Fermdust 1988, 1998 og 2008

Þessi mynd var tekin í Grafarvogskirkju.
Þessi mynd var tekin í Grafarvogskirkju. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flestir eiga góðar minningar frá fermingardeginum sínum. Kannski sér í lagi þegar ákveðnum þroska er náð og hægt er að líta til baka og hafa gaman af ákvörðunum sem einkenndu daginn, hvort sem um ræðir fötin, skreytingarnar, hárið eða annað sem þótti flott á þeim tíma. Þá er auðvitað einnig persónubundið hvað ferming merkir í huga fermingarbarnanna. Við leituðum til þriggja kvenna sem fermdust hver á sínum áratugnum og fengum þær til að rifja upp hvað stóð upp úr á fermingardeginum þeirra. 

1988 – Sólrún Sverrisdóttir sjúkraþjálfari

Sólrún Sverrisdóttir.
Sólrún Sverrisdóttir.

Hvaða dag fermdist þú og hvar?

4. apríl 1988 í Bústaðakirkju.

Fermingardagurinn 1988

„Mér fannst dagurinn mjög sérstakur og man vel eftir athöfninni, ferðinni í hárgreiðsluna, myndatökunni og veislunni. Þetta var í fyrsta sinn sem svona dagur snerist bara um mig og mér fannst það gaman. Ég man að ég valdi mér ritningargrein sem ljósmóðirin sem tók á móti mér skrifaði inn í Nýja testamentið sem hún gaf öllum börnum sem hún tók á móti og mér fannst það sérstakt og man ég þessa ritningargrein enn í dag og finnst gildin hennar góð: „Sælir eru hjartahreinir því þeir munu Guð sjá“.“

Spurð um fermingardressið segir hún að hún hafi verið fljót að ákveða sig.

„Við mamma völdum dressið í sameiningu, fórum bara í smá búðarúnt og vorum fljótar að finna dress sem ég var ánægð með. Ég man ekki nákvæmlega af hverju ég valdi þessi föt, fór bara að skoða og máta og fann þessa dragt. Ég pældi mun meira í hárgreiðslunni heldur en fötunum. Skreytingarnar voru í anda þess sem hafði verið hjá systrum mínum, t.d. áletraðar servíettur sem mér fannst mjög flott.“

Hvað boðaði ferming í þínum huga?

„Hún boðaði staðfestingu á því að ég er kristinnar trúar og vildi staðfesta það. Á þeim tíma fermdust flestallir og ekki mikil umræða um að gera það ekki. Ég mundi þó vel að frændi minn hafði valið að fermast ekki nokkrum árum áður en hann er nú reyndar pestur í dag.“

1998 – Sigrún Jensdóttir hjúkrunarfræðingur

Sigrún Jensdóttir.
Sigrún Jensdóttir.

Hvaða dag fermdist þú og hvar?

26. apríl í Selfosskirkju.

Fermingardagurinn 1998

„Veislan stendur upp úr en mér fannst mjög gaman í minni eigin veislu. Allar gjafirnar eru auðvitað eftirminnilegar og svo hvað vínið í kirkjunni var hræðilega sterkt og vont. Ég valdi fötin sjálf, fór í búðir með mömmu og ömmu. Veislan var haldin heima og sá mamma að mestu um skreytingarnar. Ég fann mér kjól sem mér fannst fallegur, hann var ekki eins og þeir vinsælustu þetta árið. Með honum fylgdi jakki í stíl sem var bundinn að framan. Það fannst mér ekki flott en amma Hrefna reddaði því og breytti jakkanum eftir mínum óskum.“

Hvað boðaði ferming í þínum huga?

„Ferming fannst mér vera staðfesting á trúnni en einnig stór og skemmtilegur atburður sem ég hlakkaði til að upplifa sjálf eins og systur mínar og frænkur.“

2008 – Arnheiður Steinþórsdóttir, nemi í sagnfræði

Arnheiður Steinþórsdóttir.
Arnheiður Steinþórsdóttir.

Hvaða dag fermdist þú og hvar?

Ég fermdist á hvítasunnu, 11. maí 2008, í Ísafjarðarkirkju.

Fermingardagurinn 2008

„Dagurinn var allur mjög eftirminnilegur, mér fannst athöfnin sjálf svakalega spennandi og svo var auðvitað frábært að vera miðja athyglinnar í einn dag. Eitt af því eftirminnilegasta var þó líklega myndatakan sem mér fannst einhverra hluta vegna sniðugt að fara í strax eftir veisluna. Þar var ég dauðþreytt í spennufalli, að drepast í tánum í óþægilegu fermingarskónum og alveg í spreng (skil ekki af hverju ég fór ekki bara á klósettið). En ég hugsaði, „the show must go on“ og ákvað að drífa mig í gegnum þetta. Það voru mistök, því þessi vanlíðan skín í gegn á nær öllum myndunum. Ég var svo óánægð með þær að ég bað mömmu um að fara með mig í aðra myndatöku tæpu hálfu ári síðar. Í dag þykir mér þær myndir þó lítið skárri, en það er kannski bara eðlilegt.“

Spurð um fötin segir hún að þemað hafi verið dökkrautt.

„Ég valdi fötin í samráði við foreldra mína. Þemað var dökkrautt, sem var og er minn uppáhaldslitur. Eitt það snjallasta sem ég gerði á unglingsárunum var að óska eftir því að fá að fermast í þjóðbúningi. Ég var svo heppin að fá sérsaumaðan upphlut í fermingargjöf sem ég klæddist á þessum merka degi, og nota enn í dag. Hugsunin á bak við fatavalið var ekki aðeins sú að mér þættu þjóðbúningar glæsilegir, heldur vissi ég að þeir myndu seint detta úr tísku og því yrðu fermingarmyndirnar mínar aldrei hallærislegar. Mér skjátlaðist, sbr. fyrra svar.“

Hvað boðaði ferming í þínum huga?

„Ég var mjög trúuð sem barn og því hafði ég beðið fermingarinnar með óþreyju í langan tíma. Fyrir mér hafði fermingin mikla kristilega þýðingu á sínum tíma, en þó tók barnatrúin smám saman að fjara út í kjölfarið. Ástæðu þess tel ég vera þá að fermingin hafi í raun mun fremur táknað upphaf unglingsáranna fyrir mér, þó að ég hafi ekki áttað mig á því fyrr en löngu síðar. Ég var loksins komin í fullorðinna manna tölu og eftir það upphófst mikil innri barátta þar sem ég reyndi að sætta mig við það að vera ekki lengur barn og takast á við hvað það þýddi að vera næstum því fullorðin. Þegar ég lít til baka sé ég þarna ákveðin tímamót sem í raun voru mun frekar persónuleg heldur en trúarleg. Í dag reyni ég þó að halda í barnatrúna en með öðrum hætti en áður. Ég lít á hana sem hluta af mér sem mér þykir afar vænt um og tel mikilvægt að hlúa að.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert