Eru meira heima með tvíburunum

Vera og Páll með tvíburana Klöru Sól og Gabriel Þór.
Vera og Páll með tvíburana Klöru Sól og Gabriel Þór. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin Páll Palomares og Vera Panitch eru hljóðfæraleikarar í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þau eiga tvíburana Gabriel Þór og Klöru Sól sem eru tíu mánaða og því er mikið líf á heimilinu núna þegar heimaveran er meiri en oft áður. 

„Við erum bæði fiðluleikarar og gegnum leiðarastöðum við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það gengur bara vel að vinna heima, við hjálpumst að á heimilinu og skiptumst á að passa börnin og æfa okkur,“ segir Páll um lífið þessa dagana. 

Þið eruð kannski vön að æfa ykkur heima en hvernig er það með litla tvíbura á svæðinu?

„Vera er hrifnari af því að æfa heima, ég er meira fyrir að fara eitthvað annað og æfa mig. En þessa dagana erum við bæði heimavinnandi. Það er mikil breyting á okkar vinnuferli að hafa tvíbura hjá okkur, við fáum ekki alltaf að ráða hvenær við æfum og hve lengi en það hjálpar okkur vera skipulagðari og nýta tímann betur.“

Hvernig taka börnin í heimavinnuna?

„Þegar þau fæddust gátum við ekki spilað nótu án þess að þau færu bæði að grenja en sem betur fer breyttist það fljótt og núna geta þau verið að dunda sér meðan við spilum alls konar tónlist fyrir þau. Þau eru líka nýbyrjuð að dansa við tónlist og elska það – það er mjög krúttlegt að sjá!“

Páll segir börnin ekki vera komin á leikskóla. Fyrst um sinn hafi þau bæði verið í fæðingarorlofi en upp á síðkastið hefur Vera verið ein heima með börnin. 

„Þetta nýja ástand hefur aftur á móti gert að verkum að við erum bæði heima og getum eytt meiri tíma með krökkunum og tengst þeim betur.“

Hvernig tónlistaruppeldi fá börnin?

„Fyrir utan fiðluna þá erum við með fullt af leikföngum sem spila mikið af mismunandi tónlist sem Vera og tengdó eru búnar að velja sérstaklega. Svo erum við, eins og margir aðrir, að hlusta á Spotify heima og hlustum ekki endilega bara á klassík. Við erum svo í ungbarnasundi Snorra þar sem mikið er lagt upp úr söng, dansi og takti og svo syngjum við lög fyrir þau heima ásamt mörgum öðrum barnalögum frá Rússlandi, Danmörku, Spáni og Íslandi. Á endanum finnst þeim mjög gaman að glamra á píanó sem við eigum, það kemur meira að segja fyrir að þau hitta á réttar nótur inn á milli!

Svo munum við að sjálfsögðu hlusta saman á valda tónleika sinfóníunnar sem sjónvarpaðir verða fimmtudagskvöldum á RÚV 2 á meðan á samkomubanninu stendur.“


Það er nóg að gera heima hjá hjá Páli og …
Það er nóg að gera heima hjá hjá Páli og Veru. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka