Barnamenningu má finna víða

Mörg börn hafa gaman af því að skapa. Það getur ...
Mörg börn hafa gaman af því að skapa. Það getur verið góð fjölskyldustund að sækja menningarviðburði fyrir börn. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Margir foreldrar eru að velta fyrir sér hvernig þeir geta eflt menningavitund barna sinna, fundið leiðir til að gera eitthvað skemmtilegt með börnunum og jafnvel vinna þannig markvisst að því að minnka tíma þeirra með snjalltækjum eða fyrir framan skjáinn. 

Fyrir þá foreldra sem vilja efla vitund barna sinna á menningu og list þá er margt í boði í dag ef vel er að gáð. Fyrir forvitna foreldra er gott að hafa aðgengi að List fyrir alla, síðu sem miðlar m.a. áhugaverðum listviðburðum fyrir börn víða um landið.  

Sinfóníuhljómsveit Íslands er með öflugt fræðslustarf á sínum snærum. 

Litli tónsprotinn er röð vandaðra fjölskyldutónleika þar sem verkefnaval miðast við börn frá fimm ára aldri. Fernir tónleikarnir eru í röðinni sem allir eru haldnir á laugardögum kl. 14.00. Tónleikarnir eru um klukkustundarlangir og án hlés.

Barnastundir eru ætlaðar yngstu hlustendunum. Í Barnastundinni er flutt létt og skemmmtileg tónlist í um það bil 30 mínútur og er sérstaklega sniðin að þeim hópi sem er of ungur til að sitja heila tónleika í Litla tónsprotanum. Sérstakur gestur er Maxímús Músíkús. 

Næsta Barnastund verður 9. mars og hefst dagskráin kl. 11:30 í Hörpuhorni.

Aðgangur er ókeypis og gott er að taka með sér púða til að sitja á.

Maxímús Músíkús er fyrir löngu orðinn heimilisvinur barna á Íslandi. Ævintýrið um þessa tónelsku mús hljómaði fyrst á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar í maí 2008. Í kjölfarið fylgdi músagangur um víða veröld og hafa sögur af Maxa, tónelsku músinni frá Íslandi, komið út á mörgum tungumálum og tónleikarnir hljómað fyrir um 130 þúsund ungmenni um víða veröld.

Listasafn Íslands er með Krakkaklúbbinn Krumma, þar sem boðið er upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá í hverjum mánuði. 

Með stofnun þessa nýja krakkaklúbbs vill safnið veita börnum og  fjölskyldum þeirra tækifæri til þess að njóta góðra stunda saman á Listasafninu. Dagskráin er vönduð og öllum er velkomið að taka þátt, sér að kostnaðarlausu.

Krakkaklúbburinn Krummi er fyrir börn á öllum aldri.

Galdrasýning þar sem ótrúlegir hlutir gerast á listasafninu. Sýningin er í tengslum við sýninguna Véfréttir. Karl Einarsson Dunganon kallar sig galdramann og þú getur hitt hann í safninu. 

Ferðalag til framandi menningarheima Vissir þú að það eru 5.106 kílómetrar frá Reykjavík til Beirút? Á þessum viðburðum fá krakkar að búa til sitt eigið landakort úr spennandi efniviði og láta hugmyndaflugið ráða.

Teiknum saman í safninu. Undurfögur listaverk veita innblástur að teikningum sem börnin teikna á staðnum undir leiðsögn. Frábært tækifæri til þess að leyfa listrænum hæfileikum að njóta sín í fallegu umhverfi.

mbl.is