Kynferðisofbeldi gegn börnum er algengt

Öll börn eiga skilið að lifa lífinu án ofbeldis.
Öll börn eiga skilið að lifa lífinu án ofbeldis.

Sigríður Björnsdóttir, verkefnastjóri Barnaheilla og sálfræðingur á EMDR-stofunni, hefur í 16 ár frætt fagfólk og foreldra um forvarnir gegn kynferðisofbeldi. Hún segir að foreldrar ættu ekki alltaf að ganga út frá því að hægt sé að treysta fólki. Hins vegar er vitað að kynferðisofbeldi gegn börnum á sér oftast stað heima hjá barninu og af einhverjum sem barnið þekkir og treystir.

Sigríður er einn af stofnendum Forvarnafélagsins Blátt áfram sem sameinaðist Barnaheillum á síðasta ári. Hún segir aprílmánuð sérstakan í sínum huga þar sem hann er alþjóðlegur mánuður gegn ofbeldi gagnvart börnum. 

Ein af hverjum þremur stúlkum verður fyrir kynferðisofbeldi

„Þegar unnið er að forvörnum gegn kynferðisofbeldi alla mánuði ársins er ánægjulegt að fleiri þjóðir sameinist um að vernda börn gegn ofbeldi í einn mánuð á ári. Með slíku átaki er verið að sýna að ofbeldi gegn börnum er alþjóðlegur vandi og brýnt að Ísland eins og önnur lönd taki fleiri skref í að gera Ísland að betri stað fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Þetta er hægt að gera með því að tryggja að foreldrar hafi þá þekkingu, færni, hæfileika og bjargir sem þarf til að vernda börn sín. Í sameiningu getum við stuðlað að góðri félagslegri og tilfinningalegri líðan barna og komið í veg fyrir vanrækslu innan fjölskyldna og samfélagsins.

Barnaheill, með forvarnaverkefninu Verndarar barna gegn kynferðisofbeldi á börnum, vilja vekja athygli á málaflokknum.“

Sigríður Björnsdóttir, verkefnastjóri Barnaheilla og sálfræðingur á EMDR-stofunni.
Sigríður Björnsdóttir, verkefnastjóri Barnaheilla og sálfræðingur á EMDR-stofunni.

Sigríður er sálfræðingur að mennt og starfar nokkra daga í viku á EMDR-stofunni þar sem hún fær til sín skjólstæðinga sem eru að vinna úr áföllum á þessu sviði. 

„Kynferðisofbeldi gegn börnum er algengara en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Talið er að um ein af hverjum þremur stúlkum og einn af hverjum fimm drengjum á Íslandi verði fyrir kynferðisofbeldi fyrir 18 ára aldur. Það eru á milli 20-30 % barna í hverjum skóla sem eiga eftir að verða fyrir kynferðisofbeldi ef ekkert er gert í málinu. Fyrir um 16 árum, þegar Blátt áfram hóf starfsemi, var þetta mikið „tabú“ og lítið talað um fyrirbyggjandi þætti til að stöðva ofbeldi á börnum. Í dag eru börn að fá fræðslu í fyrsta til þriðja bekk grunnskóla, en þó eru ekki allir skólar sem sinna þessu. Við eigum enn langt í land með að vernda börn gegn kynferðisofbeldi. Það eru ótal tækifæri til að hafa áhrif á og fræðast um forvarnir, um leiðir til að vernda barn áður en það þarf að fá hjálp eða aðstoð í kjölfar ofbeldis.

Það er fátt eins þungbært eins og að sitja gegnt foreldri sem segir „ég brást barninu mínu“.“

Ekki eðlislægt að vilja ræða erfiða hluti

Flestir sem fá fræðslu átta sig á hversu einfalt það er í raun að fyrirbyggja ofbeldi á börnum. Rannsóknir sýna að það er okkur ekki eðlislægt að vilja ræða erfiða hluti eða stöðva ofbeldi.

„Þetta þarf að læra og þjálfa og fólk þarf að hafa vilja til úrlausna. Það er mikið í húfi og þess vegna mikilvægt að halda stöðugt áfram og að við hjálpumst að við að vernda börn. Það á ekki eingöngu að vera á ábyrgð stofnana eða foreldra, heldur þarf þetta að vera samvinna um fræðslu til fullorðinna fyrst og svo til barna.“

Er ofbeldi gegn börnum falið og þurfum við allir foreldrar að vera meðvitaðir?

„Ofbeldi gegn börnum er gjarnan falið. Það getur líka verið að gerast í kringum okkur og verið sýnilegt, en oft veljum við að horfa fram hjá því. Ofbeldi getur verið á svo margvíslegan máta. Í gegnum síma og netið, augngotur, hunsun, líkamleg tjáning, höfnun og svo líkamleg snerting og barsmíðar. Ung börn vita oftast ekki að það sem er að gerast sé ofbeldi fyrr en það hefur jafnvel verið að gerast í töluverðan tíma, sérstaklega ef þetta er einhver sem þau treysta og þeim þykir vænt um. Allir foreldrar þurfa að vera vakandi fyrir því, fækka tækifærum og spyrja sig spurningarinnar: „Hvað þarf ég til að tryggja að barnið mitt sé öruggt?““

Ef foreldrar fræðast aðeins um eðli ofbeldis og átta sig á aðferðum þeirra sem beita börn ofbeldi eru meiri líkur á að hægt sé að fyrirbyggja það. Þannig er hægt að stuðla að heilbrigðu lífi og bjartari framtíð barnsins. Foreldrar verða að afla sér þekkingar og fá fræðslu um kynferðisofbeldi, með því að taka frumkvæðið og verða foreldri sem verndar.

„Æskan mótar okkur til langs tíma og misbrestur í uppeldi getur valdið lágu sjálfsmati, vantrausti til annarra og neikvæðu viðhorfi til heimsins. Sem dæmi: „Ég er hræðilegur, foreldrar eru hræðilegir, ég get ekki treyst neinum.“

Erfiðleikar á fyrstu árum í lífi barns getur haft langavarandi áhrif á viðbragð líkama og huga við streitu sem hefur áhrif á heila og þar af leiðandi þroska barna.“

Foreldrum finnst þeir ekki fá nægan stuðning

Sigríður segir mikilvægt að við kennum börnum orð fyrir tilfinningar og aðferðir til að róa sig. 

„Miklar tilfinningar geta verið óþægilegar fyrir lítinn líkama. Þegar börn fá orð og aðferðir til að sýna tilfinningar sínar líður þeim betur. Eins er gott að spyrja hvaða fjölskyldureglur viltu hafa í fyrirrúmi þegar kemur að fyrirbyggjandi leiðum til að vernda barnið þitt frá því að verða fyrir kynferðisofbeldi? Ef nýir aðilar koma að gæslu eða skóla barna þinna er gott að gefa því sérstakan gaum. Hafðu samband við stjórnendur þar sem börnin þín dvelja og fáðu upplýsingar um þjálfun og menntun þeirra sem sinna börnum. Ef þú færð hjálp við pössun barna þinna þarf að leiðbeina með skýrum reglum hvar pössun á að eiga sér stað og hverjir hafa aðgang að barninu við slíkar aðstæður.

Við viljum ekki ganga út frá því að það sé ekki hægt að treysta fólki. Hins vegar er vitað að kynferðisofbeldi á börnum á sér oftast stað heima hjá barninu og af einhverjum sem barnið þekkir og treystir. Stétt og staða einhvers segir ekki til um hvort hægt sé að treysta aðilanum fyrir barni.“

Sigríður segir að þau mál sem eru helst að koma inn á borð til Barnaheilla um þessar mundir séu mál foreldra sem finnst þau ekki fá nægan stuðning, þegar upp kemst um ofbeldi á barni þeirra. 

„Málin eru viðkvæm og misjöfn eins og þau eru mörg. Oftast er verið er að óska eftir leiðsögn og hvernig best sé að styðja við barnið við erfiðar aðstæður. Við vísum flestum málum áfram í barnahús eða til barnaverndarnefnda. Svo eru aðrir sem eru sáttir við eitt stutt spjall. Við viljum því minna á tölvupóstinn radgjof@barnaheill.is.“

Kynferðisofbeldi gegn barni hefur alltaf mjög alvarlegar afleiðingar út lífið

Hver eru alvarlegustu ofbeldisverkin sem framin eru á börnum í dag?

„Ekki er hægt að taka eitt ofbeldisverk fram yfir annað. Vanræksla á barni sem felur í sér skort á nauðsynlegri umönnun og ofbeldi (kynferðislegt, andlegt og líkamlegt) er líklegt til að leiða af sér skaða á þroska barns.

Kynferðisofbeldi á barni af einhverjum sem barnið treystir hefur mjög alvarlegar afleiðingar fyrir það út allt lífið.“

Hver eru skammtímaáhrif þess konar ofbeldis?

„Dæmi um skammtímaáhrif ofbeldis eru streitueinkenni, stutt er í tár eða pirring og börn draga sig í hlé. Þau geta átt erfitt með svefn og og sýnt hegðunar- og tilfinningavanda. Líkamleg áhrif hjá börnum koma oft fram sem maga- og höfuðverkur. 

En langtímaáhrif?

„Dæmi um langtímaáhrif af ofbeldi er streitueinkenni sem valda kvíða og þunglyndi. Hegðunarvandkvæði koma þá í ljós og eiga börn erfitt uppdráttar í skóla í kjölfarið og eiga erfitt með að mynda náin tengsl við aðra. Langtímaáhrif af endurteknum áföllum á æviskeiðinu er í daglegu tali kallað flókin áföll (complex trauma) og hefur ACE-rannsóknin sem var gerð á síðasta áratug sýnt fram á mikilvægi þess að gripið sé fyrr inn í líf barna og veita foreldrum aðstoð við uppeldi.

Barn sem býr við ofbeldi og streitu í langan tíma þróar með sér kvíðaeinkenni sem valda gjarnan heilsufarsvanda og eru m.a. sterk tengsl við fíknivanda sem upp getur komið í kjölfarið. Unglingar sýna mótþróa og sótt er í óhjálpleg bjargráð eins og áfengi og fíkniefni. Langtímaáhrifum má líkja við jarðskjálfta sem getur valdið djúpum og miklum sprungum í jörðu og því að byggingar eru ótraustar mörgum árum seinna. Vandi eftir áfall getur komið fram mörgum árum seinna og er ekki endilega augljóslega tengd upplifun og reynslu úr barnæsku.

Eitt af mínum verkefnum hefur verið að kynna ACE-aðferðina og niðurstöður þeirrar rannsóknar fyrir heilbrigðisstarfsfólki. Það kemur skýrt fram í rannsókninni að afleiðingar áfalla í æsku er leiðandi fyrir orsakir sjúkdóma á fullorðinsárum og ótímabærs dauða.“

Er von fyrir alla, sama í hverju þeir lenda, í að þínu mati?

„Það er von fyrir alla vil ég segja, já. Þegar fólk fær aðstoð fyrr á lífsleiðinni eru tækifæri fyrir betra líf. Það getur reynst flókið fyrir barn eða ungmenni að segja frá ofbeldi og vanlíðan þegar tilveran virðist vera vonlaus. Það er því mikilvægt fyrir börn og ungmenni að skilja hvers vegna þeim líður eins og þeim líður þrátt fyrir að það sé einhver tími liðinn frá því að ofbeldið átti sér stað. Með viðeigandi aðstoð fer fólki oft að líða betur. Það getur tekið tíma en það eru margar leiðir til í dag til þess að vinna úr áföllum. Flókin áföll geta truflað heilbrigðan þroska en við vitum nú orðið meira um heilann og starfsemi hans og það er margt sem fólk getur gert til að bæta upp fyrir það sem það fékk ekki í æsku.“

Fangelsi landsins full af fólki sem hefðu þurft stuðning fyrr

Hvernig getum við sem samfélag stutt við börn í vanda?

„Foreldrar eru í mikilvægasta hlutverkinu til að hlúa að og vernda börn sín. En þegar vandi kemur upp hjá börnum eru foreldrar oft ráðalausir um hvert skuli leita eftir þjónustu og aðstoð. Öll þjónusta er snýr að börnum í vanda ætti að vera niðurgreidd að fullu og þjónusta sem felur í sér fræðslu, námskeið og ráðgjöf ætti að standa foreldrum til boða til 18 ára aldurs. Flestir foreldrar standa sig vel í uppeldishlutverkinu og börn þeirra þroskast og dafna. Börn í áhættuhópi eiga hins vegar flest foreldra sem þurfa stuðning við uppeldishlutverkið og stuðning fyrir sig og börnin sín.

Það eru breytingar í vinnslu á starfsemi Barnaverndar og verður áhugavert að sjá hversu víðtæk sú breyting verður. Ég myndi vilja sá aukna þekkingu í heilbrigðiskerfinu á afleiðingum af áföllum á líf fólks.

Með vitneskju um hversu einföld en ákveðin skref þarf til að fyrirbyggja ofbeldi á börnum ættum við sem samfélag að setja allt okkar fjármagn og mannauð í að veita börnum í vanda og foreldrum þeirra stuðning án biðlista fyrir fyrstu þjónustu. Ég fylgist með hvað ríki með miljón íbúa veita miklu fjármagni í velferðarkerfi. Við sem lítil þjóð eigum að sjá sóma okkar í því að hlúa að börnum og skapa betri framtíð.“

Hvað segir þú um skoðun þeirra sem segja að börn í vanda fái meðaumkun samfélagsins og skilning þar til þau verða fullorðin og byrja að sýna sömu hegðun og þeim var sýnd?

„Ég segi stundum meitt fólk meiðir fólk. Ef við hjálpum ekki börnum þegar þau þurfa á stuðningi að halda getur vandinn orðið meiri hjá unglingum og enn verri á fullorðinsárum. Börn í vanda verða annað hvort hluti af vandanum eða hluti af lausninni. Hvort viljum við velja? Fangelsi landsins eru full af fólki sem hefði þurft á stuðningi að halda fyrr á lífsleiðinni. Ef við gefum börnum og síðar ungu fólki tækifæri og hjálp fyrr, eru meiri líkur á að vandinn verði þess vegna minni.“ 

Sigríður segir að allar stéttir heilbrigðisgeirans þurfi að hafa svigrúm til að fara ofan í kjarnann svo hægt sé að taka heildstætt á vandanum í staðinn fyrir að plástra hann í sífelldu með bótum sem ekki virka til lengri tíma. 

mbl.is