„Enginn sagði mér að þetta yrði svona mikil vinna“

Eva Mendes á fullt í fangi með dætur sínar.
Eva Mendes á fullt í fangi með dætur sínar. mbl.is/Alexander Tamargo

Leikkonan Eva Mendes sagði í viðtali við tónlistarkonuna Kelly Clarkson að það hafi komið henni á óvart hvað það væri mikil vinna að eiga börn, það hafi enginn sagt henni það fyrir fram. 

Mendes og Clarkson ræddu saman um móðurhlutverkið í The Kelly Clarkson Show. Mendes sagði að það erfiðasta við móðurhlutverkið væri að vera alltaf tilbúin með snarl. 

„Erfiðasti hlutinn er án alls gríns magnið af snarli sem ég þarf að hafa með mér yfir daginn, og fjölbreytnin. Þær vilja eitthvað öðruvísi, og maður þarf að hafa það ferskt, sérstaklega í löngum bílferðum. Þær eru verstar. Jafnvel þegar maður fer á markaðinn, ég þarf að taka mat með í bílinn til að komast þangað,“ sagði Mendes.

Mendes á tvær dætur, 3 ára og 5 ára, með eiginmanni sínum Ryan Gosling.

„Enginn sagði mér að þetta yrði svona mikil vinna, vinna sem ég þyrfti að hafa fjölbreytta hæfileika til að sinna. Ég er einkabílstjóri og einkaþjónn ofbeldisfulls yfirmanns. Þær eru ekki þakklátar. Í hvaða starfi sem er þyrftir þú að ná prófi til að mega vinna, en eina prófið sem ég þurfti að taka var óléttupróf. Það er ekki sanngjarnt,“ sagði Mendes.

mbl.is