Skiluðu ættleiddum syni með einhverfu

Myka Stauffer ásamt eiginmanni og fimm börnum. Nú hefur sonurinn …
Myka Stauffer ásamt eiginmanni og fimm börnum. Nú hefur sonurinn Huxley fengið nýtt heimili. Skjáskot/Instagram

YouTube-stjarnan Myka Stauffer og eiginmaður hennar, James Stauffer, greindu frá því í myndbandi á YouTube á dögunum að ættleiddur sonur þeirra Huxley hefði fengið nýtt heimili. Hjónin ættleiddu Huxley frá Kína fyrir tæpum þremur árum. 

Huxley er með einhverfugreiningu en hjónin vissu ekki hversu mikla aðstoð hann þyrfti þegar þau ættleiddu hann. Þau segjast hafa reynt að hjálpa syni sínum eins mikið og þau gátu. Þau segjast elska Huxley en þrátt fyrir það hefur hann nú fengið nýja móður sem honum líður vel hjá að sögn Stauffer-hjónanna. Mikil vinna var lögð í að finna rétta framtíðarheimilið fyrir Huxley. 

Hjónin sem eiga fjögur önnur börn segjast hafa reynt sitt besta en þetta hafi verið of mikið fyrir þau. Hjónin eru miður sín í myndbandinu og gráta meðal annars. Þau segjast aðeins vilja það besta fyrir Huxley. 

Viðbrögð fólks við fréttunum hafa verið mismunandi. Á meðan margir óska Huxley litla góðs gengis á nýjum stað og segjast sakna hans eru aðrir sem fordæma hjónin. Mikil umræða hefur skapast á Twitter þar sem hjónin eru sögð hafa farið með Huxley eins og hvert annað gæludýr. 
mbl.is