Forréttindi að eignast tvíbura

Kristrún Ósk og Arn­ar Skúli rúmlega eins árs gamla tvíbura.
Kristrún Ósk og Arn­ar Skúli rúmlega eins árs gamla tvíbura. Ljósmynd/Aðsend

Kristrún Ósk Sigurðardóttir og eiginmaður hennar, Arnar Skúli Atlason, eignuðust tvíeggja tvíburana Arnar Smára og Atla Skúla í nóvember árið 2018. Kristrún þekkir tvíburalífið vel enda er hún sjálf eineggja tvíburi. Kristrún á aftur von á sér en í þetta skiptið er bara von á einu barni. 

„Það var samblanda af gleði, sjokki og hræðslu. „Við komumst að því þegar ég hélt að ég væri að missa fóstur vegna blæðinga,“ segir Kristrún þegar hún er spurð hvernig henni og eiginmanni hennar hafi liðið þegar þau fengu þær fréttir að þau ættu von á tvíburum. 

Kristrún segir skemmtilegt að vera tvíburi og það hafi nú þegar komið að miklu gagni í uppeldinu. Segist hún skilja foreldra sína betur nú þegar hún er tvíburamóðir sjálf auk þess sem þau hjónin leiti mikið í reynslubanka foreldra hennar. 

Kristrún Ósk og Arn­ar Skúli fóru heim með tvo drengi …
Kristrún Ósk og Arn­ar Skúli fóru heim með tvo drengi af fæðingardeildinni. Ljósmynd/Aðsend

Þetta eru ykkar fyrstu börn, heldur þú að það sé flóknara að eignast tvíbura en bara eitt barn?

„Ég held að það sé erfiðara en það eru líka mikil forréttindi að fá að vera tvíburaforeldri. Við erum líka með frábært stuðningsnet í kringum okkur.“

Kristrún og Arnar eiga aftur von á barni en nú bara einu, einni stelpu. Kristrún segir að hún hafi verið stressuð yfir því að ganga aftur með tvíbura. „Ég bað læknirinn minn að athuga, nokkrum sinnum.“

Tvíburarnir Arnar Smári og Atli Skúli eru fæddir í nóvember …
Tvíburarnir Arnar Smári og Atli Skúli eru fæddir í nóvember 2018. Ljósmynd/Aðsend

Hafa meðgöngurnar verið ólíkar?

„Já, á vissan hátt. Ég var dauðhrædd allan tímann með strákana en er slakari núna. Ég var í miklu eftirliti með tvíburana og mér finnst erfitt að vera í „venjulegri“ meðgöngu með minna eftirliti.“ 

Ertu að búa þig öðruvísi undir fæðinguna núna en þegar drengirnir komu í heiminn?

„Nei, í rauninni ekki. Ég ákvað strax með strákana að ákveða ekki neitt! Gera bara það sem mér var sagt að gera, keisari eða fæðing skipti mig ekki máli. Þeir komu með dásamlegum bráðakeisara á 35. viku.“ 

Kristrún Ósk segir tvíbura vera tvo gjörólíka einstaklinga.
Kristrún Ósk segir tvíbura vera tvo gjörólíka einstaklinga. Ljósmynd/Aðsend

Er eitthvað sem þið hafið lært síðan drengirnir komu í heiminn sem þið mælið með fyrir verðandi tvíburaforeldra?

„Já! Þetta eru tveir gjörólíkir einstaklingar og það sama virkar ekki á báða. Þeir þurfa líka tíma einir með okkur foreldrunum,“ segir Kristrún að lokum. 

Arnar Smári og Atli Skúli eru að verða stóru bræður.
Arnar Smári og Atli Skúli eru að verða stóru bræður. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is