Ertu að aðstoða of mikið?

Það getur verið skemmtileg stund að elda með fullorðnu barni …
Það getur verið skemmtileg stund að elda með fullorðnu barni sínu. Það er mikil sjálfsvirðing í því að undirbúa góðan málsverð. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Fjölmargir eru að velta fyrir sér bestu leiðunum að styðja við fullorðin börn á sem heiðarlegastan hátt. Flestir eru sammála því að hvert einasta aldurskeið barna okkar sé mikilvægt. Fólk á öllum aldri þarf að eiga góða foreldra. Spurningin er hins vegar alltaf sú: Hvenær er gott foreldri að gera of mikið?

Hér verða nokkur atriði skoðuð. 

Undirbúningur

Eitt mikilvægasta verkefni okkar foreldra er að mynda náin tengsl við börnin okkar. Á fyrstu aldursárum er mikilvægt að setja börnin í forgang, að mæta þörfum þeirra og mynda náin tengsl við þau.

Á næstu aldursskeiðum skiptir nánd og innileiki áfram máli en þá er mikilvægt að koma inn leiðum til að kenna börnum hægt og rólega að taka ábyrgð í lífinu.

Ef börn læra að taka þátt í að leggja á borð, elda matinn, kaupa inn og taka þvottinn sinn svo dæmi séu tekin, öðlast þau sjálfstraust sem þau taka út í lífið. 

Bara það að hafa tekið þátt í að elda með fjölskyldunni gefur barni traust innan um jafnaldra. Það veit þá innra með sér að það er að læra mikilvæga hluti.

Ef þú hefur ekki náð að kenna fullorðnu barni þínu þessi grunnatriði eða það virðist í einhverjum áskorunum með þetta sem fullorðin manneskja getur þú alltaf verið til staðar ef aðstoðar þinnar er óskað. 

Þá má sem dæmi bjóða einstaklingnum með í búð fyrir matarboð og fá hann til að aðstoða við eldamennskuna. Það er ekki síður mikilvægt að kenna börnum að það sé skemmtilegt að gera mat og í því sé fólgin mikil sjálfsvirðing, eins og að kenna góðar uppskriftir. 

Það er í lagi að taka sér smá tíma til að hugsa málið

Það er mikilvægt að kenna börnum á peninga. Að sýna þeim hægt og rólega hvernig peningar safnast upp, ef maður eyðir minna en maður þénar. 

Þegar barn byrjar að vinna sem unglingur er einnig gaman að aðstoða þau með að safna fyrir einhverju sem þau langar í, eða jafnvel fyrir íbúð í framtíðinni. 

Ef þú hefur ekki náð að koma þessu nógu vel til skila til barnanna þinna eða ef þú átt barn sem er að lenda í áskorun ítrekað tengt peningum, hringir í þig í tíma og ótíma að biðja um lán sem það kannski ætlar sér ekki að greiða til baka, er gott fyrir þig að taka þér smá tíma og hugsa málið. Það þarf ekki að svara öllum óskum samdægurs.

Þú getur notað tímann til að hugsa hvort þú viljir lána peninginn og hvernig best sé fyrir þig að verða hluti af lausninni en ekki vandanum. Ekki hika við að kenna ungu manneskjunni að borga til baka. Ef þig vantar ekki peninginn, er gott að leggja hann inn á bók og safna upp í sjóð fyrir barnið sem getur svo verið hjálp við útborgun í íbúð eða eitthvað annað. Að kenna ungu fólki að standa við orð sín er mikilvægt svo það geti staðið sig í lífinu. Eins er gott að kenna ungu fólki að þegar það borgar til baka, þarf það ekki að vera helmingur af laununum, lítill hlutur yfir langan tíma getur kennt því að semja við aðra þegar þeir eru orðnir fullorðnir. 

Vertu styðjandi í stað þess að leysa

Ef þú átt fullorðið barn sem hringir alltaf í þig þegar kemur að því að setja upp gardínur, myndir eða aðra verklega hluti á heimilinu getur verið gott ráð að mæta með borvélina en nota hluta af tímanum í að kenna verklega hæfni. Það gefur ungu fólki mikið sjálfstraust að ná tökum á einföldum atriðum þegar kemur að heimilinu. Seinna meir munu þau hringja til að biðja þig um að koma með borvélina að lána þeim. Síðan munu þau geta fjárfest í einni slíkri sjálf og verið svo til staðar í sömu mynd fyrir börnin sín. 

Vertu hluti af lausninni 

Ef þú átt fullorðinn einstakling sem er kominn á þann aldur að það sé eðlilegt að hann fari að heiman en það er ekki nein vísbending um slíkt frá honum getur verið gott að grípa til nokkurra ráða.

Byrjaðu á því að láta þennan fullorðna einstakling borga heim. Það æfir hann í að borga leigu. Passaðu upp á að þessi einstaklingur sé að ná tökum á að taka ábyrgð á sér, svo það séu ekki þannig hlutir að aftra honum frá því að taka næsta skrefið út í lífið. 

Hver fjölskylda er með sínar þarfir á þessu sviði og mjög eðlilegt þykir að fullorðin börn séu allt fram yfir háskólaaldur heima í dag og séu þá að safna sér fyrir útborgun og fleira í þeim dúrnum. 

Þegar ungt fólk er tilbúið að fara að heiman og það hefur tök á aðstæðunum, líður vanalega öllum vel með ákvörðunina. 

Ekki leysa ástarmál fullorðinna barna

Það getur verið erfitt að horfa upp á fullorðin börn okkar lenda í einhverju sem flokkast gæti sem sambandserfiðleikar eða skilnað. Reyndu að forðast að dæma þá stöðu sem barnið þitt er í og reyndu heldur að skilja hvað liggur að baki stöðunnar.

Ef einstaklingurinn er í erfiðu sambandi, reyndu þá að mynda nánd og traust við báða aðilana, fullorðið barn þitt og maka þess. Þannig getur þú einnig verið til staðar þegar þau þurfa aðstoð. Það er hægt að leysa úr mörgu með aðstoð fagfólks og vanalega eru mjög góðar skýringar fyrir hegðun fólks. 

Ekki taka þátt í því að hlusta á fullorðið barn þitt tala illa um maka sinn. Spurðu uppbyggilegra spurninga og reyndu að aðstoða það við að taka ábyrgð á stöðu sinni. Þú getur aldrei tekið ákvörðun fyrir fullorðið barn þitt, eins getur þú ekki dæmt stöðu þess. En með því að kenna því að taka ábyrgð á sér og vali sínu, þá kennirðu líka leiðir út úr slíkum áskorunum. 

Ef þig grunar að ekki sé allt með felldu

Ef þú ert með áhyggjur af því að fullorðið barn þitt gæti verið að misnota áfengi, borði of mikinn mat eða sé í óstjórn einhversstaðar þá er gott að taka sér tíma í að skoða ástandið styðjandi við einstaklinginn. 

Til að vera hluti af batanum er mikilvægt að fara í hópa sem sérhæfa sig fyrir aðstandendur. Skoðaðu hvað getur verið í gangi og myndaðu nánd og traust við fullorðna barnið þitt, þannig að það viti að þú viljir því vel og sért til staðar. Ekki dæma og fáðu aðstoð. Þú getur aldrei stjórnað því sem fullorðið barn þitt er að gera, en þú getur svo sannarlega verið hluti af bata þess og vísað því veginn í rétta átt. 

Ef þú telur ástandið orðið alvarlegt er mikilvægt að fá aðstoð fagfólks strax. Ekki reyna að leysa mál sem þú ert ekki sérfræðingur í upp á eigin spýtur. 

mbl.is