„Fjölskyldan það mikilvægasta“

Védís er á því að tónlistarlegt uppeldi geti verið gífurlega …
Védís er á því að tónlistarlegt uppeldi geti verið gífurlega gefandi ef því er almennilega sinnt.

Tónlistarkonan Védís Vantída Guðmundsdóttir á von á barni. Hún er eiginkona, móðir og lífskúnstner. Starfar sem verkefnastjóri á menningar- og ferðamálasviði og einnig sem tónlistarkennari hjá Tónskóla Eddu Borg. Hún segir mikilvægt að allir séu heiðarlegir með tilfinningar sínar og að allt sé uppi á borðum í fjölskyldunni. 

Védís er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Hún er dóttir Guðmundar, organista og skólastjóra Tónlistarskóla Vestmanneyja, og Ubonwan Paruksa, matráðskonu á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja.

„Ég á eina systur, hana Rósu sem býr með konu sinni í Los Angeles, og Ágúst bróður sem býr með fjölskyldu sinni á Akureyri. Svo er hann Vopni Hauksson maðurinn minn og eigum við tvær dætur, þær Heklu Sif og Elíönu Ísis.“

Góð fjölskylda er með samræmd gildi

Hvað er góð fjölskylda að þínu mati?

„Góð fjölskylda er ýmislegt. Ég mundi byrja á því að segja að góð fjölskylda væri með falleg og samræmd gildi. Að allir væru heiðarlegir með sínar tilfinningar og að allt væri uppi á borðum. Ósagðir hlutir eða ótjáðar tilfinningar leiða alltaf til einhvers konar árekstra á endanum og því er það svo gott að temja sér það að tala um hlutina strax. Það hefur einnig reynst minni fjölskyldu ótrúlega vel að lifa með kærleikann í fyrirrúmi þar sem við erum mjög dugleg að hrósa hvert öðru og tala um hversu mikið hver og einn skiptir mann máli. Við styðjum hvert annað ávallt þegar þörf er á. Því þegar öllu er á botninn hvolft er fjölskyldan það lang-mikilvægasta sem maður á í þessu lífi.“

Védís og Vopni með dætrum sínum þeim Heklu Sif og …
Védís og Vopni með dætrum sínum þeim Heklu Sif og Elíönu Ísis.

Hvernig er að eiga von á barni?

„Það verður bara dásamlegt. Ég á nú þegar tvær yndislegar dætur. Fósturdóttir mín Hekla er 22 ára og Elíana mín er að verða 12 ára. Við vorum búin að reyna á þriðja ár og fórum í tvær glasafrjóvganir, þannig að fá eitt í viðbót, einn lítinn strák, er algjör himnasending.“

Meira andlega tilbúin að eignast barn

Hefur eitthvað breyst á þessari meðgöngu?

„Já, það er ýmislegt sem er öðruvísi. Ég var töluvert yngri og því ekki alveg búin að átta mig á því sem ég er búin að átta mig á í dag. Þungunin kom mér á óvart á sínum tíma og þurfti ég að fullorðnast á meiri hraða en ég var tilbúin til. Núna var þetta allt planað og því er maður meira líkamlega og andlega tilbúinn. Allt er mun auðveldara og það er meiri ró yfir hlutunum, þegar maður veit hvað maður raunverulega vill fá út úr lífinu.“

Hvernig gengur meðgangan?

„Það gengur mjög vel akkúrat núna. Maður hefur verið að glíma við öll „skemmtilegu“ einkennin eins og blæðandi góma, hægðatregðu og að kasta upp reglulega, en sem betur fer er það búið eða minnkað verulega. Annars eru allir bara svo yndislegir í kringum mann að það er ekki annað hægt en að vera bara í gleðinni!“

Védís er á því að tónlist skipti miklu máli þegar kemur að uppeldi barna.

„Mér finnst það. Kannski vegna þess að ég og systir mín ólumst upp í miklu tónlistarlegu uppeldi og það gerði okkur svo gott. En ég er einnig á því að tónlistarlegt uppeldi getur verið gífurlega gefandi ef því er almennilega sinnt. Krakkar læra ákveðinn aga og þolinmæði þegar þau æfa á hljóðfæri, eiginleika sem margir krakkar eiga erfitt með í dag. Svo er líka bara svo innilega gaman að spila og syngja skemmtilega tónlist!“

Sá sem kemur inn með nánd og kærleika

Þegar kemur að því að setja saman fjölskyldu segir Védís að fjölskyldumeðlimur geti verið hver sem er sem kemur inn í einhverja einingu með nánd og kærleika í hjarta.

„Fyrir mér hefur það aldrei snúist um að vera endilega blóðskyldur einhverjum til þess að geta kallað þann aðila fjölskyldumeðlim. Mamma mín er taílensk og í hennar menningu kallar maður alla þá sem manni eru nánir frænda, frænku, afa eða ömmu, fer bara eftir aldri. Mér finnst það mjög fallegt. Fyrir mér eru t.d. pabbi Elíönu, eiginkona hans og börn hluti af minni fjölskyldu.“

Hvað ætlarðu að vera lengi heima?

„Ég er nú bara ekki búin að ákveða það. Finnst eiginlega mun betra að takast á við hlutina þegar það er komið að þeim og meta stöðuna í núinu.“

Hvað er gott við að ala upp börn á Íslandi?

„Það er margt alveg dásamlegt við að ala upp börn á Íslandi. Til að byrja með er gífurlegt öryggi hér miðað við mörg önnur lönd úti í heimi. Ég hef búið í öðrum löndum og oft hugsað þá hvernig ætli sé að ala þar upp börn og þá miðað við hvernig það er hér. Hér er maður í nálægð við fjölskyldu, ættingja og nána vini. Þó svo að búsetan er ekki í sama sveitarfélagi er tiltölulega auðvelt að komast á milli staða. Svo er yfir höfuð mikil samheldni í íslensku samfélagi, ásamt því að það er hægt að búa hér og þroskast við mun minni fordóma en gengur og gerist annars staðar.“

Mikilvægt að hafa skilning fyrir börnum

Védís ber mikla virðingu fyrir börnum og þörfum þeirra. „Mér finnst skilningsleysi gagnvart þörfum barna ekki ganga, og mikil boð og bönn án útskýringa. Er alltaf á því að maður verði að skilja hvaðan börn eru að koma til að geta tekist á við vandamál og vankanta af bestu getu. Ég er líka ekki mikill aðdáandi ábyrgðar- og aðgerðarleysis foreldra þegar kemur að því að ala upp börn. Börn þurfa mikla ást og mikið aðhald til að hjálpa þeim að mótast eins vel og þeim er kleift að mótast í þessum heimi. Maður getur aldrei sagt nógu oft hversu mikið þau eru elskuð eða hvað maður er stoltur af þeim. Jafnvægið felst svo í því að geta líka gefið þeim nauðsynlegar línur og mörk þegar við á.“

Hvernig gekk fæðingin síðast?

„Hún gekk nú ekkert allt of vel. Var send með sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum og það tók mig hátt í þrjá daga að fæða hana elsku Elíönu mína. Það tók mig nokkur ár að geta jafnvel hugleitt það að fara aftur í gegnum þetta ferli. En þegar maður er með aðila sem maður sér sjálfan sig vera með til frambúðar þá er tilhugsunin um að skapa saman einstakling svo yndisleg og rétt. Þannig að nú er ég ekki í þeim ótta sem ég var í gagnvart þessu og veit að ég er með eins góðan stuðning í manninum mínum og hugsast getur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert