Passar upp á mataræði mömmu á meðgöngunni

Vökul augu dóttur Dewan fygljast með mataræði hennar.
Vökul augu dóttur Dewan fygljast með mataræði hennar. AFP

Leikkonan Jenna Dewan sagði frá því í viðtali við Michael Strahan að dóttir hennar Everly fylgist vel með því hvað mamma hennar lætur ofan í sig þessa dagana. 

Dewan gengur með sitt annað barn og fyrsta systkini Everly. Sú stutta er heldur betur spennt að verða stóra systir og fylgist náið með því að mamma sín borði bara það sem er gott fyrir barnið. 

„Hún er of spennt. Ég fer að borða eitthvað og hún spyr „Mamma er þetta gott fyrir barnið?“ Hún passar upp á mig. Og ég verð að vera heiðarleg. Ég fékk mér nammi um daginn og þurfti að svara spurningunni neitandi. Hún sagði „hmm þú ættir að skila þessu“ og ég hugsaði bara „Guð minn góður“,“ sagði Dewan og bætti við að Everly hafi beðið alla sína sex ára löngu ævi eftir því að verða stóra systir.

Barninu á hún von með kærasta sínum Steve Kazee og er þetta þeirra fyrsta barn saman. Everly átti Dewan með fyrrverandi eiginmanni sínum, leikaranum Channing Tatum. 

mbl.is