Vill alls ekki eignast fleiri börn

Fleiri börn eru ekki á dagskrá hjá Kim Kardashian West.
Fleiri börn eru ekki á dagskrá hjá Kim Kardashian West. skjáskot/Instagram

Raunveruleikastjarnan Kim Kardashian West segir að allar hugmyndir sem hún hafði um að eignast fleiri börn séu flognar út um gluggann eftir að hafa verið í sóttkví síðustu vikur.

Kardashian West og eiginmaður hennar Kanye West eiga fjögur börn, North, Saint, Chicago og Psalm, á aldrinum eins til sex ára. Þau hafa verið í sjálfskipaðri sóttkví heima vegna kórónuveirunnar.

„Að vera heima með fjögur börn; ef mér datt það nokkurn tímann í hug að mig langaði í annað barn, þá er það algjörlega flogið út um gluggann. Þetta er mjög erfitt,“ sagði Kardashian West í viðtali við The View. 

Henni hefur þótt erfitt að hafa ofan af fyrir börnunum en segir að það sé mjög góð tilbreyting að eiginmaður hennar, West, sé mun meira heima en vanalega. 

„Ég elska þegar hann er heima því venjulega ferðumst við bæði svo mikið, þannig að þetta hefur verið frábært,“ segir Kardashian West.

Fjölskyldan fer í göngutúra og horfir á kvikmyndir saman. „Þetta er svo gaman, ég elska þennan tíma saman. En ég hef séð um þvottinn, eldamennskuna og börnin voru að fara í páskafrí sem betur fer. Að vera kennarinn þeirra líka ... ég ber gríðarlega mikla virðingu fyrir kennurum. Þeir eiga allt gott skilið. Það hefur verið erfitt að halda öllum þessum boltum á lofti,“ sagði Kardashian West. 

Hún segir að þrátt fyrir að vera þakklát fyrir tímann með fjölskyldunni sakni hún þess að hitta stórfjölskylduna, systur sínar og börnin þeirra. 

„Það hefur verið erfitt. Við borðum kvöldmat saman á Zoom. Við tölum saman á hópsamtali allan daginn, ég hringi á FaceTime í ömmu og systur mínar. Þetta hefur verið mikil áskorun. Börnin okkar hafa ekki hist lengi, frændsystkinin hafa ekki leikið sér saman lengi, þetta hefur verið mjög erfitt fyrir þau,“ sagði Kardashian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert