Stórkostlegur jólamarkaður Ásgarðs

Óskar Albertsson er kominn í jólaskap.
Óskar Albertsson er kominn í jólaskap. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskar Albertsson er fjölmiðlafulltrúi Ásgarðs og kokkur. Vinsældir jólamarkaðar Ásgarðs í Álafosskvosinni eru miklar. Enda mikill kærleikur í gjöfunum frá þeim. 

Óskar segir skemmtilegt að minnast þess að þegar þau héldu einn af fyrstu jólamörkuðunum sínum í Álafosskvosinni ætluðu Diddú, Egill Ólafsson, Óskar Pétursson og Jónas Þórir að syngja og spila hjá þeim á markaðnum. „Það var svo góð mæting hjá okkur að það tók Diddú 15 mínútur að troða sér í gegnum fólksfjöldann til að komast inn til okkar. Ætli það lýsi ekki best stemningunni og meðbyrnum okkar.“

Hefð í leikfangagerð

Hvað gerið þið í Ásgarði?

„Það er mjög fjölbreytt starf unnið í Ásgarði. Ásgarður hefur unnið sér ákveðna hefð í leikfangagerð. Við gerum einföld, vönduð og sterk tréleikföng sem gefa barninu möguleika á að nota ímyndunaraflið við að breyta saklausum hesti í grenjandi ljón. Áhersla er lögð á að halda listræn og skapandi gildi í heiðri við framleiðslu leikfanganna. Einnig vinnum við mikið með leður, ull, vefnað, bein, steina, horn og önnur náttúruleg efni. Síðast en ekki síst vil ég nefna útihlutina okkar en þar erum við að tala um hluti eins og bekki, borð, tréhús, vatnstæki og fleira. Allar vörur okkar eru handunnar.“

Hver dagur nýtt ævintýri

Er gaman í Ásgarði?

„Já það er gaman hér í Ásgarði. Hver dagur býður upp á nýtt ævintýri og maður veit aldrei hvernig það endar. Enda er ég búinn að vera hér í Ásgarði frá upphafi eða frá árinu 1993.“

Hvaða sess skipa jólin í þínu hjarta?

„Ég er mikið jólabarn í mér þó að ég sé rúmlega fertugur. Jólin hjá mér snúast mikið um að gleðja aðra og skipuleggja jólamarkað Ásgarðs.“

Hvers óskar þú þér fyrir jólin?

„Ég ætla að stela textanum frá Thorbjörn Egner og óska mér að öll dýrin í skóginum verði vinir,“ segir hann og bætir við:

„Svo vil ég bara hvetja alla til að mæta til okkar í Ásgarði á jólamarkaðinn okkar sem verður haldinn í húsnæði okkar á Álafossvegi 14 og 24 laugardaginn 8. desember á milli klukkan 12.00 og 17.00. Við bjóðum upp á jólagjafir af bestu gerð og svo getur fólk komið og gætt sér á heitu súkkulaði með rjóma og borðað af flottasta kökuhlaðborði landsins.

Ég vil að lokum þakka öllum þeim frábæru fyrirtækjum og listamönnum sem styrkja jólamarkað okkar ár hvert með vörum og vinnu. Án þeirra væri jólamarkaður Ásgarðs ekki eins stórkostlegur og hann í rauninni er.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert