Hætti í vinnunni og hóf ljósmyndanám

Rán hefur mjög gaman af því að taka fallegar ljósmyndir ...
Rán hefur mjög gaman af því að taka fallegar ljósmyndir á fermingardaginn. mbl.is/Árni Sæberg

Rán Péturs Bjargardóttir hefur starfað sjálfstætt sem ljósmyndari í sjö ár. Hún vildi að allir myndu fjárfesta í ljósmyndum fyrir stundir eins og fermingar, líkt og fólk gerir tengt fatnaði og fylgihlutum. 

Ljósmyndir Ránar eru afslappaðar og skemmtilegar, þar sem náttúran og mild birta kallast á við djúpa skugga.

Rán segir að áhugi sinn á ljósmyndum hafi kviknað ómeðvitað þegar hún var barn. „Pabbi minn átti myrkraherbergi og tók mikið af myndum á filmu. Hann leyfði mér að taka þátt í öllu ferlinu og sjá hvernig ljósmyndir verða til. Mamma tók líka mikið af myndum af okkur systkinunum þegar ég var að alast upp og hún á tugi albúma sem mér finnst ennþá gaman að fletta í gegnum. Þegar ég fermdist fékk ég mína fyrstu myndavél og hef tekið myndir alla daga síðan. Það var aldrei ætlunin að gera þetta að starfi mínu samt, heldur var þetta meira svona eins og einhver draumur sem ég átti. Ég hélt aldrei að hann yrði að veruleika.“

Afslöppuð mynd út í náttúrunni.
Afslöppuð mynd út í náttúrunni. mbl.is/Rán Péturs Bjargardóttir

Var með myndavél í láni í fyrstu

Að sögn Ránar var það eiginmaður hennar sem hvatti hana áfram og lánaði henni stóra myndavél sem hann átti. „Hann fékk myndavélina aldrei aftur. Ég fór að taka myndir samhliða vinnu, fyrst fyrir mig en svo fyrir aðra.

Stundum gat ég ekki beðið eftir að komast úr vinnunni til þess að geta farið að mynda. Ég vann hálft starf á þáverandi vinnustað og hálft starf sem áhugaljósmyndari. Síðan æxluðust mál þannig árið 2015 að ég sagði starfi mínu lausu, fór í ljósmyndanám og hef starfað eingöngu sem ljósmyndari síðan.“

Rán segir að það gefi henni mikið að vera ljósmyndari.

„Ég hef sérhæft mig í barna- og fjölskyldumyndatökum og það jafnast fátt á við það að geta glatt fólk með fallegum myndum af börnum sínum og fjölskyldu. Það er fjársjóður sem ég tók þátt í að búa til og eitthvað sem fólk mun varðveita um ókomna framtíð.“

Falleg mynd með fermingarbarninu er gulls ígildi.
Falleg mynd með fermingarbarninu er gulls ígildi. mbl.is/Rán Péturs Bjargardóttir

Ekki alltaf auðvelt að mynda fermingarbörn

Hvernig er að mynda fermingarbörn?

„Þegar ég hef náð þeim á mitt band er það mjög skemmtilegt. Ég væri að ljúga ef ég segði að það væri alltaf auðvelt. Þetta er viðkvæmur aldur og þau eru mjög meðvituð um sjálf sig. Ég passa fyrst og fremst upp á að reyna að kynnast þeim og sýna þeim áhuga. Spyrja þau um skólann, áhugamálin eða bara spjalla um daginn og veginn. Þau kunna alveg að meta það, finnst mér. Svo sendi ég foreldrana aðeins afsíðis og næ tíma með börnunum einum. Ef allir eru að horfa á mann í myndatöku getur fylgt því óþarfa pressa, þó það séu bara mamma og pabbi. Svo bara reyni ég að hafa þetta skemmtilega og ánægjulega stund fyrir þau í staðinn fyrir einhverja kvöð.“

Hvað skiptir mestu máli að hafa í huga þegar teknar eru ljósmyndir af fólki?

„Það skiptir máli að ná góðu sambandi við þá sem maður er að mynda. Fólk þarf líka að finna að það geti treyst ljósmyndaranum. Ég legg mikið uppúr því að mynda fólk nákvæmlega eins og það er, ekki þvinga það í neitt sem er úr karakter eða slíkt. Ég næ bestu myndunum af fólki þegar það veit kannski ekki af því, þegar það lítur undan eða er að brosa til einhvers. Svo þarf auðvitað að passa lýsingu, líkamsstöðu, uppstillingar, myndskurð og annað. En ég reyni líka stundum að brjóta reglurnar og gera eitthvað öðruvísi. En ég met það hverju sinni hver á í hlut.“

Fermingarbörn eru frjálsari í sínu náttúrulega umhverfi
Fermingarbörn eru frjálsari í sínu náttúrulega umhverfi mbl.is/Rán Péturs Bjargardóttir

Það þarf að sleppa sér í augnablikinu

Fyrir okkur sem finnst ekki gott að láta mynda okkur, hvað getum við haft í huga?

„Fjölskyldutökurnar mínar taka yfirleitt ekki langan tíma, svo það þarf svolítið að sleppa sér í augnablikinu bara og reyna að slaka á. Eins er gott að taka fram ef það eru séróskir varðandi eitthvað. Sumir vilja síður sitja eða standa, aðrir vilja vera myndaðir frá sérstakri hlið og enn aðrir viðkvæmir fyrir einhverju varðandi sjálfan sig o.s.frv. Þetta þarf ljósmyndarinn að vita fyrirfram og kunna að vinna með fólki. Ég vinn aðeins öðruvísi með fólki sem finnst myndatökur mjög óþægilegar og reyni að gera þetta sem þægilegast fyrir alla.“

Rán er á því að ljósmyndir séru mikill fjársjóður og því mikilvægt að leita til fagmanna tengt ljósmyndum á merkilegum stundum.

„Að mínu mati ætti að horfa til gæða frekar en í verð þegar myndatöka er bókuð, sérstaklega ef það er fyrir fólkið sem maður elskar mest. Ég vildi óska að fleiri tímdu að eyða jafn miklu í myndatökur og það gerir í fatnað, skrautmuni, símtæki og annað.

Ég sá flott veggspjald um daginn sem var á þá leið að ef manni þætti ljósmyndir ekki mikilvægar, þá ætti maður að bíða þar til þær væru það eina sem maður á eftir.“

Það getur verið gaman að eiga mynd af allri fjölskyldunni ...
Það getur verið gaman að eiga mynd af allri fjölskyldunni í tilefni fermingar. mbl.is/Rán Péturs Bjargardóttir
Rán er mikið fyrir að taka myndir af fermingarbörnum úti ...
Rán er mikið fyrir að taka myndir af fermingarbörnum úti í náttúrunni. mbl.is/Rán Péturs Bjargardóttir
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »