Svona ræddi Simpson um fíknina við börnin sín

Jessica Simpson var búin að undirbúa börnin sín fyrir útgáfu …
Jessica Simpson var búin að undirbúa börnin sín fyrir útgáfu sjálfsævisögu sinnar. AFP

Söngkonan Jessica Simpson hefur rætt opinskátt við elstu börnin sín tvö um fíkn sína. Sjálfsævisaga Simpson, Open Book, kom út nú á dögunum og hefur hún verið mikið í fjölmiðlum síðan. 

„Þetta er samtal sem ég hef átt nú þegar við þau. Því ég vissi að krakkarnir í skólanum myndu tala um þetta,“ sagði Simpson í viðtali við Buzzfeed. Hún á börnin Maxwell 7 ára og Ace 6 ára. 

„Ég vissi að sumar fyrirsagnirnar yrðu réttar og ég vissi að sumar yrðu ekki réttar, það er eitthvað sem ég hef enga stjórn á. Þess vegna er svo magnað að hafa skrifað mín eigin orð sjálf, því þetta er mín saga, minn sannleikur og enginn annar getur sagt mér hvað býr í hjarta mínu,“ sagði Simpson. 

„Börnin mín vita að mamma drekkur ekki vín því það gerir hana ruglaða. En áfengið gerði mig aldrei vonda. Fólk vissi ekki að ég átti við vandamál að stríða. Það vissi undir lokin að þetta var að verða of mikið, að ég var ekki eins og ég átti að mér að vera og var ekki viðstödd í herberginu. Þannig að þegar ég útskýrði það fyrir börnunum mínum skildu þau að mamma væri að lifa sínu besta lífi,“ sagði Simpson. 

mbl.is