Lífið fékk nýjan tilgang

Sigrún María á dæturnar Björk og Veru með manni sínum …
Sigrún María á dæturnar Björk og Veru með manni sínum Pétri.

Þjálfarinn Sigrún María Hákonardóttir er 29 ára tveggja barna móðir og rekur fyrirtækið FitbySigrún þar sem hún leggur áherslu meðgöngu- og mömmuþjálfun. Sigrún María er sjálf í fæðingarorlofi núna en hún og eiginmaðurinn hennar, Pétur, eignuðust sitt annað barn fyrir fjórum mánuðum. 

„Ég er sérhæfður meðgöngu- og mömmuþjálfari, eða það sem kallast „Prenatal and Postnatal Exercise Specialist“ og bætti ég við mig þessari þekkingu eftir að ég átti barn þar sem ég sá hvað ég þurfti að hugsa þjálfun upp á nýtt á þessu tímabili,“ segir Sigrún María sem býður upp á fjarþjálfun meðan hún er í fæðingarorlofi. 

Meðgöngur Sigrúnar Maríu voru ólíkar og fæðingarnar einnig en hún náði að æfa eins og hún gat á meðan hún var ólétt og er núna að byggja líkamann markvisst upp eftir sína seinni fæðingu. 

Hvernig mamma vilt þú vera?

„Ég vil að mitt móðurhlutverk einkennist af ást, virðingu og öryggi. Ég vil að stelpurnar mínar viti hvað ég elska þær mikið með orðum og gjörðum. Ég vil mæta þeim þar sem þær eru með því að setja mig í þeirra spor og reyna að tækla aðstæður með yfirvegun. Ég vil vera stoð þeirra og stytta, að þær geti alltaf leitað til mín og vita að sama hvað munum við alltaf finna lausnir saman.“

Sigrún María leggur áherslu á meðgöngu- og mömmuþjálfun.
Sigrún María leggur áherslu á meðgöngu- og mömmuþjálfun.

Hvað legg­ur þú áherslu á í upp­eld­inu?

„Stelpurnar eru enn þá svo litlar en það sem ég hef lagt áherslu á og ætla að leggja áherslu á er þrautseigja og trú á eigin getu. Ég ætla að kenna stelpunum mínum að halda áfram þegar þær langar að gefast upp og að hafa trú á sjálfum sér. Það sem ég er að gera núna er að fylgjast með hverju þær hafa mestan áhuga á að æfa sig í og gef þeim eins mikið svigrúm og ég get til þess að æfa sig, síðan hvet ég þær áfram í því ef ég sé að þær langar að gefast upp. Með eldri er það til dæmis núna að róla og klifra, með yngri er það að velta sér.

Ég hef einnig lagt áherslu á og mun halda áfram að leggja áherslu á samkennd. Ég ætla að kenna þeim að setja sig í spor annarra. Með eldri reyni ég alltaf að setja mig í hennar spor og tækla aðstæður út frá því. Ég reyni líka að útskýra fyrir henni ef hún sér einhvern gráta að hún/hann sé leið/ur, stundum er maður leiður, sama á við um gleði, reiði, pirring. Ég reyni að láta hana átta sig á öllum þessum tilfinningum hjá sér og útskýri þær hjá öðrum.“  

Hvernig breytt­ist lífið eft­ir að þú varðst mamma?

„Það breyttist allt við það að verða móðir. Hjartað stækkaði óendanlega, lífssýnin breyttist, allt í einu varð ég ein mikilvægasta manneskjan í lífi einhvers. Hlutir sem áður voru sjálfsagðir urðu dýrmætir og hefur þetta hlutverk gefið mér algjörlega nýjan tilgang.“

Hvað kom þér á óvart varðandi móður­hlut­verkið?

„Hvað ég varð sjálf stærri heild. Ég hélt að við það að eignast barn yrði eins og það væri eitthvað auka sem bættist við en mér finnst ég, stelpurnar mínar og maðurinn minn vera ein heild. Mér finnst ég ekki hafa upplifað þetta sem neina byrði eins og ég hélt það yrði, eða svona eins og það að eiga barn væri eitthvað sem ég þyrfti að sinna og leggja mikinn tíma í. Það í raun gerðist sjálfkrafa og varð því hluti af mér en ekki eitthvað svona auka eins og ég hélt. Mér finnst ég hafa stækkað og auðvitað eru tímabil krefjandi en þetta er samt ekki nálægt því jafn erfitt og ég hafði gert mér í hugarlund.“

Sigrún María gat æft lengur þegar hún gekk með sitt …
Sigrún María gat æft lengur þegar hún gekk með sitt fyrsta barn.

Hvernig voru fyrstu mánuðirn­ir með ung­barn?

„Með fyrsta barn voru fyrstu mánuðirnir mjög erfiðir. Ég vissi ekkert við hverju ég átti að búast og hefði það engu skipt hversu mörg námskeið ég hefði setið eða hversu margar bækur ég hefði lesið það er ekkert sem undirbýr mann almennilega nema að upplifa þetta sjálfur. Fyrstu mánaðanna með eldri stelpuna naut ég mjög lítið, ég var mjög óörugg og brjóstagjöfin gekk illa. Næsta barn var himinn og haf á við fyrsta barn og þrátt fyrir að vera í töluvert meira krefjandi aðstæðum var allt miklu auðveldara með annað barn. Ég vissi nákvæmlega út í hvað ég var að fara og náði því að njóta þess mun betur. Ég vissi að ákveðin tímabil myndu ganga yfir, ég vissi að bakflæði, magakveisa og svefnleysi væru algengari en ekki. Síðan með seinna barn þekkti ég inn á innsæið og hefur allt gengið töluvert betur.“

Hvernig hreyfðir þú þig þegar þú varst ólétt?

„Með eldri stelpuna náði ég nánast að gera allar æfingar fram að settum degi, ég fann ekki fyrir neinum grindarverkjum nema kannski rétt undir lokin og náði að hreyfa mig eitthvað nánast daglega. Þá stundaði ég styrktar- og þolæfingar en gat lítið gengið sökum samdrátta og togverkja eða það sem kallast „round ligament pain“. Með seinna barn fann ég fyrir mjög miklum grindarverkjum upp úr 17. viku. Ég endaði á því að þurfa að hætta að vinna og átti erfitt með að ganga upprétt nokkra metra. Ég einblíndi þá á þær æfingar sem ég gat gert og þjálfaði grindarbotnsvöðva og djúpvöðva kviðar markvisst sem skilaði sér í að ég varð mun fljótari að ná mér eftir fæðinguna.“

Hvernig komstu þér í form eft­ir meðgöngu?

„Ég myndi segja að hugarfarið hafi leikið mjög stórt hlutverk í því eftir báðar meðgöngur. Ég geri mér engar útlitslegar væntingar, að minnsta kosti ekki fyrstu sex mánuðina þar sem ég veit að relaxin og prolactin-hormón geta verið að hafa áhrif á hormónastarfsemina. Ég reyni að hreyfa mig eitthvað á hverjum degi því ég finn að mér líður betur ef ég geri það. Í bæði skiptin hef ég verið að fylgja eigin æfingaplani þar sem ég vinn mikið með grindarbotnsvöðva, djúpvöðva kviðar, mjaðmasvæðið og líkamsstöðuna. Stundum tek ég heima- eða útiæfingu, stundum kemst ég í ræktina og stundum fer ég út að hlaupa. Ég byrjaði á grunnstyrktaræfingum og síðan þegar voru liðnar fimm til sex vikur eftir fæðingu fór ég í styrktar- og þolþjálfun. Níu til tíu vikum eftir fæðingu var ég orðin nógu góð í grindinni, grindarbotnsvöðvum og djúpvöðvum kviðar til þess að hlaupa.

Með mataræðið einblíni ég á það sem ég vil bæta inn því margt smátt gerir eitt stórt. Ég drekk yfirleitt vel af vatni jafnt og þétt yfir daginn, fæ mér vítamín og grænmeti og ávexti. Ég borða egg og við reynum sem oftast að vera með heimaeldaðan kvöldmat sem ég nýti síðan oft í afganga. Það er ekkert bannað en líkaminn sækir meira í hollustu því ég hef smám saman náð því inn í daginn.“

Fæðingar Sigrúnar Maríu voru mismunandi.
Fæðingar Sigrúnar Maríu voru mismunandi.

Hvernig var þín fæðingarsaga?

„Ég á tvær og eru þær mjög ólíkar. Með fyrra barn missti ég vatnið um klukkan ellefu um kvöldið og lak mikið vatn hjá mér. Fæðingarstofan var full þegar við mættum um miðnætti og vorum við því í svona fjölskylduherbergi. Verkirnir voru mjög vondir og var ég þá aðeins komin með tvo í útvíkkun, um sjö tímum síðar losnaði fæðingarstofa og var ég viss um að ég væri aðeins komin með um fjóra í útvíkkun og ætlaði að fá mænudeyfingu því mér leið eins og ég gæti ekki meira en þá kom í ljós að ég var komin með átta sem gaf mér kraft til þess að klára. Eftir að ég komst á fæðingarstofu fannst mér fæðingin nánast auðveld þar sem ég komst í bað og gat fengið glaðloft sem breytti mjög miklu fyrir mig og verkina sem ég var að upplifa. Kraftaverkið okkar kom í heiminn um tveimur tímum síðar og var fæðingin frá fyrsta verk um tíu tímar.

Með seinna barn fann ég fyrir öðruvísi verkjum en vanalega klukkan hálfsex um morguninn. Það var þvílíkur munur að fara inn í fæðingu úthvíld og vitandi út í hvað ég var að fara. Ég var róleg heima fram að um klukkan tíu til ellefu en þá var farið að vera mjög stutt á milli verkja og hríðarnar orðnar harðari. Þegar ég kom upp á deild var ég komin með fjóra í útvíkkun. Fljótlega eftir skoðun fengum við herbergi þar sem ég fór í bað til þess að lina verkina. Ég hélt ég væri með rúmlega sex í útvíkkun þar sem verkirnir voru ekki eins slæmir og með fyrra barn þegar ég fann að hún var allt í einu að koma og kom hún um tíu mínútum síðar. Fæðingin var um átta tímar frá fyrsta verk.

Ótrúlega ólíkar fæðingar sem gengu báðar vel og á ég henni Auði í Jógasetrinu mikið að þakka fyrir að undirbúa mig andlega fyrir þær báðar.“

Hægt er að fylgjast með Sigrúnu á heimasíðu hennar FitbySigrún sem og á Facebook og Instagram

View this post on Instagram

Fyrsti í kassahoppum eftir fæðingu var hjá mér um daginn. Kassahopp eru next level hopp fyrir grindarbotninn. Það verður meira högg á líkamann við kassahopp sem reynir þá meira á grindarbotnsvöðva. Kassahopp eru líklegast tímabær þegar þú getur gert hopp (td hnébeygjuhopp) og hlaupið án óþæginda eða þvagleka. Með haustinu gef ég út framhaldsplön í mömmufjarþjálfun sem tekur meðal annars fyrir þjálfun á grindarbotnsvöðvum fyrir hopp. - Svona er ég að þjálfa mig í kassahoppun eftir fæðingu: ✅Ég beiti að sjálfsögðu öndunartækninni góðu sem ég notast við í þjálfun á meðgöngu og eftir fæðingu til að vinna markvisst að því að virkja og slaka á grindarbotnsvöðvum og djúpvöðvum kviðs. ✅Byrja á nokkrum uppstigum á hvorum fæti til að kveikja á vöðvunum og venjast hreyfingunni. ✅Næ góðri virkni á grindarbotnsvöðvum og hoppa upp á bekkinn. Stíg niður og slaka á. ✅Ég næ að gera þrjú hopp í einu án óþæginda og ég ögra líkamanum ekki meira en það. Geri síðan nokkur sett. Síðan byggi ég smá saman upp styrk til þess að geta gert fleiri. - Æfing: Kassahopp eftir fæðingu 1-5 sett: 1️⃣3-5 uppstig á hægri (beita öndunartækni til að virkja/slaka á grindarbotnsvöðvum og djúpvöðvum kviðs) 2️⃣3-5 uppstig á vinstri (beita öndunartækni til að virkja/slaka á grindarbotnsvöðvum og djúpvöðvum kviðs) 3️⃣1-5 kassahopp (beita öndunartækni til að virkja/slaka á grindarbotnsvöðvum og djúpvöðvum kviðs - ná allt að fimm hoppum, eiga ekki að vera nein óþægindi í grindarbotni) Hvíla amk 60 sek

A post shared by FitbySigrún (@fitbysigrun) on Jul 29, 2019 at 1:12pm PDT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert