru enn „snjalltæknivæddari“ en áður. Því fylgja kostir og gallar en við verðum að vernda tungumálið með öllum tiltækum ráðum. Barnabókahöfundar eru vatnmetnir og illa nýttir á þeim vettvangi, því miður.“

Hvað þarf góð barnabók að innihalda svo hún fangi lesandann?

„Byrjunin þarf að vera ómótstæðileg og grípa lesandann sem vill svör við því sem er varpað fram í upphafi. Svo þarf að vera VON í barnabókum. Spennan skiptir mál, að koma á óvart, fjölbreytt persónusköpun og óvæntar uppákomur.“

Ertu byrjaður á næstu bók?

„Ég er með fjölda bóka, bíómynd, leikrit og sjónvarpsþætti í hugarsmíðum, tel mig eiga efni til næstu þrjátíu ára en af ýmsum ástæðum reikna ég ekki með bók á næstu árum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert