Börn í útrýmingarhættu

Guðmundur Ármann Pétursson með son sinn.
Guðmundur Ármann Pétursson með son sinn.

„Kanadísku Downs-samtökin hafa hafið alþjóðlega herferð til að fá einstaklinga með Downs-heilkenni skráða í útrýmingarhættu á hinn Rauða lista Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna sem er hinn opinberi og alþjóðlegi listi yfir tegundir í útrýmingarhættu,“ segir Guðmundur Ármann Pétursson í pistli á bloggsíðu sinni. Hann er faðir drengs með Downs-heilkenni og segir að það sé fáránlegt að fólk vilji útrýma börnum með heilkennið. 

„Það er í senn athyglisvert og dapurt að í fjölda landa eru nauðsynleg skilyrði þess að vera í útrýmingarhættu uppfyllt, þegar þau eru yfirfærð á einstaklinga með Downs-heilkenni. Staðan á Íslandi er þannig að fóstureyðingar á grunni þess að fóstur sé mögulega með Downs eru með því hæsta sem þekkist í veröldinni og er Ísland ítrekað tekið sem dæmi um ömurlega stöðu.

Það er einlæg von mín sem faðir einstaklings með Downs-heilkenni að sem flestir Íslendingar fari inn á síðuna endangeredsyndrome.com og deili þessari áskorun á samfélagsmiðlum og hjálpi þannig til við að tryggja jafnan rétt einstaklinga með Downs til lífs,“ segir hann. 

„Það væri hvetjandi og þarft að sjá slíkan fjölda Íslendinga leggjast á sveif með einstaklingum með Downs að það vekti alþjóðlega athygli. Við eigum að hlúa að öllum okkar börnum, einstaklingar með Downs eiga að fá að fæðast og að eiga innihaldsríkt líf eins og önnur börn. Verndum Downs-heilkennið,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert