„Menntakerfið að mörgu leyti galið“

Sölvi Tryggvason hefur áhugaverðar skoðanir þegar kemur að börnum.
Sölvi Tryggvason hefur áhugaverðar skoðanir þegar kemur að börnum.

Sölvi Tryggvason, fjölmiðlamaður og rithöfundur, er að leggja lokahönd á bók sem kemur út fyrir jólin, auk þess sem hann er að halda fyrirlestra og námskeið tengd bókinni sinni: „Á eigin skinni“. Að hans mati eyðum við gífurlegu púðri í það sem er að gerast fyrir ofan háls en gleymum hinu. Samskiptum, heilsu og að tala fyrir framan fólk.

Hann hefur ýmislegt áhugavert að segja um börn og uppeldi. Meðal annars telur hann mikilvægt að ýta undir styrkleika allra í menntakerfinu. Við ættum einnig að forðast að letja afburðaeinstaklinga svo þeir passi inn í kerfið að hans mati. „Við erum lífverur og það að festa lítil börn í stólum við borð 6-8 klukkutíma á dag er í mínum huga bara stjarnfræðilega ruglað á allan hátt.“


Hvernig er að eldast og þroskast?
„Það hefur bara verið alveg dásamlegt hingað til. Ég hef alltaf verið „late-bloomer“ og er eiginlega alveg handviss um að mín bestu ár eru öll eftir.“

Hvernig barn varstu sjálfur?
„Ég var klár, fljótur að læra, en mjög ör og orkumikill og varð gífurlega fljótt leiður á því sem mér fannst ekki skemmtilegt.“

Hvað þýðir fyrir þig að taka ábyrgð á eigin heilsu?
„Að átta sig á því að nánast í öllum tilvikum þegar eitthvað amar að verður maður sjálfur að gera ákveðna hluti, en ekki treysta á að kerfið lagi mann. Jafnvel erfiðustu kvillar, sem augljóslega eiga heima í höndum sérfræðinga, eru samt þannig að yfirleitt ber maður sjálfur ábyrgð á stórum hluta batans. Það sér enginn um að vera heilbrigður fyrir mann og því miður er það bara heilmikil vinna að taka ábyrgð á sjálfum sér.“

Er samfélagið að gera eitthvað „rangt“ að þínu mati í greiningu og flokkun á íslenskum ungmennum?
„Já og nei. Það er ekki hægt að ætlast til þess að kerfi séu fullkomin og stundum gerir fólk of mikið ráð fyrir því að samfélög og kerfi geti bjargað öllu. Hins vegar er ekki þar með sagt að það megi ekki laga heilmargt. Fyrst og fremst finnst mér ekki nóg gert í því að leyfa einstaklingum að vera mismunandi. Menntakerfið er gífurlega takmarkað og einsleitt og fjölmargir afburðaeinstaklingar „funkera“ ekkert sérstaklega vel innan þess. Það þarf að finna leiðir til að ýta undir styrkleika hvers og eins og leyfa börnum og unglingum að vera ólík.“

Hvað finnst þér um það sem forsvarsmenn 4. iðnbyltingarinnar eru að biðja um fyrir börnin okkar? Meira skapandi umhverfi og einstaklingsmiðað nám?

„Án þess að vilja vera of neikvæður finnst mér menntakerfið að mörgu leyti algjörlega galið, eins og reyndar margt í nútímasamfélögum. Við erum lífverur og það að festa lítil börn í stólum við borð 6-8 klukkutíma á dag er í mínum huga bara stjarnfræðilega ruglað á allan hátt. Við eyðum gífurlegu púðri í það sem er að gerast fyrir ofan háls, en gleymum hinu. Ég var í skóla í 18 ár án þess að læra um margt það mikilvægasta í lífinu: Samskipti, heilsu,
að tala fyrir framan fólk og svo framvegis og svo framvegis.“

Hvernig sérðu fyrir þér áhugaverða tilveru fyrir börnin okkar að alast upp í?

„Tilveran sem við búum í núna er mjög áhugaverð, það þarf bara að beina athyglinni á rétta staði.“

Hvað ættu öll börn að fá að gera?

„Öll börn ættu að fá að hreyfa sig mikið og oft, fá að vera þau sjálf án þess að vera stöðugt stoppuð af og öll börn ættu að fá að vera börn sem allra lengst.“

Hvað ættum við að hætta að gera gagnvart börnunum okkar?

„Gefa okkur að við séum alltaf að ala þau upp og vitum allt betur. Fullorðnir hafa flestir misst margt sem börn geta kennt þeim að rækta upp á nýtt.“

Hvernig verður maður að þínu mati gott foreldri?

„Fyrst og síðast með því að gera sjálf það sem við predikum fyrir börnunum. Börn eru klár og það er furðulegt að eiga að hlýða einhverjum reglum sem þeir sem setja reglurnar fara ekki eftir sjálfir.“

Hver er tilgangur þinn í þessari veröld?

„Þegar ég horfi til baka (og áfram reyndar líka) sýnist mér að tilgangur minn sé að miðla og reyna að hafa góð áhrif á sem flesta.“

Sölvi Tryggvason er heilbrigðið uppmálað enda er hann mikið út …
Sölvi Tryggvason er heilbrigðið uppmálað enda er hann mikið út í náttúrunni og síðan passar hann upp á svefninn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert