Algerlega mállaus á Tenerife með þrjú börn

Snæfríður Ingadóttir og Matthías Kristjánsson ákváðu að fara með dætur …
Snæfríður Ingadóttir og Matthías Kristjánsson ákváðu að fara með dætur sínar þrjár og prófa að búa einn vetur á Tenerife.

Að byrja í nýjum skóla getur tekið á, ekki síst ef skólinn er í nýju landi. Ferðabókahöfundurinn Snæfríður Ingadóttir segir hér frá reynslu sinni af því að flytja til Tenerife og setja dætur sínar þrjár í spænskan skóla. Viðbrigðin hafa verið mikil enda kröfur og aðbúnaður ólíkt því sem stúlkurnar þekktu úr íslenskum skóla. 

Okkur, eins og svo marga Íslendinga, dreymdi um að prófa að búa í heitara landi um tíma og af einskærri ævintýraþrá ákváðum við að láta slag standa og dvelja vetrarlangt á Tenerife. Við byrjuðum að undirbúa dvölina strax í okkar síðasta fríi hér úti og kynntum okkur hvernig spænska skólakerfið virkar. Dætur okkar þrjár eru 5, 9 og 10 ára gamlar og skráðum við þær allar í hefðbundinn spænskan grunnskóla. Við hefðum getað sett þær í alþjóðlegan skóla, sem hefði að mörgu leyti verið einfaldara. Það er hins vegar kostnaðarsamara og eins vildum við að þær umgengjust spænska krakka og yrðu þar með vonandi fljótari að ná tökum á spænskunni, enda einn megintilgangur dvalarinnar að fjölskyldan lærði öll spænsku.

Erfið byrjun

Við fengum aðstoð við umsóknarferlið frá spænskri vinkonu okkur og höfðum því ekki haft bein samskipti við skólann fyrr en við skólabyrjun þegar við komum hingað. Þá uppgötvuðum við okkur til skelfingar að enginn talaði ensku í öllum skólanum nema enskukennarinn. Samt læra börn ensku í skólanum frá unga aldri og afkoma eyjunnar byggist að stórum hluta á þjónustu við erlenda ferðamenn. Dætur okkar komu alveg mállausar í skólann og við kunnum sjálf varla orð í spænsku svo byrjunin var nokkuð brött og þeim var bara kastað út í djúpu laugina. Við foreldrarnir mættum á foreldrafundi og skildum ekkert af því sem fram fór og vorum hlaupandi um skólann til að reyna að finna einhverja aðra erlenda foreldra sem gætu þýtt það helsta.

Heilasellurnar voru við það að bræða úr sér fyrsta mánuðinn svo ekki sé meira sagt. Sama var með dæturnar, þær voru alveg búnar á því í lok skóladags. Þó að þeim fyndist að mörgu leyti mjög spennandi að hefja nám í nýjum skóla reyndist erfitt að vera í skólanum í sjö tíma á dag, eða frá kl. 8.30 til 15.30. Við styttum því skóladaginn hjá þeim og í stað þess að borða hádegismat í skólanum og fara beint í frístund koma þær nú heim kl. 13. 30. Líklega hefði byrjunin gengið betur ef þær hefðu kunnað meira í spænsku áður en þær byrjuðu í skólanum og ég ráðlegg foreldrum sem eru að íhuga að setja börnin sín í spænskan skóla að láta börnin á spænskunámskeið áður svo þau séu komin með einhvern grunn. Að þessu sögðu eru börn samt ótrúlega dugleg og með mikla aðlögunarhæfileika. Þannig voru tvær af okkar dætrum farnar að setja saman setningar strax á fyrsta mánuði og geta tjáð sig nokkuð vel eftir aðeins tvo mánuði.

Engir speglar, enginn klósettpappír

Byrjunarkostnaður var töluverður því hér kaupa foreldrar allt til skólans sjálfir, bæði ritföng og námsbækur. Við greiddum til að mynda nærri 100 þúsund krónur í námsgögn fyrir þrjú börn. Eins þurfti að kaupa skólabúninga. Íþróttafatnað þurfti ekki að kaupa þar sem krakkarnir eru látnir stunda íþróttir í skólafötunum og enginn fer í sturtu á eftir. Mínar dætur fara alltaf með pappírsþurrkur í skólann því það er enginn klósettpappír á salernunum. Hægt er að fá klósettpappír hjá kennaranum en elstu dótturinni finnst það helst til pínlegt að biðja um það í hvert skipti sem fara þarf á klósettið. Í fyrstu fannst mér þetta mjög skrýtið en líklega er þetta til þess að koma í veg fyrir sóun. Eins fannst mér skrýtið að það væru engir speglar á salernunum en þegar ég velti því betur fyrir mér þá er það kannski ekki svo vitlaus hugmynd í ljósi samanburðar og útlitsdýrkunar að börnin sleppi bara alveg við að spá í útlitinu á skólatímanum. Ég veit ekki hvort þetta með speglana og klósettpappírinn er eins í öllum almennum spænskum skólum, svona er þetta að minnsta kosti í okkar skóla.

Sykur alls staðar

Aðbúnaðurinn i skólanum er annars mjög einfaldur, húsgögnin eru gömul en þau virka og á skólalóðinni þurfa þau sem ekki vilja stunda boltaíþróttir að nota ímyndunaraflið því engin eru leiktækin, nema á deildinni hjá þeim allra yngstu. Börnin koma með nesti að heiman og þar sem það er heilsuverndarstefna í gangi í skólanum okkar þá eru foreldrar hvattir til þess að senda börnin ekki með sætabrauð í skólann oftar en tvisvar í viku! Spænsk börn borða upp til hópa allt of mikinn sykur sem er kannski ekkert skrýtið því það er, að okkur finnst, alltaf verið að ota sælgæti að þeim. Það er sama hvert farið er; í klippingu, í bankann eða í heimsókn í heimahús, alltaf er börnunum rétt sælgæti. Meira að segja á foreldrafundum er ekki boðið upp á kaffisopa heldur stórt fat með sælgæti látið ganga á milli foreldranna.

Minna frjálsræði

Helstu viðbrigðin varðandi skólagönguna er þó frjálsræðið sem er mun minna en á Íslandi. Fyrir það fyrsta er skólalóðin algjörlega afgirt og að utan lítur skólinn í raun meira út sem fangelsi en skóli. Skólinn byrjar klukkan hálf níu á morgnana og á slaginu opnast hliðið inn á skólalóðina og foreldrarnir kveðja börnin við hliðið. Á hverjum morgni ríkir því töluvert öngþveiti fyrir utan skólann þegar foreldrarnir mæta með börnin og bíða eftir því að hliðið opnist en á sama tíma gefst líka gott tækifæri til að blanda geði við aðra foreldra. Þegar börnin eru sótt í skólann þá standa þau í röð og þau fá ekki að fara heim fyrr en kennarinn hefur kvatt hvert barn fyrir sig og afhent það foreldrum sínum eða ef barnið er í frístund þá þurfa foreldrar að segja nafn barnsins við skólahliðið og það er síðan kallað upp og afhent við hliðið. Eins og gefur að skilja þá getur þessi athöfn tekið töluverðan tíma en það er hluti af spænska lífinu að læra að bíða, hér er biðlund dyggð.

Önnur skrift, aðrar reikniaðferðir

Í skólanum er líka mun meiri agi en í þeim skóla sem dæturnar gengu í á Íslandi. Hér komast krakkarnir ekki upp með neitt múður eins og ljótan munnsöfnuð, þá missa þau bara af frímínútum eða sitja eftir. Eins er mun meira heimanám og próf haldin aðra hverja viku. Ef verkefni klárast ekki á skólatíma þá þarf að klára þau heima, auk heimanámsins. Þó dætur okkar séu ekki spænskar þá sýnir kennarinn þeim enga miskunn þegar kemur að málfræðinni eða orðadæmum í stærðfræði. Þær eiga að fara í gegnum sama námsefni og innfæddir og ætlast er til þess að þær leysi verkefnin eins og aðrir. Það eru engar ýkjur að heimanámið hefur verið að sliga okkur en þó verður að segjast að námsefnið er mjög áhugavert, námsbækurnar vel upp settar og mikil samþætting í gangi á milli faga. Börnin hér úti virðast vera komin mun lengra námslega séð heldur en jafnaldrar þeirra á Íslandi. Við sjáum það glöggt þegar við berum saman íslensku skólabækurnar sem við tókum með okkur hingað út og námsefnið hérna. En það er ekki nóg með að kröfurnar séu aðrar heldur læra börn hér ekki ítalska skrift eins og kennd er í íslenskum skólum heldur mjúka tengiskrift og eins eru reikningsaðferðirnar í stærðfræðinni örlítið frábrugðnar. Ég hélt ég yrði ekki eldri þegar við vorum boðuð á foreldrafund og spurð að því hvort miðjudóttirin kynni ekki deilingu! Ég viðurkenni að á þeirri stundu langaði mig bara heim aftur því mér fannst alveg nóg að þurfa að kljást við spænskuna þó ekki þyrfti að fara að kenna börnunum aðrar útreikniaðferðir í stærðfræði. Þessar nýju aðferðir hafa þó vanist vel og á skriftin til að mynda mun betur við dætur mínar heldur en hin hvassa ítalíuskrift og þær eru loksins farnar að skrifa fallega.

Umhverfismál í stað kristnifræði

Annað sem vakið hefur athygli okkar er kristnifræðin. Spánverjar eru flestir kaþólikkar og víða er mikil áhersla lögð á trúmál en hér er þetta nokkuð frjálslegt. Nemendur geta valið að sitja ekki kristnifræðitímana þar sem eingöngu er verið að kenna gildi kaþólskrar trúar en fara í staðinn í tíma þar sem fjallað er um samfélagsleg gildi og umhverfismál og þar er nemendum til að mynda kennt að flokka rusl. Okkur finnst auðvitað að öll börn ættu að læra um mikilvægi endurvinnslu, líka kaþólikkar, en kannski ná skólayfirvöld að koma sama boðskap til kaþólikkanna annarsstaðar.

Nú eru fjórir mánuðir liðnir af dvöl okkar hér úti og þó byrjunin hafi verið erfið virðast dæturnar vera mjög sáttar í skólanum, sem er fyrir öllu. Þær hafa eignast vini hérna og taka þátt í tómstundum af ýmsu tagi. Ég reikna með því að okkur öllum bregði við þegar við komum aftur heim til Íslands og ekkert annað heimanám er sett fyrir en korterslestur á dag eða álíka. Ég hef heyrt erlenda vini mína heima kvarta yfir litlum metnaði í íslenska skólakerfinu og nú skil ég loks hvað þeir eru að tala um. Miðað við skólann hér þá er himinn og haf á milli. Sinn er siðurinn í landi hverju og það hefur verið afar áhugavert að átta sig á því hvernig skólakerfið virkar í öðru landi. Áhugaverðast af öllu hefur þó verið að stíga út fyrir þægindarammann og ögra sér og börnunum, sem geta alltaf svo miklu meira en maður heldur.

Dætur Snæfríðar þær Margrét, Bryndís og Ragnheiður Inga.
Dætur Snæfríðar þær Margrét, Bryndís og Ragnheiður Inga.
Heimanámið reyndist mjög krefjandi.
Heimanámið reyndist mjög krefjandi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »