Brá þegar keisari var nefndur

Guðrún Birna Gísladóttir Móðurhlutverk
Guðrún Birna Gísladóttir Móðurhlutverk ljósmynd/aðsend

Guðrún Birna Gísladóttir á von á sínu öðru barni með eiginmanni sínum í byrjun júlí. Meðgöngurnar hafa verið eins og svart og hvítt hingað til. Hennar önnur meðganga hefur verið dramatísk í byrjun og vonar hún að seinni helmingurinn verði betri. Guðrún Birna íhugar nú að fara í skipulagðan keisara eftir að hennar fyrsta fæðing endaði inni á skurðstofu. 

„Ætli það hafi ekki bara breytt mér til hins betra. Ég var ekki mjög þolinmóð fyrir en það er eitthvað sem þarf að vera þegar maður á barn og lærði ég það smám saman. Einnig sá ég lífið í öðru ljósi, hljómar klisjulega, en maður fer að njóta litlu augnablikanna betur og tekur eftir ýmsu sem maður sá ekki áður,“ segir Guðrún Birna spurð að því hvernig móðurhlutverkið breytti henni. 

Hvað hefðir þú vilja vita áður en þú varðst móðir?

„Að það þarf ekki að kaupa allt áður en barnið fæðist. Sem betur fer stoppaði maðurinn mig af stundum, mér fannst ég þurfa kaupa allt og vera súper viðbúin öllu. En það er ekkert mál að senda manninn eða einhvern annan út í búð ef eitthvað vantar. Sem dæmi hjá okkur þá keypti ég ekki brjóstapumpu, ég ætlaði að kaupa einhverja rándýra en hætti við. Á þriðju viku leigðum við svo þannig í nokkra daga — þurfti hana ekki meira en það. Þetta reddast alltaf.

Annað sem ég hefði viljað vera meðvituð um var heimsóknirnar. Það voru svo margir sem komu í heimsókn þegar litla var nýfædd og var ég alltaf buguð eftir þær, var ég þó nógu þreytt fyrir. Það er allt í lagi að segja við fólk að þetta sé ekki besti tíminn núna fyrir heimsókn ef svo liggur fyrir og segja að maður hringi þegar betri tími hentar.“

Kom eitthvað á óvart við móðurhlutverkið?

„Nei, í rauninni ekki.“

Finn­ur þú fyr­ir pressu frá sam­fé­lags­miðlum að gera hlut­ina á ákveðinn hátt?

„Nei, ég hef alveg sloppið við það, ég fylgi bara fólki sem mér finnst hafa góð áhrif á mig og er hvetjandi á einhvern hátt.“

Hefur þú nýtt þér bumbuhópa eða mömmuklúbba?

„Já, bæði skiptin hef ég verið í bumbu facebookhópum. Þegar ég varð ólétt að fyrsta barninu mínu fannst mér það voða gott, að geta leitað ráða og rætt málin með öðrum verðandi mömmum og konum sem áttu barn eða börn fyrir. Núna sótti ég frekar í bumbuhóp til að kynnast öðrum konum, gaman að geta hist núna óléttar og svo síðar með börnin okkar.“ 

Fjölskyldan stækkar í sumar.
Fjölskyldan stækkar í sumar. ljósmynd/aðsend

Hefur þú þurft að skipuleggja þig og forgangsraða öðruvísi eftir að þú varðst móðir?

„Já, klárlega, en ekkert sem maður ræður ekki við, maður þurfti bara að skipuleggja sig upp á nýtt. Ég hélt áfram með námið mitt þegar stelpan mín fór á leikskóla þannig að ég lærði þegar hún var í skólanum. Svo þarf maður að plana hlutina kannski með lengri fyrirvara, allavega fyrst. Við erum mjög heppin með baklandið okkar og hefur það klárlega hjálpað okkur mikið.“

Finnur þú mun á meðgöngunum?

„Þær eru svart og hvítt. Þessi meðganga byrjaði á því að ég var greind með meðgöngusykursýki. Sem kom mikið á óvart því ég tikka ekki í neitt box fyrir einkenni hennar. En ástæðan fyrir því að ljósmóðir mín sendi mig í blóðprufu er útaf því að þegar ég var uppi á spítala síðast að eiga þá sagði ég starfsfólkinu að ég hafði verið svo brjálæðislega þyrst alla meðgönguna og svo sáu þær í skýrslunni að ég hafði farið í vaxtasónar nokkrum vikum áður því bumban á mér var smá stór og var búist við því að barnið yrði stórt. Þetta tvennt er einkenni meðgöngusykursýki og skráðu þær í skýrsluna mína að það þyrfti að athuga það næst þegar ég yrði ólétt. Stelpan mín fæddist 17 merkur sem er ekki lítið en samt flokkast það ekki sem þungburi. Ég fer í blóðprufu núna fyrir jól og er greind með meðgöngusykursýki á 10. viku. Þetta er svo sem ekkert stórmál en það þarf að passa upp á mataræðið og heilsuna og mæla sig. Ekki nóg með það en þá fór að blæða hjá mér rétt fyrir jól og fylgdi því ákveðið stress og átti eftir að blæða tvisvar sinnum eftir það.

Guðrún var greind með meðgöngusykursýki fyrir jól.
Guðrún var greind með meðgöngusykursýki fyrir jól. ljósmynd/aðsend

Ég fór upp á spítala eftir að það blæddi í þriðja skiptið og sagði læknirinn mér að það væri að blæða úr fylgjukantinum. Það var búið að vera brjálað mikið að gera hjá mér og vinnan að byrja að fullu eftir jólafrí þannig að læknirinn skrifaði upp á 10 daga vottorð fyrir mig og sagði mér að liggja fyrir. Það hefur ekki blætt aftur en ég þarf að fara varlega. Ég þarf að passa alla líkamlega vinnu og helst slaka á þegar ég get því það getur blætt aftur. Þessi fyrri helmingur meðgöngunnar er búinn að vera frekar dramatískur og erfiður en ég vona að seinni helmingurinn verði betri.“

Guðrún Birna Gísladóttir Móðurhlutverk
Guðrún Birna Gísladóttir Móðurhlutverk ljósmynd/aðsend

Hvernig var fæðingin?

„Fæðingin fór ekki eins og ég hélt hún myndi. Þetta gekk allt voða hægt fyrir sig, útvíkkunin gekk hægt, hríðirnar voru óreglulegar og missterkar. Á miðvikudagsmorgninum var ég komin með 2-3 í útvíkkun. Á fimmtudagsmorgni, 24 tímum síðar, var ég með 5-6 í útvíkkun og var staðan sú sama 12 tímum eftir það eða klukkan 20 um kvöldið. Ég var búin að vera með 5 í útvíkkun í 12 tíma, búið að sprengja belginn tvisvar, búin að fá dripp til að reyna auka hríðarnar en ekkert gekk þannig að klukkan 20 þetta fimmtudagskvöld sagði ljósmóðirin við okkur að það þyrfti að sækja barnið, að þetta væri ekki að ganga. Mér brá nú heldur betur við þær fréttir, það var ekkert búið að nefna við okkur að það gæti stefnt í keisara ef þetta færi ekki að ganga betur. En manninum mínum var bara réttur sloppur og mér rúllað inn á skurðstofu og stelpan okkar kom í heiminn klukkan 20.18.“

Guðrún Birna á von á sínu öðru barni.
Guðrún Birna á von á sínu öðru barni. ljósmynd/aðsend

Ertu að gera eitthvað öðruvísi til að undirbúa þig fyrir fæðinguna en þú gerðir í fyrsta skiptið?

„Útaf því hvernig fyrri fæðing fór þá hitti ég fæðingarlækni í kringum 30. viku og þá munum við ræða fæðinguna, hvort ég fari í planaðan keisara eða ekki. Eins og staðan er núna langar mig í keisara, mér líður betur með það miðað við hvernig síðasta fæðing fór. En það er auðvitað ekkert ákveðið, getur vel verið að ég skipti um skoðun þegar líður á og ég búin að tala við lækninn.“

Besta ráð sem þú átt handa nýbökuðum eða verðandi mæðrum?

„Þú ert mamman, þú ræður. Maður fær alls konar ráð úr öllum áttum en mundu að þú veist hvað er best fyrir þig og þitt barn.“

mbl.is