Námskeið fyrir hressa krakka í sumar

Álfrún og María eru áhugaverðar konur sem kunna að blanda …
Álfrún og María eru áhugaverðar konur sem kunna að blanda saman jóga og leiklist. mbl.is/Arnþór

Álfrún Örnólfsdóttir og María Dalberg ætla að vera með sumarnámskeið fyrir börn í Jógasetrinu í sumar. Námskeiðið er fyrir hressa krakka sem vilja læra leiklist, jóga og að tengjast öðru fólki. Þær segja námskeið á svona nótum nauðsynleg fyrir börn sem þurfa að finna leiðir út úr tölvunum í sumar. 

Álfrún og María kynntust þegar þær léku saman í söngleiknum Grease í Loftkastalanum árið 2009. Þær lærðu báðar leiklist í London og eiga það líka sameiginlegt að vera forfallnir jógar og menntaðir jógakennarar. 

Álfrún hefur áralanga reynslu af barna- og unglingajógakennslu. Hún er leikkona og hefur starfað í leikhúsi og kvikmyndum, við talsetningar og leiklistarkennslu. 

María hefur mikla reynslu af að kenna jóga bæði fyrir fullorðna og börn, þar má nefna Ashtanga, Power jóga, Yin jóga, Yoga Nidra og fjölskyldujóga. Hún er einnig leikkona og hefur starfað í leikhúsi og í kvikmyndum.

AF HVERJU FÓRUÐ ÞIÐ ÚT Í JÓGA FYRIR BÖRN?

„Þegar ég var með námskeið í leiklist fyrir börn í 2. og 3. bekk þá hugsaði ég oft hvað það væri margt í jóganu sem gæti hjálpað til við að þjálfa einbeitingu og hlustun hjá krökkunum. Svo þegar ég kláraði jógakennaranám ákvað ég strax að þjálfa mig upp í að miðla jóga til barna. Þau eru líka bestu kennararnir því að ef maður er ekki alveg 100% til staðar eða með sitt á hreinu þá láta þau mann vita. Ég er því alltaf með plan A og svo milljón önnur plön í pokahorninu til að grípa í ef dagskráin virkar ekki eins og ég sá hana fyrir mér. Það er nauðsynlegt að vera sveigjanlegur þegar unnið er með börnum og þau eru svo skapandi að maður verður að vera tilbúin að grípa hugmyndirnar þeirra og styðja við þær án þess að missa stjórnina,“ segir Álfrún. 

Álfrún og María segja jóga hjálpa til við að þjálfa …
Álfrún og María segja jóga hjálpa til við að þjálfa einbeitingu og hlustun hjá krökkunum. mbl.is/Arnþór

María segir að hún hafi verið búin að kenna jóga í nokkur ár þegar hún ákvað að bjóða upp á fjölskyldujógatíma. „Mér fannst það vera fullkomin gæðastund fyrir fjölskylduna að gera jóga saman. Þá voru þetta oft foreldrar sem voru að iðka jóga og langaði að deila jóga með börnunum sínum líka. Ég hef oft óskað þess að ég hefði byrjað að læra jóga sem barn þar sem jóga kennir manni svo margt gott eins og að anda meðvitað og róa þannig hugann. Jógaæfingarnar eru líka góðar; bæði styrkjandi og liðkandi og þjálfa jafnvægi og samhæfingu. Jóga kennir börnum einnig að slaka á og þjálfa einbeitinguna. Það er líka svo margt fallegt í jógafræðunum eins og að muna að vera góð við okkur sjálf og vera alltaf góð við hvort annað. Svo er bara svo gaman og gefandi að kenna krökkum jóga.“

Hressir krakkar að gera jóga að sumri til.
Hressir krakkar að gera jóga að sumri til. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er á döfinni fyrir börn í sumar á ykkar vegum? 

„Við ætlum að vera með vikunámskeið fyrir börn á aldrinum 9-12 ára í Jógasetrinu, þar sem við blöndum saman jóga og leiklist. Eitt námskeið frá 24. – 28. júní og annað 12. – 16. ágúst. Við byrjum daginn alltaf á jóga og svo förum við í leiklistarleiki og æfingar sem virkja sköpunarkraftinn en hjálpa okkur líka að byggja upp traust og vinna saman í hóp.“

Álfrún og María segja gaman að kynnast líkamanum sínum og …
Álfrún og María segja gaman að kynnast líkamanum sínum og prófa alls konar furðulegar jógastöður og æfingar. mbl.is/Arnþór

Hvað gerir svona námskeið fyrir börnin?

„Jóga er gott fyrir alla, bæði fullorðna og börn. Það er gaman að kynnast líkamanum sínum og prófa alls konar furðulegar jógastöður og æfingar. Krakkarnir læra öndunartækni sem getur hjálpað manni að ná þannig tökum á tilfinningunum sem stundum vilja stjórna manni. Það er sko aldrei of snemmt að byrja að þjálfa sig í að geta fundið ró innra með sér og krakkar eru svo fljótir að læra að við elskum að kenna þeim þessar jógaleiðir til að láta sér líða vel. Leiklist og jóga eiga mjög vel saman því leiklistin þjálfar líka athygli og hlustun, einbeitingu, traust og samvinnu,“ segir Álfrún. 

Jóga er fyrir alla að mati þeirra Maríu og Álfrúnar.
Jóga er fyrir alla að mati þeirra Maríu og Álfrúnar. Ljósmynd/Aðsend

Eigið þið börn sjálfar?

„Ég á tvær dætur, Kolbrúnu Helgu 7 ára og Margréti 11 ára," segir Álfrún og María og tekur við: „Ég á soninn Hilmar Andra 12 ára.“

Eigið þið góð uppeldisráð að deila með lesendum?

„Að elska þessi börn óendanlega og hafa húmor fyrir því þegar þau gera mistök,“ segir Álfrún. María bendir á að skilyrðislaus ást sé nauðsynleg. „Ef við munum að anda út um nasirnar og halda ró okkar þegar þau eru eitthvað að óþekkast, þá fer allt vel,“ segir María. 

Hvað mynduð þið forðast tengt börnum og uppeldi?

Álfrún segir að aðaláskorunin sé að halda ró sinni þegar börnin festast í neikvæðni og taka brjálæðisköst. „Það getur tekið á að stoppa sig í að reiðast og gera þannig illt verra. Verst er þegar maður stendur sjálfan sig að því að hóta einhverju í hita leiksins og spyrja sig svo hvort maður verði að standa við hótunina þegar allt er fallið í ljúfa löð. Það er heilmikill skóli að ala upp börn.“

María tekur undir með Álfrúnu:  „Það sem hefur verið stærsta áskorunin mín er að muna að halda ró minni og tala rólega við börnin þegar þau taka brjálæðisköst og þannig finna flöt á hlutunum í stað þess að æsa mig við þau, það er eins og að kasta olíu á eld. Þá hefur jóga kennt mér að draga djúpt inn andann og svara með meðvitund þegar ég tekst á við erfiðar aðstæður í stað þess að bregðast strax illa við. Maður sér alltaf eftir því.“

 Eigið þið góða sögu af ykkur sem börnum að sumri til?

„Ég gleymi aldrei sumrinu sem ég fékk Nintendo-leikjatölvuna og spilaði yfir mig af Mario Bros. Ætli ég hafi ekki verið um 12 ára. Það var virkilega setið við þangað til manni var orðið óglatt og illt í höfðinu. Ég hef ekki getað spilað tölvuleiki síðan. Annars stundaði ég mest klifur í æsku bæði í trjám og á grindverkum milli garðanna í Vesturbænum. Einu sinni vorum við vinkona mín að klifra upp á húsþaki en allt í einu var annar fóturinn á mér kominn í gegnum þakið, þetta reyndist sem sagt vera gróðurhús og þegar eigandinn birtist skyndilega við brothljóðið var ég skíthrædd um að fá skömm í hattinn. Maðurinn var hins vegar ótrúlega vinsamlegur, gaf mér plástur og vínber, ekkert reiður heldur virtist hann þvert á móti alveg geta sett sig í spor þessara klifurþyrstu barna,“ segir Álfrún og María tekur við:  

„Ég tók líka út Nintendo-skammtinn minn þegar ég var 12 ára og fékk alveg nóg og lánaði frænda mínum tölvuna. Ég var alltaf eitthvað að bralla og var uppátækjasamt barn. Ég og vinkonur mínar héldum tombólu og seldum eitthvert gamalt dót sem við áttum. Það var líka mikið sport að tjalda í garðinum og fá að gista í tjaldinu. Á sumrin lék ég mér mikið úti í með vinkonum í alls konar leikjum eins og; snú snú, húlla og leikjum með brennibolta. Það var líka vinsælt að hjóla og vera á „old school“ hjólaskautum. Mér er mjög minnisstætt eitt sumarið þar sem ég og vinkona mín smíðuðum kassabíl með góðri hjálp frá föður hennar og tókum svo þátt í kassabílakeppni. Við rétt náðum í mark. Þetta var mikil spenna og gleði.“

Eru tímarnir breyttir?

„Mínar dætur fara líka út að klifra og stelast inn í garðana í hverfinu og ég hvet þær eindregið til þess. Einnig er heimili okkar eins og félagsmiðstöð þar sem krakkar streyma inn og út eins og það var þegar ég var að alast upp. Auðvitað hafa farsímarnir breytt miklu í sambandi við að það er svo auðvelt að detta í afþreyingu um leið og manni fer að leiðast og þá er hætt við að við slökkvum  (bæði börn og fullorðnir) á ímyndunaraflinu, hættum að láta okkur dreyma og dettum inn í doðann. En ef við erum meðvituð um kosti og galla snjalltækjanna þá er ekkert mál að setja sjálfum sér og öðrum mörk,“ segir Álfrún og María tekur við:

„Já tímarnir eru mjög breyttir frá því að við vorum að alast upp. Ég tek helst eftir því að krakkarnir vilja vera meira inni í tölvunni en að fara út að leika. Sonur minn er á fullu í fimleikum svo að við settum upp stórt trambolín fyrir hann í garðinum þar sem hann fer út og æfir sig í heljarstökkum og getur verið þar allan daginn að hoppa og skoppa með vinum sínum. Vegna þess að börnin okkar alast upp með snjalltækjum þá þarf að hafa yfirsýn og utanumhald og hvetja krakkana til að nota ímyndunaraflið og vera skapandi. Aðaláhugamálið hjá syni mínum og vinum hans þessa dagana er að taka upp trambolín video og klippa þau saman með tónlist. Það er mjög flott hjá þeim. Það þarf að vera gott jafnvægi í þessu öllu saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert