„Þú ert versta mamma í heimi“

Hilaria Baldwin lét sig ekki vanta þótt börnin hennar mótmæltu …
Hilaria Baldwin lét sig ekki vanta þótt börnin hennar mótmæltu harðlega. AFP

Hilaria Baldwin skellti skollaeyrum við börnum sínum í síðustu viku þegar hún fór á galakvöld með eiginmanni sínum. Börnin vildu alls ekki að mamma þeirra færi út án þess að vera búin að koma þeim í háttinn.

Baldwin-hjónin mættu á galakvöld American Museum of Natural History á safninu í New York á fimmtudagskvöldið síðastliðið. Þetta var í fyrsta skipti sem Hilaria hafði farið út í nokkurn tíma en hún missti fóstur eftir 4 mánaða meðgöngu fyrr í mánuðinum. 

„Börnin mín sögðu „Hvað er að þér? Af hverju ertu að fara? Þú ert versta mamma í heimi,“ en ég sagði þeim bara að ég hafi verið með þeim allan daginn og ég væri yfirleitt alltaf með þeim,“ sagði Hilaria í viðtali við hlaðvarpið Mom Brain. 

Hilaria og Alec eiga fjögur börn saman, þau Carmen 6 ára, Rafael 4 ára, Leonardo 3 ára og Romeo eins og hálfs árs. 

„Þannig að ég sagði bara „Ég elska ykkur, ég verð komin heim bráðum,“ og labbaði í burtu. Það verður í lagi með þau,“ sagði Hilaria í viðtalinu. Síðan fékk hún skilaboð frá barnapíunni sem sagði henni að þau væru hætt að gráta og væru algjörlega búin að jafna sig. 

Baldwin-hjónin eiga fjögur börn saman.
Baldwin-hjónin eiga fjögur börn saman. AFP
mbl.is