Fyrstu mánuðirnir þokukenndir vegna svefnleysis

Eyrún Birna með dóttur sína Hörpu Karen.
Eyrún Birna með dóttur sína Hörpu Karen. Ljósmynd/Aðsend

Brúðarkjólahönnuðurinn Eyrún Birna á börnin Hauk Stein Pétursson og Hörpu Karen Arnórsdóttir sem eru tólf og þriggja ára. Það er mikið að gera hjá Eyrúnu Birnu en auk þess að reka fjögurra manna heimili með börn á mismunandi skólastigum með eiginmanni sínum Arnóri Halldórssyni rekur hún sitt eigið fyrirtæki, Brúðarkjólar  Eyrún Birna. 

Hvernig mamma vilt þú vera?

„Umhyggjusöm, þolinmóð og skilningsrík og kannski pínu skemmtileg,“ segir Eyrún Birna. 

Hvernig breyttist lífið eftir að þú varðst mamma?

„Lífið öðlaðist nýja merkingu, það hætti að snúast um mig og allt í einu skipti þessi litla mannvera mig öllu máli.“

Líf Eyrúnar Birnu breyttist eftir að hún varð móðir.
Líf Eyrúnar Birnu breyttist eftir að hún varð móðir. ljósmynd/ Ruth Ásgeirsdóttir


Hvað kom þér á óvart varðandi móðurhlutverkið?

„Ótal margt enda er svo margt við þetta hlutverk sem maður getur ekki búið sig undir.“

Hvernig gengur að vera í samsettri fjölskyldu?

„Það gengur alveg ótrúlega vel, við erum öll svo miklir vinir og samskiptin öll af virðingu og vinsemd. Það er algjört lykilatriði til þess að svona fjölskyldumynstur gangi upp.“

Fjölskyldan saman.
Fjölskyldan saman. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig voru fyrstu mánuðirnir með ungbarn?

„Þokukenndir vegna svefnleysis en hjartað að springa úr einhverri óútskýranlegri ást. Umheimurinn og það sem er að gerast utan veggja heimilisins skiptir allt í einu engu máli.“

Hvernig gengu meðgöngurnar?

„Þær gengu báðar mjög vel og mér leið vel að öllu leyti, svona eftir að ógleðitímabilinu lauk.“

Var eitthvað við fyrri meðgöngu og fæðingu sem þú nýttir þér þegar kom að yngra barninu?

„Já, alveg hellingur. Það er einhvern veginn auðveldara að gera þetta í annað sinn. Maður veit meira út í hvað maður er að fara og þekkir ferlið.“

Börnin Harpa Karen og Haukur Steinn.
Börnin Harpa Karen og Haukur Steinn. ljósmynd/Ruth Ásgeirsdóttir


Varst þú í mömmuklúbbi?

„Ég var í svona facebookgrúppu eins og margir.“

Hvernig hreyfðir þú þig þegar þú varst ólétt?

„Ég gerði ýmislegt, fór til dæmis í meðgönguleikfimi og jóga. Mér fannst mikilvægt að halda áfram að hreyfa mig, þannig líður mer best.“

Hvernig komstu þér í form eftir meðgöngu?

„Ég var svo heppin að hafa aðgang að æðislegum sal hjá G-fit í Garðabænum, þar sem ég hef æft í mörg ár og stundum leyst af. Mig langaði til þess að geta hreyft mig með stelpuna mína með mér svo ég bauð nokkrum úr Facebook-bumbuhópnum að æfa með mér í þeim sal tvisvar í viku. Þá hittumst við saman með börnin, gerðum æfingar og spjölluðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert