Sonurinn í áfalli yfir ótrúlegum fjölda pósta

Chris Pratt á son sem fylgist vel með tölvupóstum föður …
Chris Pratt á son sem fylgist vel með tölvupóstum föður síns. AFP

Sjö ára sonur leikarans Chris Pratt var í miklu áfalli þegar hann sá hversu marga tölvupósta faðir hans átti eftir að lesa. Pratt greindi frá því á Instagram að því er fram kemur á People að hann hefði óvart eytt öllum tölvupóstunum eftir hneykslan sonar síns. 

Sonurinn Jack verður átta ára í ágúst en Pratt á Jack með fyrrverandi eiginkonu sinni, leikkonunni Önnu Faris. Sonurinn var að leika sér með síma föður síns þegar hann tók eftir því hversu ótrúlega marga tölvupósta faðir hans ætti eftir að lesa. Pratt átti eftir að lesa rúmlega 35 þúsund tölvupósta. 

Pratt sagði reyndar að flestir tölvupóstarnir væru ruslpóstar sem hann eyddi aldrei. Hann væri nefnilega afar duglegur að skrá netfangið sitt hér og þar. Pratt setti sér það markmið að eyða þúsund póstum á dag en á einhvern hátt náði hann eyða öllum þannig að ruslhólfið fylltist hjá honum en þá voru yfir 51 þúsund tölvupóstar í ruslinu. 

mbl.is